12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6275 í B-deild Alþingistíðinda. (4325)

293. mál, áfengislög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að fara að kvarta undan því að hv. 1. flm. dagskrármálsins væri því miður ekki viðstaddur, en hann er genginn í salinn.

Ég byrja á því að þakka einum ágætum þingmanni fyrir alveg frábæra ræðu í þessu bjórmáli og ég hefði kannski átt að þakka öðrum líka til viðbótar og ég geri það, hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, sem flutti alveg frábæra ræðu í bundnu máli og var hún mjög fróðleg, en sá þingmaður sem ég er með í huga flutti sína ræðu fyrir nokkrum dögum þegar málið var á dagskrá áður og það var Geir Gunnarsson, hv. 5. þm. Reykn., sem talaði gegn þessu bjórfrv. Ég hef talað gegn þessu frv. og er sama sinnis og ég hef alltaf verið þegar þetta mál hefur komið á dagskrá, á móti því að bjór verði gefinn frjáls eins og um er rætt eða á þann hátt sem hér er talað um. Og ég held að það skipti ekki nokkru máli hvort bjórinn verður eitthvað pínulítið dýrari, 5 kr. dýrari á hverja 33 cl. Ég held að það sé nú ekki svo mikið álag að menn hætti við að kaupa hann þess vegna. Krónan er orðin svo lág. Hún er orðin lægri núna en hún var áður en núllin voru tekin aftan af í okkar útreikningum þannig að þetta er ekki fráhrindandi.

En ég kem aðallega upp til að lýsa ótta mínum við að það kannski aukist smygl, fólk verði þyrstara eftir því sem talað er meira um þann drykk sem ekki er til sölu og geri þá bara meira í því að fá bjórinn eftir því sem meira er talað um hann og hvað sem hann kostar. Við erum með þessum umræðum, með þessum langa drætti á afgreiðslu málsins að tefja málið, ég tala nú ekki um það ef enn þá einu sinni á lokastigi afgreiðslu málsins hafi ábyrgir aðilar í ríkisstjórninni, eins og ég hef heyrt fleygt fram, ætlað sér að koma fram með tillögu nú um að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þetta hugleysi alþm. um að taka ekki ákvörðun eigi enn einu sinni að koma í ljós. Ég vil ekki fella bjórinn á þeim forsendum að alþm. skorti hugrekki til þess að afgreiða málið og vona að þjóðin geri það fyrir þá. Ég vil bara biðja hv. þm. og hæstv. ráðherra, sem eru að búa til þá tillögu sem mér er sagt að sé í vændum, að leggja hana ekki fram, koma ekki fram með hana heldur láta á það reyna hvort alþm. hafa kjark til að standa við þær skoðanir sem þeir hafa látið í ljós. Ég er á móti bjórnum og vil fá að greiða atkvæði á Alþingi og vil þá verða undir í atkvæðagreiðslu frekar en vera við það riðinn að vísa málinu frá af ótta við að tapa atkvæðum í kosningum.

Flm. vita það allan tímann að ég hef verið á móti þessu og það kemur þeim ekkert að óvörum. En það segir í lítilli bók sem ég hef stundum dregið upp hér og vitnað í eftir Voltaire: „Ég fyrirlít skoðanir þínar, en ég mun láta lífið frekar en koma í veg fyrir að þú hafir þær.“ Það er sjálfsagt að verja það með kjafti og klóm að menn fái að hafa sínar skoðanir hvort sem manni líkar betur eða verr. Við verðum bara að taka því sem alþm. að verða undir í afgreiðslu mála. Hver maður hér inni hefur langa reynslu í því og þeim mun kannski sætara er það þegar menn eru þátttakendur í að koma einhverju í gegnum Alþingi.

En það er annað sem ég vil segja og taka undir með flm., hv. 2. þm. Reykn., að þrátt fyrir að við hv. þm. Sverrir Hermannsson, 4. þm. Austurl., séum sammála, við erum báðir á móti samþykkt frv. eins og hv. 2. þm. Reykn. leggur það fram, við erum á móti bjórfrv., vil ég taka undir það, sem hv. 2. þm. Reykn. sagði, að ég eins og hann skil ekki af hverju hv. 4. þm. Austurl. er að flytja þessa brtt. á þessu stigi vegna þess að hann er eini andstæðingur bjórfrv. af flm. brtt. Hinir þrír eru bjórfólk. Og þegar tillaga sem þessi er komin til viðbótar við frv. eins og það var lagt fram er það orðið aðlaðandi fyrir þá sem vilja styrkja listasöfnin því að það er auðvelt reikningsdæmi, miðað við höfðatölu þjóðarinnar og miðað við bjórsölu annars staðar, að reikna út hvað selst af bjór á fyrsta ári og hvernig þróunin er. Þá er auðvelt að reikna: hvað fær sá sjóður, sem hv. 4. þm. Austurl. leggur til að verði stofnaður, mikið í sinn hlut? Af hverju eru listasöfnin að missa ef við samþykkjum ekki bjórinn þó við séum á móti honum? Sem sagt: Það er komin ný beita inn í frv. sem við erum báðir á móti. Og þar sem um eins lífsreyndan og góðan þingmann og fyrrv. ráðherra og hv. 4. þm. Austurl. hefur reynst er að ræða, þá skil ég ekki þetta frekar en hv. 2. þm. Reykn. Mér finnst vera svolítill tvískinnungsháttur þarna í.

