04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

1. mál, fjárlög 1988

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Í frv. því til fjárlaga sem hér er til 1. umr. eru svo sem oft áður ýmis stefnumarkandi nýmæli. Þrátt fyrir þetta er höfuðeinkenni þessa frv. þó að það er með rekstrarjöfnuði. Augljóst er að þessi meginniðurstaða fjárlagafrv. er jafnframt veigamikill þáttur í efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Þá er einnig ljóst að um þessi meginmarkmið ættu flestir að geta verið sammála. Um það hvernig þau eru útfærð í einstökum atriðum er hins vegar eðlilegt geti verið skiptar skoðanir.

Hæstv. ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var mynduð eftir nokkuð langan aðdraganda. Þá hafði staðið tímabil lítilla ákvarðana í stjórn landsins svo sem jafnan verður á meðan beðið er nýrrar ríkisstjórnar. Á þessu tímaskeiði höfðu komið í ljós ýmis hættumerki í íslensku efnahagslífi og hæstv. fjmrh. rakti í ræðu sinni í dag versnandi horfur í íslenskum þjóðarbúskap sem fram hefðu komið í áætlunum í maímánuði. Umsvif og fjárfesting fóru mjög vaxandi, einkum í þjónustu- og viðskiptagreinum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og ollu þenslu. Yfirborganir voru tíðar, ekki síst í byggingariðnaði, og launaskrið í opinberum rekstri, Ný verðbólgusveifla var yfirvofandi ásamt vaxandi viðskiptahalla og skuldasöfnun erlendis. Að sumu leyti var hér um að ræða afleiðingar góðærisins, en að hinu leytinu meira innstreymi erlends lánsfjár var til landsins en góðu hófi gegndi.

Við þessum horfum brást hæstv. ríkisstjórn með ýmsum ráðstöfunum í efnahags- og peningamálum. Hún hefur lagt áherslu á að undirstaða hagsældar sé jafnvægi í efnahagsmálum og öflugt atvinnulíf. Hún hefur kynnt þá stefnu sína að halda gengi íslensku krónunnar stöðugu, veita verðbólgu öflugt viðnám og stefna að hallalausum viðskiptum við útlönd og þar með lækkun erlendra skulda. Öllum landsmönnum er mikilvægt að þessi markmið náist. Það er jafnframt augljóst að meginniðurstaða fjárlagafrv. um hallalausan ríkisbúskap er þýðingarmikill þáttur í því að þessi stefna geti orðið að veruleika. Enn fremur að hófsemi verði gætt við lántökuáform hins opinbera, einkum erlendar lántökur skv. lánsfjárlögum. Að þessu leyti geta fjárlög og lánsfjárlög verið áhrifamikið stjórntæki í efnahagsþróun landsmanna. Afgreiðsla þessara lagabálka á hinu háa Alþingi er því að sjálfsögðu stórmál ekki síður nú en endranær.

Það hefur komið fram í þessari umræðu að halli á ríkissjóði er verulegur á þessu ári. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár fyrir tæpu ári var gert ráð fyrir að halli á fjárlögum ríkisins yrði 2,8 milljarðar kr. Nú er búist við að þessi halli verði um 2,1 milljarður. Mér þykir rétt að rifja upp hverjar eru veigamestu orsakirnar til þess að þessi halli myndaðist, en að honum var raunar stefnt af fráfarandi ríkisstjórn vitandi vits og þá um leið til að eiga þátt í því að leysa kjarasamninga tvisvar sinnum á árinu 1986, fyrst í febrúarmánuði en síðan í desembermánuði.

