13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6324 í B-deild Alþingistíðinda. (4345)

431. mál, virðisaukaskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er lítið breytt frá frv. sem lagt var fyrir síðasta þing af hæstv. þáv. fjmrh. og var þá harðlega mótmælt af formanni Alþfl. í umræðu sem hér fór fram á Alþingi 10. des. 1986. Nú kveður hins vegar við annan tón hjá hv. formanni Alþfl. þar sem hann í rauninni hafnar öllum þeim röksemdum sem hann sjálfur hafði í þessu máli þegar hann talaði á þinginu í desember 1986. Og í rauninni gengur hann mikið lengra. Hann talar eins og nýfrelsaður maður sem hefur fundið hjálpræðið, eins og hv. 6. þm. Reykv. kallaði það áðan, hina endanlegu lausn, svar við öllum vanda, hún er hér, og vitnaði máli sínu til stuðnings m.a. í fjmrh. Svía til þess að það væri nú alveg ótvírætt að þeir væru dregnir fram í dagsljósið sem við mættum helst taka mark á hér í þessari deild. Mér kom í hug þegar vitnað var til jafnaðarmannaleiðtoga á Norðurlöndum með þessum hætti að fyrir 50 árum gaf Alþfl. út rit um skattamál og velferðarmál sem bar einhvers staðar í horni bæklings tilvitnunina „Öreigar allra landa sameinist“. Nú er því kjörorði að sjálfsögðu ekki hampað. Hins vegar hefði yfirskriftin á ræðu hæstv. ráðherra áðan getað verið: Kerfiskarlar allra landa sameinist. Og þar með áttum við að hneigja okkur og taka mark á því sem hæstv. ráðherra sagði. Úr því að þetta var í gildi í Svíþjóð, úr því að þetta þykir góð latína þar, þá eigum við að hneigja okkur og beygja fyrir þessu máli.

Auðvitað er það hárrétt sem hv. 6. þm. Reykv. sagði áðan að hér er um að ræða pólitískt ágreiningsefni. Hér er ekki um að ræða ágreining eða mismunandi skoðanir um tæknilega útfærslu á hlutum, heldur pólitískt ágreiningsefni um það hvernig á að leggja á skatta til að standa undir hinni félagslegu þjónustu í landinu. Og það er nokkuð kostulegt að heyra það þegar hv. þm. Alþfl. ganga fram með þeim hætti sem þeir hafa gert hér að undanförnu, margir, í fjölmiðlum og ráðast að stjórnarandstöðunni fyrir það að hún vilji ekki byggja upp hið félagslega velferðarkerfi í landinu, hún sé í raun og veru bara á móti því, af því að stjórnarandstaðan hefur lagst gegn matarskattinum. En auðvitað snýr málið þannig: Við viljum leggja þetta á aðra en láglaunafólkið sem bersýnilega ber þyngri byrðar út úr matarskattinum en það gerði áður og skattastefna ríkisstjórnarinnar snýr þannig að einstaklingum í landinu, eins og allir hljóta að sjá, að þeir tekjuhærri borga núna hlutfallslega lægri skatta en áður, bæði beina og óbeina, en hinir tekjulægri borga hærri skatta en þeir hafa áður gert. Þetta er jafnaðarstefnan, jafnaðarstefna kerfiskarlanna sem hafa verið teknir í gegn í ráðuneytunum sínum og sagt: Það er einföldunin sem blífur, það er einföldunin. En auðvitað gengur jafnaðarstefna ekki út á það að það sé sama prósentan sem snýr að hverjum einasta manni í landinu, heldur út á stjórn sem er þannig að hún lætur þá ríku borga mikið og notar þá fjármuni til þess að standa undir að bæta hina félagslegu þjónustu.

