12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6284 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

293. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að þessi tillaga fjórmenninganna er a.m.k. vægast sagt tímaskyssa. Það hefði verið kannski réttlætanlegt að koma með hana fram sem frv. ef sú óhamingja mundi verða hér ákveðin að þetta bjórfrv. verði samþykkt.

Ég kom ekki upp nú til að ræða þetta frekar. Ég vil að það liggi alveg fyrir hér og nú að þó að ég hafi verið á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og sé í eðli mínu á móti henni mundi ég styðja þá leið þar sem maður stendur frammi fyrir því að 90% líkur eru á því að þetta frv. verði samþykkt. Ég segi 90%. Ef það er, sem ég hef heyrt, að það sé umræða í gangi í Ed. um það að skjóta þessu til þjóðarinnar, þá vil ég að það liggi fyrir a.m.k. mín afstaða, að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að bægja frá þeirri hættu, þeim afleiðingum sem ég er fyrir mitt leyti sannfærður um að reynslan muni sýna ef þetta verður samþykkt. Og ég mundi ekki vilja vera í sporum þeirra sem samþykkja þetta mál þegar fram líða stundir.

Það er enginn vafi á að það verður mikil umræða um þetta í þjóðfélaginu. Ég hef orðið var við að það er vaxandi andstaða gegn þessu máli úti í þjóðfélaginu og ég trúi því að ef þeir sem eru á móti þessu og leggja spilin á borðið skýri frá þeim rannsóknum og niðurstöðum, þeirri reynslu sem aðrar þjóðir hafa af þessum málum, muni þjóðin vísa þessu frá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég skora á hv. 5. þm. Reykv. að hugleiða þetta mál. Bæði ég og aðrir þingmenn eiga að hafa kjark til að breyta um skoðun, bæði í þessu máli og öðrum, ef menn halda að þeir geti orðið sinni þjóð að einhverju gagni með því móti. Þetta er þess háttar mál. Það þýðir ekki að ræða við þá sem hafa tekið afstöðu hér á Alþingi. Þeir hafa lokuð eyru. Þeir taka engum rökum. Það þýðir ekki að ræða þessi mál við þá. En það yrði kannski annað úti í þjóðfélaginu eins og mál standa nú.