12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6269 í B-deild Alþingistíðinda. (4322)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa hér uppi langt mál, en lýsi strax í upphafi máls míns andstöðu við brtt. sem hér hefur verið mælt fyrir.

Hv. 1. flm. tillögunnar hefur sérstaklega fært fram þau rök fyrir þessum tillöguflutningi að sem allra mest þurfi að okra á bjórnum verði hann leyfður, auk þess sem brýnar þarfir séu fyrir fjármagn til safnamála, og talar um í því samhengi að stofna þurfi nokkurs konar Carlbergssjóð sem þekktur er í Danmörku. Það er svolítið annar tónn í hv. ræðumanni um Carlsberg gamla en var um daginn þegar við vorum að ræða þetta sama mál.

En til þess að svona megi verða, að okrað verði á bjórnum, ætlar hann að leggja sitt af mörkum, hv. þm., m.a. með þessum tillöguflutningi og þá væntanlega í von um að tillaga hans verði samþykkt og þá frv. væntanlega líka. Hann ætlar hins vegar að halda áfram baráttunni fyrir því að frv. sjálft nái ekki fram að ganga. Þetta sýnist mér bera vott um ósamræmi í málflutningi ef ég skil hv. þm. rétt. Hann vill fá þessa brtt. sína samþykkta, síðan ættar hann að greiða atkvæði gegn frv., en hlýtur að vona undir niðri til þess að þetta fjármagn fáist nú til þessara viðfangsefna ... (SvH: Þetta er útúrsnúningur sem ég átti von á.) Er það útúrsnúningur? (SvH: Já.) Jæja, það verður þá væntanlega leiðrétt ef ég skil ekki hv. þm. rétt. Hann vill fá þetta fjármagn til safnamála í gegnum sölu á bjór sem hann vill hins vegar ekki að verði seldur í landinu. Ég sé enga heila brú í þessum málflutningi.

En ég ætla strax að segja það að mér þykir sjálfsagt eins og hv. 1. flm. að bjórinn verði seldur dýrt, það þykir mér sjálfsagt, jafnvel að það verði okrað á honum ef menn vilja endilega nota það orð. En þessi er skoðun mín vegna þess að ég tel að með verðstýringu megi hafa áhrif á neysluna, m.ö.o. að þeim mun frekar verði hóf á neyslunni sem bjórinn verði dýrari. Þar gildir alveg sama lögmálið og um verð á öðrum áfengistegundum. Hins vegar teldi ég óskynsamlegt að haga verðlagningu á bjór þannig að í algeru ósamræmi yrði við verðlag annars áfengis, þ.e. að bjórinn yrði svo dýr að menn sæktu fremur í sterkustu tegundirnar eins og raunin er nú vegna þess að menn eiga ekki kost á öðru.

Ég er ekkert viss um að það sé svo mikill ágreiningur á milli þingmanna í þessari hv. deild um verðlagningu á bjór. Ég er ekkert viss um að það sé svo mikill ágreiningur um það, við séum í raun og veru sammála um að hann eigi að selja dýrt eins og allt annað áfengi. Þess vegna er það út í hött náttúrlega hjá hv. þm. að vera að tala um að það ætti að verða tillaga að mér skildist heilbrmrh. að gefa bjórinn. Þetta er auðvitað ekki sæmilegur málflutningur.

Það er hins vegar ágreiningur um hvort verja eigi tiltekinni upphæð af söluverði hverrar bjórflösku til ákveðinna viðfangsefna sem hið opinbera annars fjármagnar og á að fjármagna. Ríkisstjórnir og þá ekki síst fjmrh. ýmsir hafa oft sýnt mikið hugmyndaflug þegar þeim hefur verið fjár vant. En hér sýnist mér nú menn fara með himinskautum eins og einhver kynni að hafa orðað það. Hér á sem sagt að afla fjár með skattlagningu á bjór til sérstaks safnasjóðs sem hafi að hlutverki vöxt og viðgang safna í landinu, Þjóðminjasafns, Þjóðskjalasafns, Náttúrufræðisafns, Snorrasafns í Reykholti og enn fleiri menningarhlutverk sem sjóðnum kunna að verða falin „er fram líða stundir“, eins og segir í till.

Menn hafa illa treyst sér til að áætla árlega sölu á öli, en ýmsar tölur hafa verið nefndar. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hv. þm. Sverrir Hermannsson nefndi töluna 7 milljónir lítra. Var það ekki rétt? Ég hef heyrt enn hærri tölur nefndar. 10 milljónir lítra hef ég heyrt nefnda og reyndar enn hærri. En ef við tökum nú hærri töluna, 10 milljónir, þýðir þetta 150 millj. kr. á ári til þessa safnasjóðs. Út af fyrir sig veitir sjálfsagt ekkert af þeirri upphæð til þessara safnamála. Ég lýsi hins vegar fullri andstöðu við þá leið sem hér er lögð til að farin verði til að ákveða fjárframlög til safnamála og enn fleiri menningarhlutverka sem sjóðnum kunna að verða falin „er fram líða stundir“, eins og segir í till. Það hefur verið og á að vera áfram hlutverk Alþingis að ákveða þau framlög og það á að gera árlega við afgreiðslu fjárlaga. Það á ekki að vera hlutverk einhverrar þriggja manna sjóðstjórnar sem menntmrh. skipar að ráðstafa slíkum upphæðum til safnamála eða annarra menningarmála.

