13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6301 í B-deild Alþingistíðinda. (4339)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég tel mjög miður að læknar skuli blandast svo mjög inn í þetta frv. því mér er það ljóst að það er mikill meiri hluti lækna sem vill hafa þessa hluti á hreinu, alla reikningsfærslu. Það er með þennan þátt eins og annað, svo sem einhvers staðar var sagt, að það eru rónarnir sem koma óorði á brennivínið. Eins er það í þessu tilviki. En hitt er rétt að athuganir á reikningsfærslu lækna hafa orðið til þess að hreyfa við mönnum um það að heimildir séu ekki nægar til að skoða þá hluti sem Ríkisendurskoðun þarf að skoða.

Ég áfellist ekki sérstaklega hv. 11. þm. Reykv. fyrir það að vera andvígur þessu frv. Það virðist vera flokksskoðun Borgarafl. að vera andvígur þessu frv. Ég skil ekki fyllilega hvað liggur því til grundvallar. Ég tel að þau rök sem hv. 11. þm. Reykv. hefur sett fram séu röng. Ég er annarrar skoðunar og tel að það þurfi að tryggja það að Ríkisendurskoðun hafi fulla heimild til að athuga hvort þeir sem framvísa reikningum til ríkisins fari með rétt mál. Það er óskiljanlegt ef menn eru á móti því og liggur mér við að halda að þeir sem það vilja ekki séu sérstakir verndarar þeirrar spillingar sem almennt er vilji fyrir að taka á.