13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6318 í B-deild Alþingistíðinda. (4344)

431. mál, virðisaukaskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Áður en ég hef mál mitt til að ræða frv. sem hér liggur frammi, um virðisaukaskatt, vildi ég leggja það til við hæstv. fjmrh., og biðja hann að bera það erindi til annarra ráðherra þessarar ríkisstjórnar, að láta nú ekki sama vinnulagið dynja yfir í þinglok að vori eins og var um jólaleytið og varð til þess að vinnubrögðin voru langt frá því að vera verjandi. Að hér rigni inn tugum frv. sem næstum enginn tími gefst til að gaumgæfa frá því að þau eru lögð fram á þinginu og þangað til þm. eiga að ræða þau. Þess vegna vil ég leggja áherslu á það að okkur gefist hæfilegur tími til að gaumgæfa málin og reynum að skipuleggja vinnu okkar. Er ekki seinna vænna að fara að gera það ef þingi á að ljúka um miðjan maí eða einhvern tímann í maímánuði. Þingflokksformenn og forsetar þingsins þurfa að koma sér saman um það hvernig á að vinna þau mál sem verða lögð fram, hvaða mál verða lögð fram, hver þeirra þurfa að komast í gegn o.s.frv.

Ég vildi biðja hæstv. ráðherra að fara ekki langt vegna þess að ég vil gjarnan að hann heyri mál mitt. Það er þá fyrst að ræða afstöðu til grundvallaratriða sem tengjast frv. og hæstv. ráðherra minntist á. En það er skattlagning matvæla sem lögð er til sem hluti af því frv. sem hér er til umræðu. Reyndar var ráðherrann hæstv. búinn að vinna sér hæfilega létt verk með því að leggja söluskatt á matvæli þannig að honum finnst líklega að stærsti björninn sé unninn í þessu máli og nú sé lítið annað eftir en kerfisbreyting að forminu til. Kvennalistakonur eru þó áfram, eins og áður, jafnmótfallnar því að leggja skatt á nauðsynjavörur eins og matvæli. Það er ekki síst vegna þess að það kemur sér afskaplega illa fyrir þá sem hafa minnstar tekjurnar og fjölmennastar fjölskyldurnar. Við erum ekki vissar um að þær bætur, sem eiga að skila sér með þessari skattheimtu til þeirra, vegi upp á móti skattlagningunni á matvæli, ekki síst vegna þess hversu matvæli eru stór hluti af neyslu slíkra fjölskyldna. Þess vegna erum við áfram mótfallnar skattlagningu matvæla.

Ég legg áherslu á það að þarna er um grundvallar pólitískan ágreining að ræða og ég held að hæstv. ráðherra ætti að fara sér varlega þegar hann hefur nú mál sitt og byrjar að tala um bábiljur og lýðskrumara vegna þess að þegar Danir t.d. voru að leggja á virðisaukaskatt á sínum tíma fannst þeim mjög erfitt að þurfa að leggja hann á matvæli og reynsla þeirra varð sú að framfærslukostnaður hækkaði mjög snögglega og hafði víxláhrif á kaupgjald og breytti tekjuskiptingunni hinum efnaminni í óhag. Álit margra er einmitt að virðisaukaskatturinn leggist, eins og aðrir söluskattar, hlutfallslega þyngra á þá efnaminni, einmitt vegna þess að þeir verji meiri hluta tekna sinna til neyslu en hinir efnameiri.

Ég vek líka athygli hans á því að á bls. 26 í frv. kemur fram tafla um það hverjir hafa lagt virðisaukaskatt á matvæli og meira að segja í Bretlandi þar sem stjórnarstefnan er ekki alltaf hliðholl almenningi hefur tekist að halda matvælum virðisaukaskattsfríum. Þetta er ákveðið val. Matvæli þar hafa ekki virðisaukaskatt. Ég legg því áherslu á það að þetta er grundvallar pólitískur ágreiningur. Það er ekki um að ræða lýðskrum.

