04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

1. mál, fjárlög 1988

Málmfríður Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Þegar litið er yfir fjárlagafrv. sem hér er til umræðu blasir við í reynd stefna hæstv. ríkisstjórnar, sú stefna sem hún hyggst fylgja með stjórn á rekstri og framkvæmdum þjóðarbúsins. Og hvaða tíðindi birtir þetta lagafrv. fólkinu í landinu? Hver verða áhrif þess á líf og kjör þjóðarinnar í náinni framtíð? Hvaða afleiðingar hafa ákvarðanir þess á þá sem standa höllum fæti, aldrað fólk, öryrkja og sjúka? Hvernig kemur það við konur þessa lands og börnin okkar?

Við hljótum einnig að spyrja hvaða áhrif það hafi þegar til lengri tíma er litið því í því felast ákvarðanir um aðgerðir sem óhjákvæmilega hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir byggðarlög um land allt og margir bera kvíðboga fyrir. Hæstv. ríkisstjórn hefur það að grundvallarmarkmiði að afgreiða hallalaus fjárlög. Margir hafa uppi efasemdir um að því takmarki verði náð. En við hljótum þó fyrst og fremst að íhuga hvernig hún hyggst ná þessum ásetningi, hvaða leiðir hún velur að markinu.

Meginmarkmið þessa fjárlagafrv. er að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum þegar á næsta ári svo sem segir í inngangi grg. með frv. Til þess þarf að sjálfsögðu stóraukna tekjuöflun og sparnað og hagræðingu í ríkisrekstrinum. Víða er reyndar talað um sparnað í fjárlagafrv. og hefur það oft heyrst áður hjá ýmsum ríkisstjórnum, en það á greinilega ekki að spara alls staðar. Sums staðar á meira að segja að eyða og eyða drjúgum.

Þegar þetta frv. er borið saman við fjárlög yfirstandandi árs kemur í ljós að kostnaður vegna aðalskrifstofa ráðuneytanna hefur aukist stórlega og á næsta ári eiga þær að fá um 160 millj. kr. hærri framlög til yfirstjórnar en þær þyrftu til að fylgja verðlagsbreytingum. Kannski væri ekki þörf á að ganga eins hart að almenningi með skattheimtu og ætlað er ef stjórnvöld sjálf sýndu það aðhald og þá sparsemi sem þau ætla öðrum.

Kvennalistakonur ganga ekki að því gruflandi að afla þarf tekna til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum og rekstri og hafa margsinnis talað um nauðsyn þess að endurskoða og endurskipuleggja allt tekjuöflunarkerfi ríkisins. Okkur er hins vegar hreint ekki sama um hvernig að því er staðið. Og eins og þegar hefur komið fram í ályktunum Kvennalistans, í greinaskrifum og í umræðum á hv. Alþingi erum við langt frá því sáttar við þá stefnu sem núv. ríkisstjórn fylgir í þeim efnum. Yfirbragð þeirrar stefnu sést í þessu fjárlagafrv., yfirbragð harðneskju og ranglætis auk þess sem útfærslur eru óljósar svo að erfitt er að átta sig á hvort forsendur muni standast tímans tönn. En undarlegast er þó ósamræmið milli markmiða ríkisstjórnarinnar og gerða hennar þar sem eitt meginmarkmiðið er að draga úr verðbólgu, en flestar þær aðgerðir sem hún grípur til eru í raun verðbólguhvetjandi. Það er ljóst að ef ríkisstjórnin missir verðbólguna úr böndunum er bakbeinið brostið í allri hennar stefnu og þá er þetta fjárlagafrv. ónýtt plagg.

Hæstv. fjmrh. boðar nótt sem nýtan dag einfaldara, skilvirkara og réttlátara skattakerfi. Fyrstu aðgerðir hans í þá átt gengu svo sannarlega þvert á þá stefnu þar sem hann lagði 10% söluskatt á flestar matvörur, þyngdi með því framfærslu heimilanna og þá allra mest lágtekjufólks og gerði alla afgreiðslu flókna og óskilvirka þar sem reikna þurfti verð með þrenns konar hætti. Áfram vill hæstv. fjmrh. halda á þeirri braut að skattleggja nauðþurftir almennings og í næstu lotu yrði vissulega um nokkra einföldun að ræða því að þá yrðu engar matvörur undanþegnar söluskatti og þarf ekki að fjölyrða um áhrif þeirrar aðgerðar á afkomu heimilanna.