En það hlægilega við þetta allt saman, nú ætla ég að vera nákvæmur eins og hv. 4. þm. Austurl., er að ef bjórfrv. verður samþykkt er ég sammála hv. 4. þm. Austurl., miðað við þá reynslu sem er af Carlsbergssjóðnum, að svona sjóður skuli stofnaður. En þangað til bjórfrv. hefur verið samþykkt er ég á móti báðum af þeirri ástæðu að verði bjórfrv. samþykkt er kominn hvati, sem ég vil ekki fá inn í daglegt líf á Íslandi, til þess að stofna annan sjóð sem ég held að þó góður sé komi úr rangri átt. Við eigum að geta styrkt okkar Listasafn betur á annan hátt.

En það furðulega er að þó ég tali á móti báðum till. og vari við því að brtt. hv. 4. þm. Austurl. sé hvati til að samþykkja frv. sem ég vil fella er ég sammála þeirri sjóðsstefnu sem þar er lögð til að samþykktu bjórfrv., en ég hefði ekki viljað hengja það svona inn í frv. og gera það að hvata til að samþykkja bjórfrv. Og það furðulega við það er að enn þá verð ég að segja að þó svo ég sé búinn að tala fyrir því að ég sé samþykkur að eyrnamerkja framlag til lista á þennan hátt að samþykktu bjórfrv., sem ég vil fella, er ég á móti því að eyrnamerkja skatta eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Reykn. og fer nú þetta mál að verða flókið. Ég held að í „prinsippinu“ eigum við ekki að eyrnamerkja nákvæmlega með þeim rökum sem hv. 2. þm. Reykn. tók til. Við erum alltaf að breyta fjárlögunum á þann hátt sem hann gat um og takmarka framlög þrátt fyrir lagaákvæði til hinna ýmsu verkefna sem við eigum auðvitað ekki að hafa heimild til að gera því að lög eru lög. Það sem við eigum að gera fyrst og fremst er að virða þau lög sem eru í gildi hverju sinni en ekki breyta þeim til bráðabirgða eftir hentugleikum, heldur eiga þau bara að standa sem lög og við gerum þá lögin þannig úr garði að þau verði óbreytanleg nema þeim sé umturnað af gefnum ástæðum.

Þetta er það sem ég hefði viljað segja, en ég vil taka það fram að ég er á móti frv. Ég mun greiða atkvæði á móti því þrátt fyrir þennan hvata og þrátt fyrir þann vilja sem ég hef til þess að styrkja listasöfnin. Ég mun greiða brtt. atkvæði eftir að hitt málið hefur verið afgreitt ef það verður samþykkt.

En ég vil líka draga athygli að því að verðlagning á áfengum drykkjum, hvort sem það er bjór eða annað, er í höndum Áfengisverslunarinnar, er í höndum fjmrh. Út af fyrir sig er óþarfi að taka fram að til viðbótar við þá verðlagningu skuli vera 5 kr. álagning á hverja 33 cl. Fjmrn. getur alveg skv. frv. gert þá tillögu sem það vill um verðið þó Alþingi verði að sjálfsögðu að samþykkja að stofna sjóðinn sem slíkan.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða einstök atriði, eins og það hvernig sjóðstjórn verði skipuð eða hverjir setja henni reglur eða skipulagsskrá. Það kemur af sjálfu sér og ég óttast ekkert að þar verði öðruvísi að staðið en hingað til hefur verið gert. Hvort það er þriggja manna nefnd eða hvort það er ráðherra einn sem falið er að setja reglugerðir skiptir ekki svo miklu máli. Ég vona bara að frv. verði fellt svo að brtt. komi ekki til atkvæða.

Ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, með því að segja að þrátt fyrir allt þetta verðum við að virða skoðanir þeirra sem eru með andstæðar skoðanir okkar og berjast heiðarlega hver fyrir sínum málstað.