13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6337 í B-deild Alþingistíðinda. (4348)

431. mál, virðisaukaskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls aftur, en hv. 2. þm. Norðurl. e. gaf tilefni til þess.

Í fyrsta lagi fannst mér mjög athyglisvert að heyra þennan tón frá aðaltalsmanni Sjálfstfl. hér í deildinni í þessum málum. Það er þessi skattagleði. Og vissulega kveður nokkuð við annan tón hjá honum núna en var hér áður og það sem hann sagði um Landsbankatröppurnar og stjórnarráðið á örugglega ágætlega við um hann. Ég hygg að að því er varðar okkar málflutning höfum við alltaf lagt á það áherslu að t.d. ríkissjóður væri rekinn í jafnvægi, að um væri að ræða ábyrga fjármálastjórn ríkisins. En okkur er hins vegar ekki sama hvernig teknanna er aflað. Og af því að hann þuldi þessa þulu sem hæstv. fjmrh. hefur kennt honum í sambandi við það sem kom á móti matarskattinum er rétt að rifja það upp að matarskatturinn kostar fjölskylduna samkvæmt tölum ríkisstjórnarinnar, vísitölufjölskylduna, eins og það var gefið upp um áramótin, í kringum 2000 kr. á mánuði, en barnabætur með einu barni hækkuðu aftur á móti um hvorki meira né minna en 125 kr. á mánuði. Þannig stendur þessi matarskatts- og barnabótareikningur gagnvart þeim fjölskyldum sem hér um ræðir og er nauðsynlegt fyrir hv. talsmenn stjórnarliðsins að hafa þetta í huga.

Hv. þm. sagði í tilefni af mínum orðum að við hefðum verið með hugmyndir um það að fella niður matarskattinn og það kostaði verulega fjármuni. Það er rétt. Og hvernig á að afla þeirra? Það á að afla þeirra með því að leggja skatt á stóreignir. Það á að afla þeirra með því að leggja skatt á fyrirtæki og það á að afla þeirra með því að leggja skatt á vaxtatekjur og eignagróða hér á landi sem hefur farið vaxandi á undanförnum árum.

En af því að hv. þm. hreyfði þessum atriðum er alveg nauðsynlegt að inna eftir því: Er Sjálfstfl. sammála grg. þessa frv. þar sem kemur fram að tekjutapi ríkisins vegna þessara breytinga, sem hér er verið að tala um, á að mæta með skattlagningu fyrirtækja og skattlagningu eignatekna? Þetta stendur hér í þessu plaggi á bls. 41 í 4. mgr. Hefur Sjálfstfl. samþykkt það að leggja skatt á eignatekjur? Ég fagna því ef svo er. Það hefur áður gerst í vetur að Sjálfstfl. hefur gengið þvert á sína stefnu í skattamálum, sérstaklega í sambandi við fyrirtækjaskattana. En hefur það verið samþykkt í Sjálfstfl. að leggja skatt á eignatekjur? Ég mun ganga eftir því þegar málið fær meðferð í hv. nefnd að afstaða komi fram um það efni frá þeim talsmönnum Sjálfstfl.

Hv. þm. Halldór Blöndal sagði að það yrði örugglega gott samkomulag um að hraða afgreiðslu þessa máls. Ég vil gleðja hann með því að það verður ekkert samkomulag um það við mig a.m.k. að hraða afgreiðslu þessa máls. Hins vegar er það auðvitað ljóst að stjórnin hefur hér meiri hluta og getur knúið fram afgreiðslu mála svo að segja eins og henni sýnist. Það er mjög erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að móast þar mjög verulega við. Við alþýðubandalagsmenn munum halda hér uppi eðlilegum málflutningi og vinnu í nefnd svo sem við höfum gert, en það verður ekkert samkomulag við okkur um að afgreiða þetta mál eins og það liggur fyrir.