Enn skal ítrekað að ríkisstjórnin vinnur gegn eigin markmiðum með þessari stefnu sinni. Með hækkun neysluskatta eykur hún framfærslukostnað töluvert nú og enn meira um áramót þegar samræma á allan söluskatt. Frestun er frestun en ekki niðurfelling.

Ef taka á hliðsjón af boðuðum virðisaukaskatti og í ljósi fyrri kynningar á honum má ætla að það ágæta fólk í ríkisstjórninni ætli almenningi í landinu að greiða a.m.k. 20% söluskatt af matvörum sem og annarri vöru og þjónustu. Þetta þrengir mjög kost launafólks og hjá því fólki sem rétt hefur til hnífs og skeiðar er þetta margföldun á skattbyrði. Það er óþolandi valdníðsla að refsa fólki svo í fátækt sinni.

Sú stórkostlega hækkun framfærsluvísitölu sem af þessu leiðir herðir verulega á verðbólgu, keyrir upp skuldabyrði vísitölutryggðra lána og raskar öllum forsendum kjarasamninga sem og forsendum þessa frv. Þannig vegur þessi ríkisstjórn með svokallaða jafnaðarmenn innanborðs að lágtekjufólki í landinu og margfaldar skattgreiðslur hinna tekjulægstu, en útfærir ekkert bæturnar sem eiga að létta byrðar þeirra ef marka má loforð. Hversu hár á persónuafslátturinn að vera og hversu háar verða barnabæturnar og barnabótaaukinn? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bæta öryrkjum og lífeyrisþegum og öðrum, sem einskis njóta í hækkun persónuafsláttar og barnabóta, þessa stórkostlegu skerðingu?

Hér er rétt að minna enn einu sinni á þær leiðir sem Kvennalistinn hefur viljað fara til þess að afla aukinna tekna í ríkissjóð því það er ekki háttur kvennalistakvenna að gagnrýna eingöngu gerðir annarra án þess að benda á aðrar leiðir. Við viljum afla teknanna þar sem þær eru mestar fyrir. Við viljum skattleggja vaxtatekjur, hækka skatta á stóreignir, skattleggja hæstu tekjur umfram aðrar og sækja fé til fyrirtækja, einkum í verslun og viðskiptum, sem greiða óeðlilega lítið til samfélagsins. Og framar öllu viljum við gera stórátak til að ná inn umtalsverðum hluta af þeim 4–6 milljörðum sem skotið er fram hjá skatti og stýrt beint inn í einkaneyslu og fjárfestingu. Þetta síðasttalda hefur verið áhugamál Alþfl. um árabil, en þess sér lítinn stað að fulltrúi hans í stól fjmrh. ætli sér stóran hlut í þeim efnum á næstunni.

En áður en ég skil alveg við söluskattinn í þessari umfjöllun skal þess getið að kvennalistakonur voru sammála því að álagningu hans þyrfti að endurskoða og grisja undanþáguskóginn. En það hefur aldrei komið til minnstu álita hjá okkur að fella niður undanþágur frá söluskatti á matvælum. Við mótmælum þessari ráðstöfun og skorum á ríkisstjórnina að endurskoða áform sín.

Hvað varðar áætlaðar heildartekjur af söluskatti á frv. til fjárlaga næsta árs virðist þar vera um varlega áætlun að ræða miðað við þær forsendur sem höfundar frv. gefa sér og miðað við þá þenslu sem nú er í þjóðfélaginu. Annars er það eins og margt fleira í þessu frv. býsna opið og óljóst og illa útfært og erfitt að meta hvort niðurstöðutölur muni reynast vera í lagi.

Aðgerðir til að draga úr þenslu, t.d. frestun endurgreiðslu á söluskatti til aðila í sjávarútvegi, höft á útlán og aðgerðir til að þrýsta vöxtum upp, munu koma sér illa fyrir allan almenning og atvinnurekstur í landinu og einstaklega illa víðast hvar utan Reykjavíkursvæðisins þar sem þenslan kom ekki og vandamálin vegna hennar þar af leiðandi ekki heldur. Þegar best lét ríkti jafnvægi á nokkrum stöðum utan höfuðborgarsvæðisins, en annars staðar var fremur um samdrátt en þenslu að ræða.

Þessar aðgerðir eru þeim mun alvarlegri í ljósi þess að dollarinn er orðinn mjög lágur og mun trúlega lækka enn. Tekjuhorfur fara því versnandi á sama tíma og líkur eru á hækkun olíuverðs og samdrætti á sjávarafla. Tekjur í sjávarútvegi lækka en kostnaður hækkar um leið og lán til að fleyta sér yfir erfiðleika verða með hækkuðum vöxtum og þar með sífellt dýrari. Ríkisstjórnin þarf að vara sig. Hún er á rangri leið. Of harkalegar aðgerðir af þessu tagi búa til ný vandamál, jafnvel kreppu.

