13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6287 í B-deild Alþingistíðinda. (4333)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það fréttist af því fyrir nokkrum vikum að Ríkisendurskoðunin hefði þurft að fá upplýsingar úr bókhaldi heilsugæslustöðvar hér í landi og hefði ekki getað fengið þar sem menn hefðu borið fyrir sig þá grein læknalaga sem fjallar um trúnað á milli sjúklings og læknis og að það væri óheimilt fyrir lækni eða heilsugæslustöð að hleypa öðrum í þær upplýsingar sem hér um ræðir og leynt eiga að fara samkvæmt lögum og gamalli hefð.

Það er alveg ljóst að frá sjónarmiði yfirvalda er hér um að ræða óviðunandi ástand. Það er óviðunandi vegna þess að yfirvöldum er skylt að sjá til þess að vel sé farið með fjármuni skattborgaranna og að sú þjónusta sem greitt er fyrir sé örugglega innt af hendi. Þess vegna verður endurskoðunarmöguleiki af hálfu ríkisins eða opinberra aðila að vera til.

Ég hefði talið að í rauninni hefði verið heppilegast að leysa mál af þessu tagi með breytingum á almannatryggingalögum þar sem tekið væri fram að þegar læknir vinnur fyrir sjúkrasamlag og eigi rétt á greiðslu skv. almannatryggingalögum fyrir það verk beri honum að haga bókhaldi sínu þannig að yfirvöld, skattyfirvöld og eða Ríkisendurskoðun, geti fengið aðgang að þessum upplýsingum án þess að það þýði um leið að viðkomandi hljóti að fá aðgang að sjúklingabókhaldi eða „sjúrnölum“ svokölluðum.

Nú er hins vegar slíku ákvæði í almannatryggingalögum ekki til að dreifa og það er óhjákvæmilegt að grípa til ráðstafana vegna liðins tíma. Af þeim ástæðum er það frv. flutt sem hæstv. forseti Sþ. hefur mælt fyrir í þessari deild og ég skil vel þau rök sem eru á bak við flutning frv.

Hitt er hins vegar mikið atriði í mínum huga að það sé um að ræða ótvíræðan trúnað milli sjúklings og læknis og að hvergi beri skugga á þann trúnað og ég teldi það beinlínis hættulegt ef yfirvöld grípa til aðgerða sem trufla eða geta truflað það trúnaðarsamband sem þarf að vera á milli læknis og sjúklings. Ég hygg þess vegna að þó að fjármunirnir séu stórir og þýðingarmiklir séu hinir hagsmunirnir einnig mjög þýðingarmiklir, að þessi trúnaður sé til milli læknis og sjúklings og við honum sé hvergi hróflað. Þess vegna er það ætlun Ríkisendurskoðunarinnar við framkvæmd á þeim hugmyndum sem hér eru settar fram í frumvarpsformi að það yrðu trúnaðarlæknar á vegum Ríkisendurskoðunarinnar sem færu yfir bókhald viðkomandi lækna ef á því þyrfti að halda. Það væru læknar sem jafnframt væru bundnir af öðrum ákvæðum læknalaga. Það er út af fyrir sig leið og vonandi tekst að framkvæma hana þannig að það sé þolandi frá sjónarmiði heilbrigðisþjónustunnar ekki síður en frá sjónarmiði fjármálayfirvalda. Hlutverk Alþingis er ekki einasta að gæta fjármálalegra hagsmuna ríkisins heldur líka hagsmuna almennings gagnvart heilbrigðisþjónustunni á hverjum tíma.

Ég á sæti í þeirri nefnd, herra forseti, sem fær þetta mál til meðferðar. Ég áskil mér rétt til að skoða það nánar, kanna hvort rétt er að setja inn ákvæði um þessar skýlausu trúnaðarskyldur með beinni tilvísan til læknalaganna þegar um er að ræða könnun á málefnum af því tagi sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Frv. sem hér er á dagskrá er hins vegar ekki einvörðungu um þau mál sem ég hef gert hér að umtalsefni. Það snertir fleiri þætti í samskiptum Ríkisendurskoðunar og þeirra aðila sem fá greiðslur frá ríkinu fyrir þjónustu. Í þeim efnum er kannski rétt að undirstrika að með þeim tíðindum, sem gerst hafa, að Alþingi hefur tekið við yfirstjórn Ríkisendurskoðunar, hafa auðvitað skapast möguleikar fyrir Alþingi til margvíslegs aðhalds að alls konar stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum í þessu landi sem eru með fjármuni frá ríkinu í sínum rekstri fyrir þá þjónustu sem þeir veita. Alþingi verður hins vegar að fara vel með þetta vald og hóflega og beita því af allri sanngirni, en það minnir okkur líka á að um leið og þessir möguleikar eru til opnast leiðir til að taka fyrir þætti sem til þessa hafa verið býsna lokaðir fyrir yfirvöldum, m.a. fyrir þinginu. Ég hygg að það hefði nú verið vænlegra, svo að ég nefni dæmi, fyrir hæstv. fjmrh. að fara þá leið að kanna hvort Ríkisendurskoðun hefði ekki tök á því að líta á fjármuni Landakotsspítala en hóta honum með bandarísku endurskoðunarfyrirtæki. Ég tel að þær hótanir sem hæstv. fjmrh. hefur haft í frammi við heilbrigðisþjónustuna hafi verið mjög ósmekklegar, að siga á hana endurskoðunarfyrirtækjum frá Ameríku, auk þess sem hæstv. fjmrh. fer ekki með heilbrmrn. sem betur fer. Þetta undirstrikar það atriði að það er eðlilegt að það sé Ríkisendurskoðunin sem fjalli um þessa hluti og þannig fái Alþingi aðgang að þeim.

Ég endurtek, herra forseti, að ég áskil mér rétt til að gera athugasemdir við þetta frv. í meðferð þingnefndar á því. Ég skil nauðsynina, en ég tel að okkur sé jafnframt skylt að hafa í heiðri þau grundvallaratriði sem lögum samkvæmt gilda um samband sjúklings og læknis, grundvallaratriði sem eiga að vera í gildi og við verðum að virða ekki síður en önnur grundvallaratriði.