Í umræðum við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir tæpu ári, hinn 19. desember, sagði ég m.a. um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þessa fjárlagaafgreiðslu blasir við að tvisvar sinnum á árinu 1986, bæði í febrúarmánuði og í desemberbyrjun, hefur hæstv. ríkisstjórn stuðlað að því að náðst hafa hófsamir kjarasamningar á þann máta að taka miklar byrðar á herðar ríkissjóðs. Jafnframt er ljóst að ekki hefur tekist að ná fram auknum sparnaði eða niðurskurði ríkisútgjalda á móti þessum nýju útgjaldabyrðum og ekki hefur heldur verið horfið að því að afla nýrra tekna. Um leið og kaupmáttur launafólks hefur farið stórum vaxandi góðæri hefur komið til launafólks í landinu, hefur hæstv. ríkisstjórn stuðlað að þjóðarsátt í landinu við gerð kjarasamninga á þann hátt að það hefur tryggt hagstæða efnahagsþróun, en vandanum hefur verið velt yfir á ríkissjóð. Afleiðingin birtist í halla er fram kemur við afgreiðslu þessa fjárlagafrv.“

Fráfarandi ríkisstjórn tók þessar ákvarðanir og stuðningsflokkar hennar til að ná því markmiði að hófsamir kjarasamningar næðust og að tækist það sem kallað var þjóðarsátt í þjóðfélaginu. Þessi þjóðarsátt hafði það m.a. í för með sér að rauntekjur launafólks urðu meiri en jafnvel þá var gert ráð fyrir. Nú er vitað að á einu ári hefur kaupmáttur atvinnutekna hækkað um 16%. Þannig er vissa fyrir því að að meðaltali hefur góðærið skilað sér í rauntekjum til fólksins í landinu, atvinnutekjur þess og kaupmáttur atvinnutekna hafa farið hækkandi meira en nokkru sinni hefur áður gerst. En þetta olli því að taka varð byrðar á ríkissjóð, fyrst í febrúarsamningunum 1986 sem þá var metið að næmu um 1800 millj. kr. á því ári. Meginhlutinn af þessum byrðum gekk síðan aftur til útgjalda hjá ríkissjóði á þessu ári. Í desembersamningunum 1986 var talið að byrðar ríkissjóðs til þess að þeir samningar næðust saman með þeim hætti sem þá gerðist næmu yfir 2 milljörðum kr. Það þótti tilvinnandi til að ná friði á vinnumarkaði og ná þeirri hagsæld til launafólks og þeirri ró í efnahagslífinu sem kjarasamningarnir höfðu í för með sér.

Það þarf því engum að vera undrunarefni þó að þetta hafi haft í för með sér að hallarekstur var á ríkissjóði á þessu ári sem og raunar einnig var á árinu 1986. Þannig var hins vegar ekki hægt að halda áfram. Það er ekki hægt að halda áfram á þann máta að leysa kjarasamninga aftur og aftur, við skulum segja í þriðja eða fjórða sinn, með því að velta milljörðum yfir á herðar ríkissjóðs.

Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur hér lagt fram frv. til fjárlaga sem hefur þau megineinkenni að halli verði ekki á rekstri ríkissjóðs á árinu 1988. Enginn veit hvernig afgreiðslu frv. verður háttað. Að sjálfsögðu mun það taka einhverjum breytingum í meðförum Alþingis, e.t.v. beggja megin, bæði tekna- og gjaldamegin, en allt of snemmt er að spá um niðurstöður þrátt fyrir það að ég telji það afar mikið keppikefli stjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstjórnar, raunar þjóðarinnar allrar, að það takist að afgreiða þetta frv. þannig að rekstrarafgangur verði eða a.m.k. sæmilegur jöfnuður.

Um þessar mundir standa kjarasamningar fyrir dyrum. Ég mun að sjálfsögðu ekki orðlengja um það hér hversu mikið er í húfi að þar verði hófsamlega að verki staðið. En bregðist það er hætt við að fastgengisstefna hæstv. ríkisstjórnar hrynji og að verðbólgan taki nýjan fjörkipp. En mér þykir ómaksins vert að draga fram í þessum umræðum hversu laun vega þungt í ríkisrekstri. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að bein launaútgjöld ríkisins á næsta ári verði 20,2 milljarðar kr. eða yfir þriðjungur allra ríkisútgjalda í A-hluta. Ýmsar tilfærslur fylgja alla jafna launum þegar launahækkanir verða, svo sem lífeyristryggingar. Í frv. er gert ráð fyrir að til lífeyristrygginga renni 8,6 milljarðar kr. Ljóst er því að 1% hækkun launa þýðir að bein launaútgjöld ríkisins hækka um 202 millj. kr., ef miðað er við launatölu fjárlagafrv., og jafnframt verður hækkun til lífeyristrygginga um 86 millj. kr. 1% launahækkun í þjóðfélaginu og hjá ríkisstarfsmönnum hefur því samtals áhrif á þessa tvo þætti ríkisútgjaldanna sem nemur 288 millj. kr. Þá eru ótalin önnur rekstrargjöld, ýmsir tilfærsluliðir, stofnkostnaður og viðhald, sem launahækkanir hafa misjafnlega mikil áhrif á. Að sjálfsögðu vaxa einnig tekjur ríkissjóðs á tekjuhlið fjárlaganna við launahækkanir, en eigi að síður sést af þessu að áhrif launabreytinga á ríkisreksturinn eru mjög afgerandi og um leið fyrir allt jafnvægi í efnahagslífinu.