Og í þessari kerfisræðu sem var flutt áðan, og það var engu líkara en að hæstv. ráðherra tryði ræðunni sem var kannski það alvarlegasta við lesturinn, segir hæstv. ráðherra: Þetta er í raun og veru það eina sem eftir er. Þetta er allt að verða mjög gott hjá okkur. Hliðarráðstafanirnar eru að baki, það er búið að hækka ellilífeyrinn, búið að hækka barnabæturnar. Það er frá. Jafnaðarmaðurinn hefur engar áhyggjur af því lengur. Það er búið. Það er afgreitt. Bábiljur andstæðinganna hafa verið hraktar. Lýðskrumararnir hafa verið kveðnir í kútinn. Það er frá. Það er búið. Undanþágufarganið, það er í raun og veru verið að brjóta það niður, og það er ekki hægt, sagði ráðherrann, að ná inn auknum tekjum með því að hækka eignarskatta. Það er ekki hægt að ná inn auknum tekjum með því að hækka skatta á fyrirtækjum. Það er útilokað mál. Við erum komin alveg á leiðarenda í þeim efnum. Það er því í raun og veru ekkert eftir annað en að kreista þessa einstaklinga, þessa launaþræla sem eftir eru í landinu. Og svo er áróðurinn orðinn mikilvirkur gagnvart hæstv. ráðherra, hann er farinn að trúa svo áróðursvélinni sem hann hefur sjálfur sett í gang í fjmrn. að hann segir: Matarskatturinn er stórfelldasta tekjujöfnunartæki sem ákveðið hefur verið á Alþingi Íslendinga og þeir sem voru á móti matarskattinum eins og undirritaður og hv. 6. þm. Reykv. munu verða aðhlátursefni hér fram eftir allri næstu öld vegna þess að þeir voru á móti þessu gífurlega framfaramáli alþýðunnar í landinu að leggja á matarskatt.

Það eru um 80 ár síðan sú saga gerðist sem var rakin áðan varðandi símann. Það jafngildir því að ég og hv. 6. þm. Reykv. verðum alveg sérstakt aðhlátursefni hér á Alþingi og víðar árið 2064 eða 2068 eða svo og má það út af fyrir sig heita gott ef manna verður minnst að einhverju svo seint á næstu öld. En þannig eru framfarirnar, framfarir Alþfl., flaggið mikla, matarskatturinn, það er svo stórt, það eru svo mikil kaflaskil að það verður að jafna því til stærstu viðburða í tæknisögu Íslands á 20. öldinni. Og þeir sem leyfðu sér að lyfta litla fingri eru lýðskrumarar og það verður hlegið að þeim seint á næstu öld, 21. öldinni, ef land þá stendur sem vonandi verður. Undir þessari ræðu kom mér í hug þetta kjörorð sem hv. formaður Alþfl. ætti að gera að kjörorði flokksins: „Kerfiskarlar allra landa sameinist.“ Það eru þeir sem eru að rúlla þessu hér inn með þeim rökum að þetta sé svona alls staðar annars staðar. Hvað er nú orðið eftir af sjálfstæðri hugsun í þessu fólki?

Herra forseti. Við höfum í Alþb. í umræðum um þennan virðisaukaskatt hreyft margvíslegum athugasemdum og ég ætla aðeins að fara yfir þær örfáum orðum.

Í fyrsta lagi lýsi ég því yfir að við erum andvíg virðisaukaskattinum vegna þess að í honum felst matarskattur. Við viljum ekki leggja sömu skatta á allar vörur og þjónustu, jafnvel líka brýnustu lífsnauðsynjar fólks. Við viljum hafa það mismunandi, jafnvel þó að það kosti það að virðisaukaskattur á aðrar vörur og aðra þjónustu verði hærri, 24% eða 25%, en hér er gert ráð fyrir ef það mætti verða til þess að menn gætu fellt niður eða lækkað verulega virðisaukaskatt á öðrum greinum. Ég bendi á í þessu sambandi að í langflestum löndum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu er um að ræða mismunandi skattþrep, mörg skattþrep og það er ekkert sem segir að það sé útilokað að vera með mörg þrep hér líka.

Í öðru lagi leggjumst við gegn frv. vegna þess að það gerir ráð fyrir að innheimta skatta af veigamiklum þætti í íslensku þjóðlífi sem til þessa hefur verið undanþeginn óbeinum sköttum og það er menningin. Hér er gert ráð fyrir því að stíga það skref til fulls svo að segja að innheimta óbeina skatta af allri menningarstarfsemi, meira að segja þeirri þegar málari selur sitt eigið myndverk, vegna þess að hann er ekki undanþeginn eins og þessi texti hér liggur fyrir heldur rithöfundar og tónskáld, en aðrir eiga að greiða virðisaukaskatt af sínum vörum, sinni framleiðslu, sínum listaverkum. Mér þætti gaman að sjá framan í þann mann í fjmrn. sem ætlar að meta virðisaukann í íslenskum málverkum, hvaða formúla það er sem á að brúka í þeirri stofnun.

