13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6350 í B-deild Alþingistíðinda. (4360)

293. mál, áfengislög

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Virðulegi forseti. Í umræðunum í gær var beint til mín fyrirspurn sem ég mun reyna að svara.

Mig langar hins vegar aðeins út af umræðum hjá tveimur síðustu hv. ræðumönnum um forvarnarstörfin að segja það að ég tel að undanfarið hafi forvarnarstarf í þágu heilbrigðismála verið mjög vanrækt. Það á ekki eingöngu við um áfengisvarnir. Þetta á auðvitað við á ýmsum sviðum. Við höfum fengið of litlar fjárveitingar til manneldismála, til tannverndarmála, til tóbaksvarna, til áfengisvarna og til þeirra þátta sem við höfum almennt flokkað undir forvarnarstörf.

Ég hef áður lagt á það áherslu hér í umræðu um þetta tiltekna dagskrármál að við þyrftum að efla þetta forvarnarstarf. Ég lagði áherslu á að það væri hlutverk stjórnvalda að fræða einstaklinginn um þá hættu sem stafar af neyslu áfengis og tóbaks og það getur auðvitað átt við um fleiri neysluvörur sem menn telja misjafnlega hollar heilsu fólks. Ég get í því sambandi sagt frá því að í heilbrrn. er verið að vinna að mótun svokallaðrar manneldis- og neyslustefnu. Við höfum líka lagt á það áherslu að það eigi að efla og auka ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu. Hann eigi að vera betur meðvitaður um það hvað hann geti sjálfur gert til þess að verjast sjúkdómum og slysum. Það er hluti af því forvarnarstarfi sem við viljum vinna og erum að reyna að byggja upp. Ég get svo sem tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að við komumst auðvitað ekki hjá því að sinna ákveðnum leikreglum og að sjálfsögðu þurfa að gilda ýmis boð og bönn í okkar þjóðfélagi. Það er vissulega rétt. En við verðum líka að gæta þess að í því sambandi gæti ekki tvískinnungs og mér finnst að ýmislegt í okkar áfengisstefnu sé því marki brennt og ég hef áður gert grein fyrir þeirri afstöðu minni.

Ég hef verið með að undanförnu í samningu í ráðuneytinu frv. um heilbrigðisfræðslu og forvarnir. Ég lagði það frv. í seinustu viku fyrir ríkisstjórn og fyrir stjórnarflokkana, en því miður vannst ekki tími til þess að afgreiða það mál gegnum stjórnarflokkana þannig að það kæmist hér inn í Alþingi á tilsettum tíma, þ.e. á mánudaginn var, til þess að ég hefði vonir um að það mál færi hér í gegn eða yrði samþykkt í vor. Ég geri mér hins vegar enn vonir um að geta sýnt það frv. nú, þ.e. lagt það fram í þinginu þótt það komi ekki til umræðu, og þá jafnframt sýnt áherslu okkar og vilja í þessum efnum og síðan að það yrði þá tekið aftur upp að sjálfsögðu á haustmánuðum. Þar er m.a. rætt um þörf á samræmingu forvarnarstarfa hvers konar á sviðum áfengisvarna, tóbaksvarna og þeirra þátta annarra sem ég nefndi áðan. Við leggjum þar ekki hvað síst áherslu á að það verði að auka fjárveitingar til þessara verkefna til þess að þau megi þjóna þeim tilgangi sem þeim er ætlað. Vegna þess að ljóst er að það frv. nær ekki fram núna er ég út af fyrir sig tilbúinn til að lýsa stuðningi mínum við tillögur um auknar fjárveitingar til forvarnarverkefna á sviði áfengisvarna, eins og hér hefur verið lögð fram till. um.

Ég nefndi áðan að mér fyndist gæta nokkurs tvískinnungs í umræðunni og við getum auðvitað nefnt að það eru ýmsar vörur sem eru miður hollar heilsu manna. Ef við tökum t.d. baráttu okkar gegn þeim gífurlegu tannskemmdum sem eru á Íslandi og meiri en í nágrannalöndunum og mikill kostnaður við tannviðgerðir væri auðvitað hagkvæmt að banna t.d. gosdrykki sem eru sennilega sú neysluvaran sem mest áhrif hefur á tannheilsu manna og veldur miklum tannskemmdum. Það dettur okkur samt ekki í hug að gera. Ég hygg að það mundi heldur ekki leysa neinn vanda þó að einhver ein tegund gosdrykkja yrði bönnuð.

Við höfum náð verulegum árangri í baráttu við tóbaksreykingar á undanförnum árum með markvissu fræðslustarfi. Við höfum reyndar fengið hlutfallslega meiri fjármuni til tóbaksvarna eða til reykingavarna en til annarra þeirra málaflokka sem við þyrftum að berjast í. Ég held að þess vegna sé það hugsanlega dæmi um hvaða árangri við getum náð án þess þó að við höfum bannað einstakar tegundir tóbaks. Þetta hef ég reyndar einnig nefnt áður í umræðunni.