Ég tel rétt að segja örfá orð í sambandi við skattamál vegna þess að í umræðunum hér að framan, ekki síst í ræðu hæstv. fjmrh., hefur verið mikið um þau fjallað. Ég mun þó ekki að sinni ræða þær breytingar á skattkerfinu sem gerðar hafa verið í tíð núverandi ríkisstjórnar og ekki heldur um það sem fram undan er í stefnu ríkisstjórnar varðandi skatta og skattkerfi. Ég vil þó að það komi fram, sem raunar er ljóst, að ýmsar hugmyndir hafa komið fram á starfstíma ríkisstjórnarinnar um frekari skattahækkanir en raun hefur orðið á og þær hafa strandað, eins og fram hefur komið, vegna andstöðu Sjálfstfl. Ég lít svo til að við þurfum að fara með mikilli varúð í skattahækkanir. Það haggar þó ekki því að við þurfum að halda áfram því starfi sem hafið var á síðasta kjörtímabili um skattkerfisbreytingar, en eins og vitað er voru þá lögfestar gagngerðar breytingar á skattkerfi með staðgreiðslu skatta.

Ég vil hins vegar minna á, þrátt fyrir það sem ég hef að framan sagt, að skattar eru tiltölulega lágir hér á landi. Þeir eru miklu lægri en í flestum nálægum löndum. Sömu sögu er raunar að segja um opinber útgjöld sem eru í raun réttari mælikvarði en skattar til ríkis og sveitarfélaga. Árið 1983 voru opinber útgjöld ríkis og sveitarfélaga hér á landi 35,2% af landsframleiðslu, en á hinum Norðurlöndunum var þetta hlutfall 50,6% að meðaltali og hæst í Svíþjóð, 61%. Það sjá allir að hér er um gífurlegan mismun að ræða og ég hef ekki fengið upplýsingar sem benda til þess að þessi mismunur hafi breyst verulega síðan 1983.

Auðvitað vilja allir að skattar séu sem lægstir þótt enn mikilvægara sé að þeir komi réttlátlega niður sem ábyggilega er og hefur verið misbrestur á. Það er því nauðsynjaverk, sem hæstv. ríkisstjórn vinnur að, að halda fram því verki, sem hafið var á síðasta kjörtímabili, að endurskoða skattkerfið.

Ég sagði í upphafi máls míns að skoðanir gætu verið skiptar um útfærslu á einstökum atriðum fjárlagafrv. Það er engin nýlunda. Í raun og veru er það jafnan svo. Það er heldur engin nýlunda að fulltrúar stjórnarandstöðu gagnrýni fjárlagafrv. sem raunar hefur verið gert hér. Og það er engin nýlunda að einstakir þm. stjórnarliðs á hverjum tíma vildu gjarnan sjá hærri fjárveitingar í einstökum liðum en fram koma í fjárlagafrv., jafnvel að útfærsla stefnuatriða sé með einhverjum öðrum blæbrigðum en þar kemur fram. Þetta hlýtur jafnan að verða svo.

Hér hefur verið til þess vitnað með réttu í umræðum að einn hæstv. ráðherra hefur haft fyrirvara um flest málefni síns ráðuneytis að því er varðar fjárlagagerð. Um þau mál er nú fjallað af sérstakri nefnd á vegum stjórnarflokkanna. Þetta er vissulega ekki venjuleg málsmeðferð, en við í fjvn. munum hafa náið samráð við þá nefnd sem fjallar um þennan málaflokk þegar sú nefnd er komin lengra í sínu starfi.