Hér er sem sagt stigið annað skrefið. Fyrsta skrefið var að leggja skatt á mat, annað skrefið er að leggja skatt á menningu og það kemur ekki til greina. Við þurfum að reyna að hafa menningarstarfsemi af hvaða tagi sem er eins aðgengilega og mögulegt er fyrir fólkið í landinu og m.a. af þeirri ástæðu leggjumst við gegn þessu frv. eins og það liggur hér fyrir.

Í þriðja lagi bendum við á að með virðisaukaskattinum er verið að leggja meira á einstaklingana en minna á fyrirtækin. Það kemur fram í fskj. með þessu frv. að einstaklingarnir borga nú, eftir hækkun söluskattsins og matarskattinn, 75% af söluskattinum, en með virðisaukaskattinum munu þeir greiða 80% þannig að það er alveg ljóst að það er verið að færa til skattbyrði frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga.

Í fjórða lagi bendum við á að þetta frv., ef að lögum verður, þýðir stóraukinn fjölda innheimtuaðila og verulega aukna skriffinnsku í þjóðfélaginu. Í fyrsta lagi úti í fyrirtækjunum sjálfum, þar sem skriffinnskan eykst frá því sem verið hefur, og í öðru lagi hjá ríkinu sjálfu.

Í fimmta lagi nefnum við sem rök í þessu máli: Kostnaður ríkisins við skattkerfið mun aukast. Þetta þýðir 40 nýja embættismenn á launum, þetta kerfi, samkvæmt því sem hæstv. fjmrh. upplýsti áðan. Það voru haldnar um það langar stólræður hér fyrir nokkrum árum að það mætti ekki fjölga alþm. um þrjá, það væri þvílíkur héraðsbrestur og þjóðin færi endanlega á hausinn ef þeim yrði fjölgað um þrjá. Hér er gert ráð fyrir því að bæta við 40 manns í embættismannakerfið til þess að halda utan um þetta virðisaukaskattskerfi.

Í sjötta lagi vil ég í þessu sambandi mótmæla því harðlega að sjálfseftirlitið, eins og það er kallað í þessum pappírum, sé jafnsterkt og hérna er gefið í skyn. Það var alveg rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það er mikil tilhneiging til þess í ræðu ráðherrans og í grg. með frv. að fegra málið allt og setja það þannig upp að þetta sé svo að segja alveg fullkomið. Og hann breytti nú ekki miklu frá frv. í fyrra. Hann er eiginlega alveg með frv. Þorsteins Pálssonar sem hann var þó á móti í fyrra, hæstv. fjmrh. En hann breytti samt nokkrum atriðum og strikaði út úr grg. eitt og eitt atriði og nostursamir þingmenn og smámunasamir eins og ég lásu báðar grg. Það kemur m.a. í ljós að hæstv. fjmrh. hefur fellt út úr seinni grg. ýmis atriði úr þeirri fyrri sem m.a. tíunda samviskusamlega þá galla sem eru á virðisaukaskattskerfinu. En núna gengur kerfisgengið í fjmrn. svo langt að það er strikað út.

Dæmi: Í fyrra stóð í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta: „Telja verður það ofmælt að í kerfinu felist umtalsvert sjálfseftirlit með hagsmunaárekstrum innheimtuaðila. Í öllum aðalatriðum má segja að allar aðstæður að þessu leyti séu mjög hliðstæðar í virðisaukaskattskerfinu og nú er í söluskattskerfinu og mun þörf á virku eftirliti skattyfirvalda ekki verða minni með tilkomu virðisaukaskatts.“

Þetta stóð í grg. frv. í fyrra, en þetta er auðvitað strikað út í grg. með frv. núna.

Ég tel að þessar hugmyndir um að sjálfseftirlit, sem er sérkennilegt orð en látum það nú vera, muni skila verulegum fjármunum, séu stórkostlega ýktar. Það er sagt sem svo sem rök með virðisaukaskatti: Á fyrsta stigi greiðir maður virðisaukaskatt og hann dregur hann svo frá á næsta stigi og þannig koll af kolli. Þannig passar hver annan. Þannig „kontrólerar“ hver annan. En ætli það geti ekki gerst í þessu skattakerfi eins og í öðrum skattakerfum á Íslandi að menn hjálpist ekki aðeins að við það að tryggja að báðir borgi, heldur reyni menn einnig að aðstoða hver annan við það að sleppa við að borga?