Ýmis teikn eru á lofti á erlendum hlutabréfamörkuðum. Verð hlutabréfa hefur fallið svo að nálgast hrun. Helstu ástæður þessa eru taldar vera halli á fjárlögum Bandaríkjanna ásamt óeðlilega háum vöxtum. Iðnríki heims vinna nú markvisst að því að lækka vexti og telja atvinnulíf og afkomu þjóða sinna undir því komið. Á sama tíma finnur íslenska ríkisstjórnin sig til þess knúna að þvinga fram hækkun á vöxtum með því m.a. að draga úr framboði lánsfjár hjá bönkum, hækka vexti á ríkisskuldabréfum og beina fé að innlenda markaðnum til útlanda svo að fátt eitt sé nefnt. Áhrif óeðlilega hárra vaxta eru söm hér sem annars staðar í heiminum. Það dregur úr vilja fjármagnseigenda til að ávaxta fé sitt í áhætturekstri og dregur einnig úr mætti fyrirtækja til að fara í arðbærar framkvæmdir. Háir vextir hindra því margs konar nýjungar í atvinnurekstri og draga úr möguleikum á hagvexti.

Það verður að teljast fremur vafasöm aðgerð að beina íslensku sparifé til útlanda. Við höfum fulla þörf fyrir það hérlendis. Peningar þessir kunna að glatast að einhverju leyti vegna áhættu, gengisþróunar eða annarra óhagstæðra skilyrða. Við höfum enga tryggingu fyrir því að þeir skili sér nokkurn tíma til landsins aftur. Hér vantar útfærslurnar eins og með svo margt annað í ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.

Ein mikilvægasta ákvörðunin sem í frv. felst er fyrirhuguð breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Kvennalistinn hefur í stefnuskrá sinni lagt áherslu á nauðsyn þess að sveitarfélög séu sem sjálfstæðust og að efla beri getu þeirra til að ráða sjálf sínum málum. Hins vegar teljum við að langt sé frá að þessi breyting hafi verið nægilega undirbúin og margir þættir séu enn algerlega í lausu lofti hvað varðar framkvæmd þessa máls. Þegar á næsta ári er sveitarfélögum ætlað að fá í sinn verkahring að sjá um tónlistarfræðslu, byggingu dagheimila, heimaþjónustu aldraðra, þau taki við landshöfnum og rekstri þeirra og fleiri verkefni eru þeim ætluð. Talið er að þessi verkefnatilfærsla valdi sveitarfélögunum um 200 millj. kr. útgjöldum. Sú tala er hvergi útfærð og þótt leitað hafi verið eftir forsendum og rökstuðningi hafa engin svör fengist og ég hef efasemdir um að þessi tala standist. Mér þykir líklegt að hún reynist hærri.

Til þess svo að mæta auknum útgjöldum sveitarfélaganna á að koma framlag úr jöfnunarsjóði. Umfjöllun frv. á málefnum jöfnunarsjóðs er nú reyndar meiri háttar heilaleikfimi. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta, að „lögbundnar tekjur sjóðsins ættu að vera 1 milljarður 655 millj. kr. Um nokkurt árabil hafa tekjur sjóðsins verið skertar. Væri sama skerðing í gildi 1988 og er 1987 næmu tekjur hans 1 milljarði 135 millj. kr. samanborið við 984 millj. kr. skv. endurskoðaðri áætlun fyrir árið 1987. Í þessu frv. er við það miðað að til sjóðsins renni alls 1 milljarður 485 millj. kr. á árinu 1988, en það er 350 millj. kr. hærri upphæð en tekjur sjóðsins yrðu, væru þær skertar á sama hátt og í ár.“

Ég bendi hv. þm. á að lesa vendilega þennan kafla. Það þarf að lesa hann oftar en einu sinni til að ná þeim þankagangi sem þarf til að setja tiltölulega einfalt efni fram á svona máta. Málið er, að væru tekjur sjóðsins eins og lög mæla fyrir væru þær 1 milljarður 655 millj. en verða 1 milljarður 485 millj. Skerðingin er 170 millj. með einföldum orðum. Orðalagið í allri þessari umfjöllun frv. er eins og ríkisvaldið ætlist til auðmjúks þakklætis fyrir að hafa þó ekki seilst dýpra í þessa gullkistu sem það hefur gengið ótæpilega í undanfarin ár. Enn fremur segir að endurskoða skuli tekjuöflun sjóðsins og hlutverk, en ekki er nánar tilgreint í hvaða augnamiði. Einnig er þess getið að fyrirhugað sé að tekjur sveitarfélaga verði auknar á annan hátt og vísað til breytinga sem unnið sé að á tekjuöflunarkerfi ríkis og sveitarfélaga og ákvarðana um álagningarhlutfall sveitarfélaga í staðgreiðslukerfi skatta ef svigrúm verði fyrir hendi. Jafnframt er sagt að ekki sé ljóst hvert þetta álagningarhlutfall þarf að vera til að afkoma sveitarfélaganna sé tryggð.