Svo á þessi þriggja manna stjórn sjálf að setja safnasjóði stofn- og skipulagsskrá, eins og segir í síðustu málsgr. brtt. Þetta þykir mér vera mjög óeðlilegt ákvæði. Að stjórnin sjálf, eftir að skipuð hefur verið, setji sér reglur um hvernig hún á að vinna. (SvH: Hvernig endaði þessi málsgrein?) Hún endar á „sem háð er samþykki ráðherra“. Það er alveg rétt. Ég ætlaði mér ekki að sleppa því og tek það fram að þetta skuli háð samþykki ráðherra. En mér þykir það samt óeðlilegt að sjóðstjórn sem ráðherra hefur skipað skuli setja sér reglur þótt ráðherrann þurfi að samþykkja þær.

Það hefur komið hér fram hver kveikjan var að þessari tillögugerð. Hún varð uppi í Þjóðminjasafni, sagði hv. flm., og ég hafði satt að segja látið mér detta það í hug að þar hefði hugmyndin kviknað vegna þess að flm. fjórir eiga allir sæti í nefnd sem hefur unnið að frumvarpsgerð um Þjóðminjasafn og það frv. er þegar komið fram. Þessum hv. flm. hefur öllum verið sýndur trúnaður í sambandi við safnamál og ég efast ekkert um að þeir hafa mikinn áhuga á þeim mikilvæga málaflokki.

En það breytir ekki því að mér sýnist svona till. ekki vera Alþingi boðleg. Alþingi á ekki að afsala sér fjárveitingavaldinu á neinn hátt. Það á þingið ekki að gera. En það hefur því miður of oft orðið raunin að Alþingi hefur gert svo, sérstaklega þegar þingmenn hafa ekki haft þrek til að standa gegn tillögum um ýmis þjóðþrifamál eða skattlagningu til ýmissa þjóðþrifamála. Ég nefni sem dæmi að fyrrv. menntmrh. og 1. flm. þessarar brtt. beitti sér á sínum tíma fyrir framlengingu á sérstökum eignarskatti sem þá skyldi varið til að fjármagna byggingu Þjóðarbókhlöðu. Ég studdi hv. þm. og þáv. hæstv. menntmrh. til þeirra verka, en var mjög í vafa um réttmæti þeirrar aðferðar. Ég get hins vegar ekki stutt hann nú í þessari tillögugerð hans. Reyndar hefur það komið á daginn að ekki reyndist sú tekjulind til byggingar Þjóðarbókhlöðu fyllilega örugg, a.m.k. ekki hvað varðar útborgun eða ráðstöfun fjárins á þeim tíma sem það til fellur. Og það veit ég að hv. þm. var mjög óánægður með og hefur lýst í þessum ræðustól.

Reynslan af þessari aðferð er slæm. Það nægir í því sambandi að nefna hina árlegu uppákomu hér í þinginu við afgreiðslu lánsfjárlaga þegar upp er talið í langri runu að þrátt fyrir ákvæði þessara og hinna laganna um tiltekin fjárframlög skuli þau ekki nema hærri fjárhæð en greinir í lánsfjárlögum. Þetta upplifum við hér á hv. Alþingi á hverju einasta ári og lýsum gjarnan óánægju okkar með. Við eigum þess vegna að hætta að vera að eyrnamarka tekjustofna til ákveðinna viðfangsefna.

En þetta vilja hv. flm. Þeir vilja fara þessa leið. Og ég sé í frv. sem þeir hafa samið til þjóðminjalaga að þá eru þeir enn með hliðstæðar tillögur. Þar leggja þeir til að framlag ríkissjóðs til Húsafriðunarsjóðs nemi 47 kr. á hvern íbúa landsins, árlegt framlag, og ekki nóg með það heldur hliðstætt framlag sveitarfélaganna í landinu til þessa sama sjóðs. Mér sýnist þetta vera alveg ónothæf aðferð til að veita opinberu fé í tiltekin viðfangsefni og þykir sem alþm. eigi að hætta þessu.

Hin árlega fjárlagaafgreiðsla er rétti farvegurinn sem fella á opinberar fjárveitingar í. Ég skora því á hv. þingdeildarmenn að fella þessa till. hver sem afstaða þeirra er til frv. sjálfs.