Ég hygg að menn hafi oft rifjað upp þá sögu af hverju við námum þetta land hér fyrir margt löngu. Hér hafa menn verið alveg undraflinkir við að smeygja sér fram hjá skatti. Sjálfstfl. hefur reyndar talið það vera sjálfsagt mál og göfugt stundum í sínum ræðum og erindum. (SalÞ: Hvar stendur það?) Hannes Hólmsteinn, hugmyndafræðingurinn. Það þarf ekki að fara lengra. (EgJ: Það er nú ekki allur flokkurinn.) Ja, mestallur, hv. þm. Hugmyndafræðingurinn þeirra. (EgJ: Þér þykir mikið til hans koma.) Ekki segi ég það nú kannski. Mér sýnist að þér þyki nokkuð til hans koma, hv. ritari. Er það ekki rétt? (EgJ: Það sagði ég ekki.) Nei, hv. þm. afneitar lausnara sínum bak páskum. Það er sérkennilegt.

En í þessum efnum þá hygg ég að það sé alveg ljóst, ef við skoðum þetta mál, að það er engin trygging fyrir því að virðisaukaskattskerfið skili sér betur. Það er engin trygging fyrir því, ekki nokkur. Og við getum spurt, af því að hérna er alltaf verið að vitna í Norðurlöndin: Ætli þetta hafi skilað sér mikið betur á Norðurlöndum? Ætli skattsvik séu svo að segja alveg óþekkt þar af því að þar er búið að taka upp þetta mikla einföldunarkerfi, þetta valtarakerfi fjmrn.? (SalÞ: Þeir sátu eftir heima.) Einhverjir urðu eftir heima sem betur fer þannig að við erum ekki ein um þessa íþrótt.

Í skýrslu skattsvikanefndar, sem gefin var út á síðasta þingi, kemur það fram að um er að ræða veruleg skattsvik í óbeinum sköttum í Noregi, í Danmörku, í Svíþjóð og í Finnlandi, jafnvel þó að búið sé að taka þetta alfullkomna kerfi upp fyrir löngu. Og auðvitað er það þannig. Þess vegna skulu hv. stjórnarþingmenn ekki vera að láta hæstv. fjmrh. blekkja sig með því að hann heldur því fram að þetta þýði í raun og veru alfullkomið kerfi og ekki nokkur leið að komast fram hjá hlutunum. Reynslan sýnir frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, ef stjórnarþingmenn vilja setja sig inn í málin, að í rauninni er þar um verulegan undandrátt að ræða eins og kemur rækilega fram í skýrslu skattsvikanefndar sem var dreift á þinginu 18. apríl 1986. Það er stórkostlega ýkt að þetta margumtalaða sjálfseftirlit sé jafnótvírætt og fjmrh. heldur fram.

Í sjöunda lagi dregur hæstv. ráðherra þá ályktun að þetta kerfi muni gefa nokkra aukna fjármuni í ríkissjóð vegna þessa sjálfseftirlits og fyrrverandi hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson sagði þegar hann lagði frv. fram að þetta gæti gefið aukalega 400 millj. í ríkissjóð. Hver er talan sem nú er giskað á af fjmrn. í þessu efni? Það eru 1000 millj. Það er sem sagt u.þ.b. tvisvar sinnum hærri tala en sú sem hæstv. fyrrv. fjmrh. nefndi. Ég tel að ávinningurinn, því að við virðisaukaskattskerfið eru vissir kostir eins og hér hafa verið nefndir, ávinningurinn, jafnvel þó þetta væri í hendi, sé of lítill til að steypa um kerfinu með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Í áttunda lagi, herra forseti, vil ég gagnrýna sérstaklega hvað talnagögn þessa frv. og grg. eru ófullkomin og ekki nægilega upplýsandi vegna þess að þetta mál snertir hvern einasta mann í landinu, hverja einustu atvinnugrein og alla þá sem lifa í þessu landi. Þess vegna hefði þurft að vera mjög ítarlegur talnagrunnur í þessu til þess að unnt væri að afgreiða það á þeim stutta tíma sem hér er verið að tala um. Það er auðvitað eins og venjulega með þessa ríkisstjórn. Það er komið með þetta mál núna loksins eftir páska, þingið verið verkefnalítið frá því í áramótahléinu. Nú er komið með málið í stað þess að koma með það strax eftir áramótahléið. Hvað dvaldi orminn langa? Hvernig stóð á því að menn komu þessu ekki frá sér? Nú eru lögð fram ein 20–30 stjfrv. og sagt við okkur í stjórnarandstöðunni: Afgreiðið þið þetta á nokkrum dögum. Það er auðvitað alveg óþolandi ef það á að afgreiða þetta mál á stuttum tíma og ég vil segja: Vegna þess hvernig að málinu er staðið, vegna þess hvað það er illa undirbúið, hvað grg. frv. er slök, talnaforsendur hennar óljósar, er óhjákvæmilegt að þetta mál taki nokkurn tíma. Ég tel að það sé í rauninni ekki boðlegt að ætla þinginu að afgreiða þetta mál á örfáum vikum þó að málið hafi sést hér inni áður vegna þess að þingið hefur ekki fyrr, ef það yrði gert núna, sest yfir þetta mál í einstökum atriðum til að átta sig á innihaldi þess.