Mig langar samt sem áður af því að ráðherra hafði þennan tón í máli sínu að vísa í hans eigið mál þegar hann hélt ræðu á flokksstjórnarfundi Alþfl. í janúar og beindi máli sínu til stjórnarandstöðunnar, sérstaklega Alþb. og Kvennal. Ég geri þetta af þeirri ástæðu að ég vil leggja áherslu á þennan grundvallarágreining í pólitísku vali. Þá sagði hæstv. ráðherrann, með leyfi forseta:

„Stefnubreyting þessa skattkerfis felst í að afla tekna af hinum betur settu til að greiða út og koma til skila til hinna sem þurfa fyrst og fremst á aðstoð að halda. Svo rísa Alþb. og Kvennal., þessi framtíðaröfl félagshyggjunnar, skilja ekki neitt, hvorki upp né niður, í einhverjum merkustu umbótum sem verið er að gera í þjóðfélaginu, nöldra í síbylju tóma vitleysu, dag og nótt. Vekja þjóðfélagið upp með andfælum sem heldur að það sé að gerast einhver ógurleg, skelfileg breyting í íhaldsátt. (JBH: Þarna var vel að orði komist.)

Eftir nokkur ár," sagði hæstv. ráðherra áfram, með leyfi forseta, og nú ætla ég að gefa hæstv. ráðherranum örlitla kennslustund í sögu, því að ekki veitir af, „verður hlegið að þessu liði [ - Ekki veit ég hvort það var Stjörnulið sem hann átti við og ávarpaði fyrir jólin eins og mörgum er í fersku minni, en hann sagði: þessu liði. — ] eins og körlunum sem komu ríðandi til Reykjavíkur til að mótmæla símanum.“ Og lítið kann hæstv. ráðherrann í sögunni sinni ef hann heldur að bændurnir hafi verið á móti símanum. Nei, það voru þeir ekki frekar en Kvennal., og ég hygg Alþb., eru á móti skattlagningu. Við viljum bara hafa okkar hátt á en ekki háttinn sem hæstv. ráðherra velur. Og nú byrjar kennslustundin í sögu. Og ég ætla þá að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í grein eftir Björn S. Stefánsson í Lesbók Morgunblaðsins 6. júlí 1985. Greinin heitir „Þegar Reykvíkingar voru á móti símanum“.

„Margir halda að sunnlenskir bændur hafi einir verið á móti samningnum við Mikla norræna ritsímafélagið þegar þeir riðu til Reykjavíkur 1905. Sannleikurinn er þó sá að menn voru þá, eins og nú, með eða á móti stjórninni. Bændurnir töldu, eins og margir fleiri, að meiri framtíð væri í samningnum við Marconi. Þegar þið eruð á móti þessu er það eins og þegar sunnlenskir bændur voru á móti símanum. Oft fær fólk þetta framan í sig þegar því líst ekki á einhverja nýjung. Og trúlega er sveitafólki oftar mætt með slíkri athugasemd en öðrum. Síðast sá ég þetta í dagblaði þar sem bóndi einn setti það fram í deilu innan héraðs. Mér þótti því rétt að athuga hverjir hefðu verið á móti símanum og hvers konar síma og komst að því að forustu í andstöðunni gegn símanum höfðu Reykvíkingar.

Þar má fyrst nefna Björn Jónsson, ritstjóra Ísafoldar. Nærri honum stóðu ekki síst þeir sem hófu á þessum árum togaraútgerð hér á landi í Reykjavík, með erlendu fjármagni, og þeir sem voru tengdir Íslandsbanka sem stofnaður var í Kaupmannahöfn árið 1903 með dönsku og norsku fjármagni. Varla var hann á móti samskiptum við útlönd og nýrri tækni. Enn má nefna Einar Benediktsson sem hafði að vísu fengið Rangárvallasýslu árið áður og fluttist þá úr Reykjavík. Alkunnugt er kapp hans að draga Ísland inn í umsvif umheimsins. Hann var sem sagt á móti símanum eins og sunnlensku bændurnir sem riðu til Reykjavíkur um hásláttinn 1905 til að mótmæla. Þar voru fjölmennastir Rangæingar og fyrir þeim Eyjólfur landshöfðingi í Hvammi. Hann varð nokkrum árum síðar þekktur fyrir að gangast fyrir sölu virkjunarréttinda í Þjórsá til erlendra stóriðjufyrirtækja. Varla verður því sagt um Eyjólf að hann hafi verið á móti greiðu sambandi við önnur lönd.