Það er deginum ljósara að við þessa mikilvægu breytingu eru allt of margir óvissuþættir. Raunar er allt í óvissu, auk þess sem margvíslegar lagabreytingar verður að gera til þess að koma þessari skipan á. Þar sem ekkert bólar enn á frv. í þá veru frá hæstv. ríkisstjórn óttast ég að tíminn verði naumur til afgreiðslu þeirra mála sem verða að liggja ljós fyrir áður en fjárlög verða afgreidd.

Kvennalistinn leggur áherslu á að ekki er hægt annað en átelja þau vinnubrögð sem koma fram í þessum kafla. Það er tæpast réttlætanlegt að leggja mál fram á þennan hátt. Verkefnunum er kastað til sveitarfélaganna og sagt: Hérna, gjörið þið svo vel. Og svo verðið þið látin fá eitthvað til að standa undir þessu.

Ekkert liggur fyrir í frv. um skuldaskil ríkis og sveitarfélaga. Þó er bágt að sjá hvernig hægt er að ganga fram hjá þessum lið við fjárlagagerð. Óvissan um afdrif þessara mála hlýtur að vera sveitarstjórnum verulegt áhyggjuefni og raunar öllum landslýð. Ég nefni hér aðeins einn lið um þau skil. Það er bygging dagvistarheimila. Kvennalistakonur hafa fregnir af að óskir menntmrn. um fé til þessa liðar hafi verið um 200 millj. Staðreynd er að ríkið er svo langt á eftir með sitt framlag að 83 millj. þarf á næsta ári til þess eins að greiða það sem gjaldfallið er. Og menn skyldu athuga að þá er ég ekki að tala um endanlegt uppgjör því sú regla er í gildi að ríkið greiði sinn hlut á fjórum árum. Verði svo fé skorið við nögl til þeirrar þjónustu og fræðslu sem sveitarfélögunum er ætlað að veita börnum og unglingum, svo sem dagvistunar- og tónlistarfræðslu, sé ég afleiðingarnar fyrir. Þjónustan hlýtur að koðna niður, einkum í smærri sveitarfélögunum. Það er liður í byggðastefnu og sá sem ekki er minnst undir komið að fólk fái sem besta félagslega og menningarlega þjónustu. Sé ekki hlúð að þeim þáttum gefst fólk upp og flýr þangað sem betur er búið að börnunum. Það fer suður.

Virðulegi forseti. Nýrra viðhorfa gætir nú í heilbrigðismálum og þau ryðja sér til rúms, a.m.k. meðal þróaðra þjóða. Þessi viðhorf leggja áherslu á heilsugæslu og heilsuvernd. Kjörorð þeirra er: Betra er heilt en vel gróið. Íslendingar verja eins og velflestar hinar efnaðri þjóða heimsins miklu fjármagni til að viðhalda og fullkomna stöðugt flóknara kerfi tæknivæddrar heilbrigðisþjónustu. Sem betur fer hefur það oft leitt til þess að hægt er að greina og jafnvel lækna æ fleiri sjúkdóma.

Stofnunum heilbrigðisþjónustunnar hefur fjölgað og þær stækkað, starfslið aukist og kostnaður margfaldast. Heilbrigðisþjónusta er hjá velflestum velferðarþjóðfélögum orðin stjórnvöldum vaxandi áhyggjuefni vegna kostnaðar. Ef miðað er við hlutfall þjóðarframleiðslu hefur þessi kostnaður hækkað hérlendis úr 3% árið 1950 í rúm 8% árið 1982. Þó að þetta hlutfall hafi verið um 10% sl. 3–4 ár er þó ekki um að ræða raunhækkun frá árinu 1982 heldur hækkun sem verður fyrst og fremst vegna minni þjóðarframleiðslu. Hlutfall kostnaðar vegna reksturs sjúkrahúsa hefur farið hækkandi frá 37% árið 1953 í 52% á árinu 1980.