Nú er það kannski þannig, herra forseti, að allt það sem ég hef hér verið að segja séu bábiljur og lýðskrum og það verði haft til skemmtunar rétt eins og símamálið seint á næstu öld allt það sem hér hefur verið kveðið. En þá verð ég að játa að ég er ekki algjör brautryðjandi í þessu efni vegna þess að hv. formaður Alþfl., hæstv. fjmrh., hélt hér ræðu 10. des. 1986 og það vill svo sérkennilega til, herra forseti, að svo að segja allt það sem ég hef hér sagt er upp úr þeirri ræðu fyrir utan það sem ég nefndi varðandi menningarstarfsemina sem honum er bersýnilega ekkert sérstaklega mikið um. Að öðru leyti hef ég tínt þetta saman úr ræðu formanns jafnaðarmannaflokksins, Alþfl. En til þess að gleðja hv. 3. þm. Vestf. og til þess að ekkert fari á milli mála ætla ég aðeins að fara yfir nokkur atriði úr ræðu hæstv. fjmrh. frá í des. 1986.

Hann lagðist gegn málinu. Á hvaða forsendum? Í fyrsta lagi þeirri forsendu að prósentan í virðisaukaskattinum væri allt of há. Hann sagði: Ef Alþfl. á að standa að máli af þessu tagi verður þessi prósenta að lækka mjög verulega, en í frv. eins og það var lagt fram í fyrra var prósentan 24% en ekki 22%. Rökin sem hann flutti voru þau að svona há prósenta hvetur mjög eindregið til skattaundandráttar, prósentan verður að lækka mjög verulega, prósentan er allt of há og sagði þá m.a., með leyfi forseta: „Ég segi það hreint út að ég vil ekki kaupa fræðilega kosti virðisaukaskattsins umfram óbreytt kerfi þessu verði.“

Það var skoðun hans í fyrra, 1986 í desember. Það er spurning hvaða málvenjur menn hafa í sambandi við fyrra og hittiðfyrra sem við skulum ræða undir öðrum dagskrárlið.

„Ég vil það ekki“, segir hæstv. ráðherra þá áfram. „Við erum ekki til viðræðu um að taka upp virðisaukaskatt sem er svona hrikalega hár og við vefengjum röksemdir fjmrn. fyrir því að nauðsynlegt sé að halda virðisaukaskattinum í 20–21% til þess að halda óbreyttum tekjum“.

Hvaða tillögu er hann að gera? Er það 20–21%? Nei, 22%.

Og hann hélt áfram: „Við gagnrýnum það að þegar hér er lagt fram frv. af þessu tagi, sem snertir alla einstaklinga í landinu, alla neytendur og alla forsvarsmenn fyrirtækja, skuli ekki vera lagðar fram meiri tölulegar upplýsingar sem hægt er að meta.“ - Og ég spyr: Bætti hann við einhverjum tölulegum upplýsingum í þetta plagg, hæstv. ráðherra, þegar hann lagði það fram núna? Svarið er nei. Í rauninni er þetta nákvæmlega eins, grg. frv., að öðru leyti en því að það birtist yfirlit, tafla, um virðisaukaskatta í aðildarlöndum OECD. Það eru einu tölulegu upplýsingarnar sem eru nýjar í þessu plaggi. (SalÞ: Það er oft hægara um að tala en í að komast.) Já, það sannast á hæstv. ráðherra hið fornkveðna, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir. (KP: Og á víða við.) Og á víða við, hv. þm. Karvel Pálmason. (EgJ: Og vissara að vara sig.) Og vissara að vara sig, segir hv. ritari. Eru fleiri þingmenn sem vilja bæta einhverju við, hæstv. forseti? Það er ekki.