Í þingnefnd sem fjallaði um símamálið sumarið 1905 voru sjö með símanum en tveir á móti. Þessir tveir voru Björn Kristjánsson kaupmaður í Reykjavík og Skúli Thoroddsen ritstjóri, þá búsettur á Bessastöðum. Þeir voru þá líka á móti nútímatækni og samskiptum við umheiminn ásamt öllum þeim Reykvíkingum sem tóku þátt í mótmælum bændafundarins, eða hvað? Nei, sannleikurinn er sá að allir sem létu frá sér heyra höfðu áhuga á því að Ísland kæmist í samband við önnur lönd með fjarskiptatækni.“ Og síðan heldur höfundur áfram að skýra frá gangi mála og meðal annars því að einnig Hannes Hafstein var á móti símanum. En þeir voru fyrst og fremst, þessir menn, á móti því að gera samning, ég held að hann hafi verið til 90 ára, við Hið mikla norræna ritsímafélag, töldu hann óhagstæðan borið saman við tilboð Marconi-félagsins um loftskeytasamband við útlönd og lagningu síma innan lands. Tveir sagnfræðingar, Lýður Björnsson og Þorsteinn Thorarensen, telja reynsluna hafa sannað að samningurinn við Marconi-félagið hefði reynst hagstæðari. Þorsteinn telur jafnvel hugsanlegt að Hannes hafi sjálfur áttað sig á því að samningsboð Mikla norræna ritsímafélagsins væri óhagstætt en það bundið afstöðu hans að hann hafi þá þegar hagnýtt sér atbeina danskra stjórnvalda í málinu.

Þetta er nefnilega mergurinn málsins. Mennirnir voru ekki á móti símanum frekar en við erum á móti skattinum. Þeir voru á móti því hvernig átti að gera samninginn, alveg eins og við erum á móti því hvernig á að skattleggja. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi lært sína lexíu í þessum efnum og ég bið hann að virða skoðanaágreining án þess að uppnefna fólk og án þess að velja því þau nöfn sem hann hefur kosið.

Það er rétt að við virðisaukaskatt eru bæði kostir og gallar og kynni maður sér umfjöllun t.d. hagfræðinga um þessi mál kemur í ljós að þeir meta þar bæði kosti og galla. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst í þeim stutta lestri sem mér hefur tekist að hafa á þessu frv. að verið sé að boða ákveðið hjálpræði sem e.t.v. muni ekki rætast í þá veru sem menn óska. Í grg. er sterk tilraun til þess að fegra og leggja mikla áherslu á kostina og draga úr göllunum sem þessu fylgja. En það veit hver maður sem vill að það er um að ræða atriði með og á móti og auðvitað pólitískt val í þeim efnum.

Ég óttast t.d. yfirbygginguna og báknið sem kann að fylgja í kjölfar virðisaukaskatts. Ég óttast einnig þann kostnað sem kann að fylgja innheimtunni og mér finnst heldur ekki vera nógu ljóst í frv. hve mikill þessi kostnaður á að vera. Ég held að menn geri sér ekki almennilega grein fyrir því hver kostnaðurinn verður af þessari kerfisbreytingu.

Það er líka óljóst í sambandi við starfsmannafjölgunina hversu mikil aukning er nauðsynleg og það er heldur ekki víst að innheimta skattsins muni skila sér eins og ætlað er vegna þess að engin trygging er fyrir því að ekki verði reynt að svíkja undan þessum skatti eins og söluskattinum. Það er nefnilega ekkert algjörlega sjálfvirkt öryggi í þessu kerfi jafnvel þó að það sé eitthvað meira en í söluskattinum. Og ég held að hæstv. ráðherra, ef hann vill líta hreinskilnislega á málin, hljóti að taka undir það.