Einungis lítið brot af meginfjármagni heilbrigðisþjónustunnar rennur til forvarna. Flestir mundu þó samþykkja held ég að í forvörnum liggur vænlegasti fjárfestingarkostur framtíðarinnar. Dægurþras stjórnmálanna glepur mörgum sýn og annríki. Það og einnig viðleitni manna til að halda þar sessi sínum leiða oft til skammtímalausna en langtímasjónarmiðin verða út undan. Langtímastefnumörkun í heilbrigðismálum hefur sárlega skort hérlendis. Ástæða er því til að fagna aðild Íslendinga að samvinnuáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópuþjóða um varnir gegn langvinnum sjúkdómum sem fylgi meginstefnu þeirrar stofnunar um heilbrigði fyrir alla árið 2000.

Í lok síðasta þings var lögð fram á Alþingi skýrsla um íslenska heilbrigðisáætlun. Hún lýsir fyrirætlunum heilbrigðisyfirvalda í þessu samvinnuverkefni og markar jafnframt stefnu í heilbrigðismálum hérlendis til langs tíma. Þessi skýrsla var þó ekki rædd, en mun áður en langt um líður lögð fyrir þetta þing. Í skýrslunni er lögð megináhersla á forvarnir í formi heilsugæslu, heilbrigðra lífshátta og heilbrigðiseftirlits. Í henni er sérstaklega tekið fram, með leyfi virðulegs forseta: „Árlega verði á Alþingi lögð fram stefnumörkun í heilbrigðismálum í tengslum við fjárlagafrumvarpið.“

En hvernig blasir svo þetta við í þeim fjárlögum sem hér eru til umfjöllunar? Hvar er að finna slíka stefnumótun í anda forvarna og heilsuverndar? Áfengisvarnaráð er skorið niður við trog og sama má segja um manneldisráð. Báðar eru þessar stofnanir mikilvægar á sviði forvarna. Og hvernig skýrir hæstv. ráðherra slíka forgangsröðun? Hvað með forvarnarstofnun þá sem hæstv. heilbrmrh. hefur sagt að hann muni koma á laggirnar? Hvar er að finna fjárveitingu til hennar?

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gerði fyrirspurn í þinginu í gær um framkvæmd þeirrar þáltill. um kynfræðslu sem Kvennalistinn flutti og fékk samþykkta á síðasta þingi. Hæstv. heilbrmrh. hafði engu við þær tölur að bæta sem birtust í fjárlagafrv., en þar hækkar framlag vegna laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir nr. 25/1975 úr 862 þús. kr. í rúma 1 millj. Þetta fé nægir hvergi til að efla þá kynfræðslu sem nauðsynleg er og ætti að vera hluti af grunnskóla- og framhaldsskólanámi barna og unglinga sem undirbúningur undir lífið.

Nei, virðulegi forseti, það örlar ekki á stefnumótun í anda forvarna við gerð þessara fjárlaga. Og ég hlýt að lýsa undrun minni og áhyggjum vegna slíkrar forgangsröðunar. Eitt er að hafa stefnu og annað að framfylgja henni. Fé til forvarna hefur sárlega vantað og þessu á nú að halda áfram. Ég hlýt að minna hæstv. ráðherra á að það er brýnt að tryggja nægilegt fjármagn til ýmissa forvarnaraðgerða svo að meiri áhersla verði í raun lögð á að varðveita heilbrigði. Einungis þannig er hægt að draga úr þörf fyrir hina dýru viðgerðarþjónustu sem lækning og meðferð sjúkdóma óhjákvæmilega er. Slík ráðstöfun er ekki einungis sjálfsögð og skynsamleg frá heilbrigðissjónarmiði. Hún er einnig mjög hagkvæm frá fjárhagslegu sjónarmiði, einkum þegar til lengri tíma er litið.