Í öðru lagi segir hæstv. fjmrh. í ræðu sinni á Alþingi 10. des. 1986: „Önnur meginröksemd okkar gegn þessu frv. er sú að við teljum að það byggi á vanmati á þeim tekjuauka sem ríkissjóður getur ætlað sér við afnám á undanþágum og á útvíkkun á skattsviði og hertu eftirliti.“

Í rauninni er í þessu frv. og grg. þess gert ráð fyrir nákvæmlega sams konar vanmati og gert var ráð fyrir í frv. 1986.

Og hæstv. ráðherra hélt áfram: „Þriðja meginröksemdin er sú og það er sérstaklega gagnrýni vert að ekki skuli greind áhrifin á hverja atvinnugrein fyrir sig í talnagögnum frv.“ — Hverja atvinnugrein fyrir sig. Er það gert í þessu plaggi? Svarið er nei. Það er ekki gerð grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á hverja atvinnugrein fyrir sig.

Og hæstv. ráðherra lauk máli sínu þá með þessum orðum, með leyfi forseta. Ég veit að forseta leiðist ekki að ég lesi eftir þennan mann: „Það er gagnrýnisvert að upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir“, þ.e. talnagrunninn. „M.ö.o. vinnubrögðin til undirbúnings þessu frv. og upplýsingarnar sem fylgja því eru fjarri því að vera fullnægjandi. Það þýðir að þetta frv. hlýtur að vera lengi í vinnslu þingsins. Það þýðir að þingnefndir sem fá málið til meðferðar hljóta að gera kröfu til þess að mikill fjöldi forsvarsmanna fyrirtækja verði kallaður til viðræðna við þingnefndir eða leitað verði eftir upplýsingum frá þeim. Þegar af þeirri ástæðu þykir mér líklegt að þetta mál hljóti að vera lengi í meðförum þingsins. Þar af leiðandi er ólíklegt eins og allt er í pottinn búið að það geti náðst pólitískt samkomulag milli þingflokka um þær lágmarksbreytingar sem gera þarf á frv. til þess að það verði afgreitt endanlega á þeim tíma sem eftir lifir þessa þinghalds.“

Þetta var sagt 10. des. 1986. Þá átti þingið eftir að standa í a.m.k. tvo mánuði. Nú er verið að tala um það að losa um störf þingsins eftir 3–4 vikur þannig að það er auðvitað alveg bersýnilegt, svo að ég noti nú rök hæstv. fjmrh., að það verður mjög erfitt að ná þessu máli í gegnum þingið á þessum tíma. Það er svo illa undirbúið, það varð að kalla svo marga fyrir, það varð að fara svo vandlega yfir það, lesa hverja einustu grein frá orði til orðs. Þannig er augljóst mál að það er hárrétt sem hæstv. fjmrh. sagði 10. des. 1986: „Verkið er mikið og vandasamt og ekki við því að búast að Alþingi ljúki því á þeim stutta tíma sem eftir lifir af þinghaldinu“ svo að ég noti orðrétt þau ummæli sem hæstv. fjmrh. viðhafði á þinginu í desember 1986.

Ég hef hér, virðulegi forseti, farið yfir nokkrar efnislegar athugasemdir við frv. og ætla ekki að bæta þar neinu við að sinni. Ég tel að málið þurfi vandaða meðferð og ég mun leggja á það áherslu í hv. fjh.- og viðskn. að hún vandi sig við meðferð málsins alla þannig að hér verði ekki hrapað að neinu. Ég veit að í þingliði stjórnarflokkanna er verulegur áhugi á því að skoða þetta mál vel, bæði í Sjálfstfl. og Framsfl. Um Alþfl. skal ég ekkert segja, en það er þó hugsanlegt. Það er því augljóst mál að hér er aðeins rétt að hefjast umræða um þetta mál og langlíklegast vitaskuld að henni ljúki ekki í vor heldur byrji menn aftur á þessu máli í haust ef hæstv. fjmrh. streitist við að halda þessu máli fram með þeim hætti sem hér hefur verið gert.