Ef ég má vitna í grein eftir Björn Matthíasson, sem er að vísu orðin nokkuð gömul, hún er í Fjármálatíðindum frá jan.-maí 1970. Hún tekur nú samt á öllum meginatriðum þessa skatts og ég veit ekki til þess að þau hafi í raun og veru tekið stakkaskiptum í millitíðinni þó að reynsla manna hafi orðið meiri á þessum tíma. Þar tekur hann einmitt fram að bókhald fyrirtækja í sambandi við virðisaukaskatt verði flókið og geti orðið þungt í vöfum fyrir lítil fyrirtæki og þá munu þau kannski hugsa sér hvort þau geti sleppt því á einhvern hátt og skotist fram hjá því. Það þarf ekkert stórt samsæri manna til þess að smokra sér undan því. Það er rétt eins og hæstv. ráðherra sagði, það fjölgar skattgreiðendum talsvert og þetta hlýtur vegna fjölgunar starfsmanna að auka innheimtukostnaðinn. Ég vil benda honum á það að þegar Bretar voru að íhuga að taka upp þennan skatt á sínum tíma þá fjallaði stjórnarnefnd um möguleikana á því að taka upp skattinn og hún taldi kostnaðaraukninguna sem yrði hjá þeim við upptöku þessa skatts eina helstu ástæðuna fyrir því að hún treysti sér ekki til að mæla með upptöku virðisaukaskatts fyrir landið. Það eru því vissulega mörg ágreiningsatriði um þessi mál.

Síðan er spurningin um það hvort framfærsluvísitala muni lækka, eins og haldið er fram, við upptöku þessa skatts. Ég vek athygli á því að gagnrýnendur skattsins, eins og kemur fram í þessari grein eftir Björn Matthíasson, hafa undirstrikað það að álagning skattsins hafi nær alltaf leitt til verðhækkana, a.m.k. í byrjun. Þetta hefur orðið svo þó að hundraðshluti nýja skattsins sé ekki hærri en í söluskattinum sem áður gilti, og ekki síst vegna þess að fleiri vörutegundir hafi orðið skattskyldar en áður. Hann segir enn fremur að slík verðhækkun geti haft slæm áhrif á tekjuþróunina og leitt af sér beinar kauphækkanir sem aftur geti orðið útflutningsatvinnuvegunum þyngri baggi en léttinum af undanþágunum frá virðisaukaskattinum nemur.

Ég ætla ekki að fara ítarlega út í efnisatriði frv. í þessari 1. umr. en ég vil þó nefna nokkur fleiri atriði auk þeirra sem ég hef þegar minnst á, t.d. í sambandi við undanþágur. Er það ekki síst vegna þess að hæstv. ráðherra minntist einmitt á það að hann fagnaði því að nú væri hægt að koma á skatti þar sem undanþágurimlarnir væru fáir og því erfitt að svíkja undan skattinum. Hann hefur samt valið 14 liði, sem taldir eru upp í 2. gr. frv., er verða undanþáguliðir. Auðvitað er þarna um að ræða ákveðið val. Þá vil ég víkja t.d. að 12. atriði í þessari grein sem er starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka. Þarna er um að ræða undanþágu fyrir menningarmál og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver metur hvað er undanþegið? Hvaða viðmiðanir eru notaðar? Hvaða verðmætamat liggur til grundvallar þegar þetta val fer fram?

Í grein Björns Matthíassonar, sem ég hef áður vitnað í, kemur einmitt fram að það er algengt að það séu einhverjar hefðbundnar undanþágur undan virðisaukaskatti og hann segir, með leyfi forseta:

„Virðisaukaskatturinn er lagður á nær flestar vörur og þjónustu á innanlandsmarkaði. Undantekningar frá skattinum eru fáar, en nokkuð breytilegar frá landi til lands. Yfirleitt er banka- og tryggingaþjónusta undanþegin, svo og póstþjónustan, heilbrigðisþjónusta, dagblöð og vörur sem eingöngu eru keyptar af hinu opinbera, svo og þjónusta listamanna og vísindamanna.“