Ég vil minnast á nokkra þætti frv. um landbúnað og iðnað. Í frv. er framlag til ráðunautaþjónustu landbúnaðarins lækkað og framlag til sex tilraunastöðva fellt niður. Ég veit eiginlega ekki hvaða orð á að hafa um þvílíkar ráðstafanir nú þegar hefðbundinn búskapur bænda á í þeim þrengingum sem allir þekkja og þeim er lífsnauðsyn að snúa sér í auknum mæli að nýjum búgreinum. Aldrei hefur þeim verið meiri þörf á styrkri ráðgjafarþjónustu byggðri á vandaðri rannsóknastarfsemi. Ég nefni dæmi þessu til áréttingar. Ég minni á að í tilraunastöðinni á Möðruvöllum er m.a. unnið að rannsókn á frostþoli trjátegunda. Bændur eru hvattir til skógræktar og á sama tíma á að leggja þessa starfsemi niður. Það er ekki út í bláinn að gaumgæfa hvaða trjátegundir henta best íslenskri veðráttu því mistök eru dýr í þessari grein sem öðrum. Í tilraunastöðinni á Skriðuklaustri fara fram tilraunir með margvíslegan nytjagróður og ekki ætti að þurfa að minna á hve innlend fóðuröflun er mikilvæg og sparar rándýran innflutning. Sl. sumar var kornuppskera á Fljótsdalshéraði meiri á hektara en á Jótlandi og tilraunir á Skriðuklaustri benda til þess að kornuppskera muni vera árviss á svæðum austanlands og geti orðið bændum þar mikilvæg búgrein. Fleira er þar í rannsókn sem mun reynast til búbóta fyrir bændur og styrktar er þeir sæta skerðingu á þeim greinum sem þeir hafa áður búið við.

Þeim til upplýsingar sem e.t.v. ekki átta sig á hve mikilvæg þessi dreifða rannsóknarstarfsemi er vil ég segja þetta: Það er hreint ekki sama hvar á landinu ræktunar- og gróðrartilraunir fara fram því veður er mismunandi eftir landsvæðum. Þær jurtir sem gefa góða raun á Faxaflóasvæðinu þrífast e.t.v. ekki eins vel í öðrum landshlutum og öfugt. Þetta þarf að hafa í huga m.a. þegar niðurskurðarsveðjunni er brugðið.

Bændur hafa oft á liðnum öldum þurft að sæta þungum búsifjum af völdum veðurfars og náttúruafla, en nú á síðustu árum hafa þeir búið við harðindi af mannavöldum. Þeim er borið á brýn, svo ég fari með nokkrar tilvitnanir, með leyfi virðulegs forseta, að þeir séu „dragbítar á hagvexti þjóðarinnar“, „þéttbýlið verður að borga með þessum hræðum í dreifbýlinu“, þeir eru „sníkjudýr á meiði atvinnulífsins“ og „gróðureyðing landsins er af þeirra völdum“.

Ég hygg að aldrei í sögu okkar hafi verið unnið jafnmarkvisst að því að brjóta niður sjálfsvirðingu heillar stéttar þjóðfélagsins og gert hefur verið í garð bænda í blöðum og umræðum á síðustu árum. Því gladdist ég er ég las eftirfarandi málsgrein í starfslýsingu hæstv. ríkisstjórnar, með leyfi virðulegs forseta: „Menntun, starfsfræðsla og rannsóknir í landbúnaði verði efldar og jafnframt verði unnið skipulega að fjölgun nýrra starfa í sveitum landsins.“ — Er fjárlagafrv. ekki eitthvað á skjön við þessi fyrirheit?

Þegar rætt er um fjölgun nýrra starfa í dreifbýli er ekki úr vegi að drepa á annað mál og ég vil þá vitna til viðtals við forstjóra Iðntæknistofnunar sem birtist í dagblaðinu Degi á Akureyri fyrir nokkru. Hann lýsti þar óánægju sinni með þá meðferð sem Iðntæknistofnun hefur fengið í fjárlagafrv. og segir síðan, með leyfi virðulegs forseta:

„Iðntæknistofnun fékk á síðasta ári tæplega 54 millj. kr. framlag frá ríkinu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er áætlað að við fáum nú 64 millj. á næsta ári. Hækkunin er 19%. Verðbólga á þessu tímabili er hins vegar áætluð um 30% og þarna er að ræða um 10% samdrátt.“

Aðspurður hvaða áhrif þetta hafi á starfsemi stofnunarinnar segir Páll: „Þetta þýðir fyrst og fremst það að við munum ekki geta sinnt þörfum lítilla fyrirtækja eins og við höfum gert hingað til. Við höfum verið reiðubúnir til að lækka taxta okkar verulega þegar við höfum unnið fyrir lítil fyrirtæki og til að mynda sleppa ferða- og uppihaldskostnaði starfsmanna okkar þegar þeir hafa unnið úti á landi. Til þess að standa undir þessu höfum við notað ríkisframlagið. Núna höfum við minna svigrúm til þessa og munum þurfa að gera auknar kröfur um sértekjur deildanna. Þetta hefur því í för með sér þá þróun, sem þegar er hafin, að við munum í vaxandi mæli sinna stórum fyrirtækjum og niðurskurðurinn bitnar verst á litlum fyrirtækjum á landsbyggðinni.“