Ég tel líka að við getum haft veruleg áhrif á neyslu t.d. áfengis og tóbaks með verðstýringu. Ég er viss um að hátt verð á tóbaki og áfengi dregur mjög úr neyslu á þessum vörum og reyndar sanna það tölfræðilegar upplýsingar. Ég hef upplýsingar frá landlækni um áhrif verðstýringar á neyslu þessa og ég hef reyndar lagt það fyrir í ríkisstjórn einnig að við hækkuðum verð á bæði áfengi og tóbaki. Alls ekki eingöngu til þess að skapa tekjur í ríkissjóð heldur til að hafa áhrif á neysluna sem ég er sannfærður um að gæti haft áhrif.

En spurningin sem til mín var beint af hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni var í þá veru hvort ég teldi að samþykkt þessa frv. mundi leiða til aukinna útgjalda í heilbrigðismálum. Ég hygg að það sé afar erfitt að meta kostnað heilbrigðisþjónustunnar vegna afleiðinga áfengisneyslu. Mér er fullkomlega ljóst að kostnaður heilbrigðisþjónustunnar vegna áfengisneyslu eða afleiðinga hennar er mikill. Um það er enginn ágreiningur og menn deila ekki um það. En ég held líka að það sé mjög erfitt að átta sig á því hver hann er. Hv. þm. nefndi tölu í gær sem ég get hvorki staðfest að sé rétt né sagt að sé ekki rétt. Ég hef um það því miður engar upplýsingar. Það væri vafalaust þarft að reyna að átta sig betur á því hvað einstakir þættir heilbrigðisþjónustunnar kosta og þá gætum við hugsanlega lagt áherslur í forvarnarstarfi eftir því. Það á ekki, að mínu viti, eingöngu við um áfengisneysluna þó að það sé auðvitað mál sem við þurfum að vita meira um, ættum að vita meira um og ættum að reyna að átta okkur á enn betur en við gerum nú hvernig við getum afstýrt eða dregið úr þeim mikla kostnaði. Þetta á auðvitað við um svo margt í okkar neysluþjóðfélagi og í okkar neyslumynstri sem hefur áhrif á heilsu og einnig hefur áhrif á slysatíðni. Nýjasta dæmið í því sambandi er t.d. stórkostleg hækkun á tryggingariðgjöldum bifreiða sem er auðvitað afleiðing af gífurlega auknum innflutningi bíla og stórkostlegri fjölgun tjóna með þeim afleiðingum og auknum kostnaði sem það hefur haft gagnvart heilbrigðisþjónustunni.

Ég veit og get fullyrt að við munum halda áfram að veita bestu hugsanlegu heilbrigðisþjónustu við þeim sjúkdómum hvers konar sem þjá landsmenn. Ég ítreka það, sem ég hef áður sagt í þessari umræðu, að ég mun gera mitt til að efla hvers konar forvarnarstarf og upplýsingastarf. Það tel ég mikilvægasta verkefni heilbrigðisþjónustunnar í því sambandi sem hér er til umræðu og tel að með því móti og með öðrum leiðum, sem færar eru, t.d. verðstýringu, til að hafa áhrif á neyslu á vörum sem geta verið skaðlegar heilsu manna, ættum við, ef okkur tekst að efla það forvarnarstarf, að geta almennt dregið úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna. En að svara til hlítar spurningu um hvort einstakar aðgerðir hafi áhrif til hækkunar eða lækkunar á kostnaði við heilbrigðisþjónustuna, eins og hér var fram borin, held ég að sé afar erfitt svo viðhlítandi sé.

Mig langar einnig að geta þess hér að auðvitað eru skiptar skoðanir innan heilbrigðisstéttarinnar um hættu af bjórneyslu sé hún borin saman við aðrar tegundir áfengisneyslunnar. Það hafa aðeins verið dregin inn í umræðurnar aftur þau ummæli sem ég lét falla á dögunum og hafði eftir aðalframkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að þegar hann var hér á dögunum hefði hann lýst þeirri skoðun sinni að sér fyndist einkennilegt að það væru bannaðir drykkir með minna alkóhólinnihaldi en leyfð neysla á drykkjum með meira alkóhólinnihaldi. Þetta var aðeins það sem hann lét í ljós í umræðum og ég var ekki að færa þetta hér inn sem nein skilaboð frá þessum ágæta manni, en nefndi þetta aðeins sem þátt í umræðunni sem nú á sér stað í þjóðfélaginu og segir okkur auðvitað það að um þetta mál eru mjög skiptar skoðanir og ekki síst meðal starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar sem slíkrar, en skoðanir þess hafa oftsinnis verið dregnar hér inn í umræðuna.

Þess vegna sýnist mér að það sé — ég ítreka það - erfitt að svara til hlítar þeirri spurningu sem hv. þm. beindi til mín en legg á það áherslu sem ég tel að sé hlutverk heilbrigðisþjónustunnar í þessu sambandi og heilbrigðisyfirvalda og vænti þess að ef okkur tekst vel í okkar hlutverki sem slíku eigum við að geta dregið úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu af völdum sjúkdóma og slysa.