Og nú vil ég spyrja: Við hvað var miðað þegar einungis var undanskilin starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka? Hvað um alla hina listamennina? Var miðað við eitthvert annað Norðurlandanna? Og þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Gerir hann sér t.d. grein fyrir því hver er aðsókn að leikhúsum hérlendis? Veit hann að hún er nokkur hundruð prósent hærri en víðast hvar á Norðurlöndunum? Það er geysilega mikil aðsókn að leikhúsum. Þetta er snar þáttur í almennri menningarneyslu fólks á Íslandi, sem er ólík hinum Norðurlöndunum. Í flestum löndum er það kannski einungis - ja, ef við getum kallað það hástétt eða útvalinn hópur sem telur sig hafa efni eða tök á því að sinna menningarstarfsemi eins og t.d. leikhúsferðum. Hér er það allur þorri manna. Ég held að ég verði að brýna það fyrir hæstv. ráðherra að þessi litla þjóð þarf kannski á fáu meir að halda en að efla menningarlegt sjálfstæði sitt, halda menningu sinni vakandi til þess að geta orðið sú sjálfstæða heild sem hún er, til þess að geta lifað sem þjóð meðal þjóða. Og það þarf að næra og það þarf að styrkja menninguna og þess vegna spyr ég: Hvers vegna einungis þessar tvær tegundir listamanna þegar stendur í grein Björns Matthíassonar að önnur lönd hafi þjónustu listamanna og vísindamanna sem undanþágur?

Síðan var fullyrt við okkur og ég held að það komi fram í þessu frv. að það verði um að ræða jöfnun á vöruverði milli landshluta með virðisaukaskatti. Ég get ekki séð hvernig þetta verður vegna þess að nú eru vöruflutningar söluskattsfrjálsir. Hvernig má það vera þegar skatturinn leggst á kaupfélögin og þegar hann leggst á flutninga almennt að þetta verði til þess að jafna vöruverð um landið? Ég held að það verði ekki. Síðan er einnig fullyrt að Kaupmannasamtökin styðji þetta frv. en hins vegar hefur komið fram í máli fyrrv. formanns samtakanna í greinum í blöðum að hann mótmælir þessu, telur það í raun verða mjög erfitt fyrir kaupmenn að sinna þeim skýrslugerðum sem til þarf og þeir hafa í raun og veru mótmælt virðisaukaskattinum.

Ég hygg að menn hafi haldið því fram að þorri kaupmanna hafi ekki skilning á því í hverju þessi breyting felist. Ef þetta eru þá rétt skilaboð sem ég hef fengið, að stjórnmálamenn eða ráðuneytismenn telji að kaupmenn hafi ekki vit á því að meta þessar breytingar. En ótti þeirra, eins og þeir hafa tjáð hann, um hærra vöruverð, stirðara kerfi og aukna fyrirhöfn og jafnvel vaxandi kostnað, er hann ekki á rökum reistur? Það er önnur spurning sem ég vil bera fram til hæstv. ráðherra.

Að lokum get ég ekki séð að hinn almenni borgari, við skulum segja litla manneskjan í þjóðfélaginu, fari nokkuð betur út úr þessu kerfi í raun nema síður sé. Einföldunin sem í því er fólgin er ekki fyrir hana. Hún er fyrst og fremst fyrir kerfið og þá sem þar vinna. Það er heldur ekki víst að skilvirknin rati til hennar eða þá það sem meiru varðar: það er hætt við að réttlætið gangi hjá garði hennar líka vegna þess sem ég áður mótmælti og ræður grundvallarafstöðu okkar til þessa frv., skattlagningar á matvæli. Hins vegar býst ég við að það verði farið ítarlega yfir þetta frv. og það verði lesið vel í fjh.- og viðskn. þar sem ég á áheyrnaraðild og þá verða tök á því að kynna sér málið í heild sinni svo og viðbrögð hagsmunaaðila við því. Þá kann ýmislegt að koma fram sem varpar frekara ljósi á málið og getur nýst okkur til frekari umræðu í þessari deild um málið.

Ég hef drepið hér á nokkur atriði sem stinga í augu þegar maður flettir þessu frv. þó að mætti minnast á mörg önnur. Ég hef þó ekki enn minnst á einn meginkostinn við frv. sem er að mínum dómi sá að þetta er mjög hagstætt fyrir atvinnuvegina og þá sérstaklega fyrir útflutningsgreinarnar. Það eru auðvitað sterk meðmæli með því að taka upp þetta kerfi. Þær verða samkeppnisfærari og styrkjast. Hins vegar hljótum við að þurfa að meta þetta allt í heild sinni og það kemur sannarlega til greina að gera ýmsar brtt., sérstaklega hvað varðar matvælin og menninguna og láta reyna á það hver vilji deildarinnar er til þess að undanskilja matvæli og menningu frá virðisaukaskatti.

Ég hef svo lokið máli mínu í þessari umræðu, herra forseti.