Til viðbótar þessu má geta þess að framlög til iðnráðgjafar eru alveg skorin af. Þessi ráðgjöf, sem verið hefur á vegum iðnþróunarfélaganna, hefur reynst landsbyggðinni ómetanleg. Fyrir tilstyrk hennar hafa risið upp fyrirtæki stærri og smærri á landsbyggðinni. Þar hafa skapast ný og fjölbreyttari störf, ekki síst fyrir konur. En einhæfni atvinnulífsins í dreifbýlinu kemur ekki síst fram í því um hve fábreytileg störf er þar að ræða fyrir konur og því var þessi þróun, sem ég hef lýst, til mikilla bóta. Það er illt til þess að vita að steinn sé lagður í götu atvinnuþróunar á þennan hátt, að því er virðist gegn yfirlýstri stefnu hæstv. ríkisstjórnar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Hv. þm. er væntanlega flestum kunnugt um hvern hug kvennalistakonur bera til þess sjóðs sem að þeirra dómi er eitt helsta skjól jafnréttis hér á landi, skjól sem við teljum okkur skylt að verja. Það er ekki spurning í okkar huga að Lánasjóður ísl. námsmanna á sinn stóra þátt í mikilli fjölgun kvenna í langskólanámi síðustu ár.

Allt síðasta kjörtímabil átti sjóðurinn í vök að verjast fyrir skammsýnum ráðherrum sem sáu ofsjónum yfir þeim framlögum sem sjóðurinn þarfnast til að geta staðið við lög. Við afgreiðslu fjárlaga á hverju ári hefur Kvennalistinn gert tillögur um að rétta hag sjóðsins, en mesta ólán hans er að honum hefur verið gert að taka stórfelld lán til að fjármagna útlán sín til námsmanna. Er nú svo komið að afborganir og vextir af teknum lánum nema nær 300 millj. á þessu ári og eru áætlaðar 567 millj. á næsta ári og sjá allir hversu heimskulega hér hefur verið staðið að verki.

Gegn þessari stefnu hafa kvennalistakonur talað á hverju einasta ári og við síðustu fjárlagagerð lagði Kvennalistinn til að beint framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna yrði hækkað um 200 millj., en lántökuheimild hans lækkuð á móti um 200 millj. Stjórnarliðar felldu þessar tillögur, en nú hefur hæstv. fjmrh. breytt stefnunni að þessu leyti og ber að meta það. Beint framlag ríkissjóðs er nú aukið um 59% frá þessu ári, en lántökuheimildin lækkuð nokkuð á móti þó vissulega sé um háa upphæð að ræða eða um 690 millj. kr.

Hitt er svo aftur vafamál hvort það ráðstöfunarfé sem sjóðnum er ætlað dugir til að mæta þörfinni fyrir námslán á næsta ári. Fulltrúar lánasjóðsins hafa enn ekki komið á fund fjvn. til að kynna sínar áætlanir, en að mínu mati er a.m.k. ljóst að miðað við tölur fjárlagafrv. hafa ráðherrar menntamála og fjármála engar áætlanir um að leiðrétta framfærslugrunninn sem námslánin eru nú miðuð við. Samkvæmt lögum eiga námslán að nægja til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði og eru nú byggð á margra ára gömlu framfærslumati sem á lítið skylt við raunveruleikann. Auk þess eru námslán nú aðeins um 80% af því sem eðlilegt væri miðað við þennan framfærslugrunn vegna þess að fyrrv. menntmrh. Sverrir Hermannsson frysti allar lánsupphæðir frá hausti 1985 til vors 1986 og hafa námsmenn ekki enn fengið leiðrétta þá skerðingu á framfærslugrunninum sem sú ráðstöfun hafði í för með sér. Þetta hefur komið mörgum námsmönnum afar illa og fáist ekki leiðrétting þessara mála getur orðið um alvarlegar afleiðingar að ræða. Meira segi ég ekki um lánasjóðinn að sinni, en það má búast við að málefni hans verði oftar til umræðu á þessum stað ef að vanda lætur.

Við kvennalistakonur erum ánægðar með að menningarmál skipa hærri sess í ár en undanfarið og hafa nú náð um það bil sömu stöðu og var fyrir nokkrum árum. Þó finnst okkur ekki nóg að gert og við bendum á að það eru helst stofnanir sem hafa fengið sinn hlut réttan og veitti ekki af, en litlar áherslubreytingar er að finna í útdeilingu fjárins og grasrótin og landsbyggðin bera skarðan hlut frá borði. Ekki líst okkur á að setja söluskatt á menningarstarfsemi og torvelda þannig aðgang almennings að menningarviðburðum.