Það hefur einnig komið fram að fleiri hæstv. ráðherrar hafa fyrirvara um einstök mál, svo sem afar oft hefur gerst. Tíminn sem líður frá því að fjárlagafrv. fer í prentun og þangað til það er afgreitt er þá notaður til að ná samkomulagi um slík einstök atriði. Þessi mál öll og raunar fjárlagafrv. í heild eru nú til meðferðar hjá hv. Alþingi, hjá fjvn., og þar munu fulltrúar stjórnarflokkanna og e.t.v. nefndin í heild taka ákvarðanir um þær tillögur til breytinga á frv. sem lagðar verða fyrir hv. Alþingi við 2. og 3. umr. Ég á hlut í því starfi sem unnið er af fjvn. og ég mun þar leitast við að ná fram breytingum og eiga hlut að samkomulagi um þær breytingar sem við munum telja nauðsynlegar, en ég mun ekki við 1. umr. málsins gera einstök atriði frv. að umtalsefni.

Breytingar á fjárlagafrv. verða ævinlega nokkrar í meðförum Alþingis og þær hljóta eins og ég hef sagt að byggjast á samkomulagi og samstarfi þeirra flokka sem að ríkisstjórn standa hverju sinni og stundum með veigamikilli aðild frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, sem er þó breytilegt eftir aðstæðum. En það væri mjög óviturlegt af hálfu okkar sem þurfum að vinna þetta starf að hefja umræður um einstök slík mál við 1. umr. fjárlaga. A.m.k. mun ég ekki eiga þátt í því, það mun bíða betri tíma.

Að gefnu tilefni í þessum umræðum þykir mér þó rétt að leggja áherslu á eitt atriði, en það varðar tilfærslu nokkurra verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Þær tillögur sem fyrir liggja og kynntar eru í fjárlagafrv. þurfa að sjálfsögðu sinn undirbúningstíma. En ég lít svo til að þessum tillögum, þessum hluta tilfærslna til sveitarfélaga a.m.k., hafi yfirleitt verið vel tekið og ég tel að það sé tímabært að stíga skref í þessa átt.

Þrátt fyrir það tel ég nauðsynlegt að tryggilega verði frá því gengið að sú deild, sem reiknað er með að setja á laggir við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með sérstöku fjármagni til sjóðsins, taki að sér að styrkja þau verkefni sem færð verða að þessu sinni yfir til sveitarfélaganna þannig að sveitarfélögin, a.m.k. þau fámennari þeirra, og sum þau verkefni sem ýmsir minni aðilar utan sveitarfélaganna hafa með höndum, svo sem ýmis íþróttafélög sem sótt hafa styrk sinn til Íþróttasjóðs, að þessir aðilar standi ekki lakar eftir en áður. Um þetta verður að móta reglur, sem að vísu er vandaverk. Að þessu starfi er unnið, en ég hlýt að vekja á því athygli að það er tiltölulega skammur tími til stefnu til að vinna þetta verk og ég legg á það áherslu að þessi undirbúningsvinna og niðurstöður hennar liggi fyrir eða séu a.m.k. fyrirsjáanlegar í byrjun næsta mánaðar þannig að ef þetta verk strandaði einhvers staðar og fjvn. þyrfti að taka þessi mál upp yrði hún að hafa til þess svigrúm.

Þessi orð eru hér einungis mælt til viðvörunar og til áherslu, ekki til gagnrýni á málsmeðferð því að verið er að vinna að þessum verkum, heldur aðeins til þess að vekja athygli á því að það þarf að hraða þessu starfi og ég hygg að það sé ekkert ofsagt að Alþingi vilji vita hvernig að þessum málum verður staðið, hvernig þessi mál verða tryggð, af hálfu þeirrar deildar sem sett verður á fót af Jöfnunarsjóði áður en þau mál eru afgreidd héðan, bæði við afgreiðslu fjárlaga og eins við afgreiðslu einstakra laga sem afgreiða þarf til þess að þessar breytingar nái fram að ganga.