Öflug byggðastefna byggist á fleiru en atvinnu og efnahag. Ekki síður er hún fólgin í því að búa vel að félags-, mennta- og menningarmálum og því lýsum við okkur mótfallnar því að flytja rekstur tónlistarskóla og félagsheimila yfir á sveitarfélög. Reynslan sýnir að menningar- og félagsmál sitja gjarnan á hakanum þegar peningum er deilt á verkefni og því er hætta á að sveitarfélög, sérstaklega þau smærri, muni ekki sinna þessum „óarðbæru“ verkefnum sem skyldi.

Það er betur gert við Háskóla Íslands en oft áður þó að lengi megi gera betur, en framlög til þessarar stofnunar hafa verið til skammar undanfarin ár. Ég lýsi ánægju með stofnun háskóla á Akureyri og get þess í leiðinni að þegar öldungadeild var stofnuð á Akureyri fyrir nokkrum árum var meiri hluti nemenda konur og hefur það hlutfall haldist síðan. Það er trú mín að líkt muni verða um háskólann þar, að hann muni ekki síst sækja konur sem fá þá tækifæri til að svala námslöngun sinni nær heimaslóðum.

Öruggt húsnæði hefur löngum verið talin ein helsta undirstaða velferðarþjóðfélags. Félagslegt húsnæði ætti þó að hafa forgang og reyndar sér þess aðeins stað í frv. Framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna hækkar milli ára og er það vel. En þegar litið er á framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins kemur í ljós að það hefur aðeins hækkað um 15% meðan hækkun til framkvæmda á næsta ári er áætluð 23%. Verulegur hluti af ráðstöfunarfé Húsnæðisstofnunar er fenginn að láni hjá lífeyrissjóðum landsmanna. Féð er síðan lánað til húsbyggjenda og kaupenda sem greiða lægri vexti, sem þó eru í hæsta lagi, en þeir vextir eru sem lífeyrissjóðirnir fá. Það er eðlilegt að ríkisvaldið komi til móts við fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið í formi niðurgreiddra vaxta og skattaívilnana. Hins vegar er óeðlilegt að ekki er gert ráð fyrir því í frv. að ríkið greiði þennan vaxtamun heldur er gengið á höfuðstólinn. Það þarf ekkert sérstakt fjármálavit til að sjá að þetta hlýtur að leiða til gjaldþrots og hér er ekki litið til framtíðar.

Virðulegi forseti. Enn eru fjölmargir liðir í frv. sem ástæða væri til að fjalla um, liðir sem kvennalistakonur hafa borið sérstaklega fyrir brjósti og ítrekað reynt að færa til betri vegar og hefur því miður ekki allt batnað í höndum hæstv. fjmrh. Má þar nefna fjárveitingu til Þróunarsamvinnustofnunar sem lækkuð er í frv. úr 30 millj. í 20 millj. kr. án nokkurrar skýringar. Þá má geta um árvissan niðurskurð á lögbundnu framlagi til ferðamála og fleiri liði af því tagi. Af ljósum punktum má hins vegar nefna að málefni fatlaðra fá betri útreið en á síðustu árum og var varla von til annars með Jóhönnu Sigurðardóttur í félmrn.

En hér verður látið staðar numið, enda eftir að fjalla um þetta allt í fjvn. á næstu vikum. Þó vil ég ekki ljúka svo máli mínu að minnast ekki á það sérstaklega hvernig þetta frv. horfir við konum þessa lands. Í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar eru mörg orð og fögur um að vinna að jafnrétti með sérstakri áherslu á launajafnrétti kynjanna. Hvar sér þess stað í frv.? Við kvennalistakonur hefðum viljað sjá á fjárlögum næsta árs sérstakt framlag sem varið skyldi til að hækka laun kvenna í þjónustu ríkisins. Þannig hefði ríkisstjórnin getað sett öðrum fordæmi. E.t.v. ætlar hæstv. ríkisstjórn sér að ná þessu markmiði með áróðri sem skili sér í hugarfarsbreytingu þjóðarinnar. Að okkar mati þarf hún þó fyrst að breyta eigin hugarfari.

Virðulegi forseti. Einföldun, réttlæti og skilvirkni eru nokkurs konar einkunnarorð hæstv. fjmrh. við gerð þessa frv. Við skulum hafa það í huga að einföldun er sjaldan réttlát og skilvirknin sýnist mér að komi helst fram í því hve hratt pyngjur alls þorra launafólks munu tæmast á komandi ári.