13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6359 í B-deild Alþingistíðinda. (4366)

462. mál, hreppstjórar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 32 frá 26. apríl 1965, um hreppstjóra. Frv. þetta er samið í tengslum við þá endurskoðun sem nú er unnið að varðandi aðgreiningu dómsvalds og umboðsvalds í héraði, en það er þó ekki í raun formlega tengt því máli heldur fyrst og fremst til komið vegna gildistöku þeirra ákvæða sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sem mæla fyrir um brottfall sýslunefnda frá næstu áramótum. Hreppstjórar voru upphaflega kjörnir sveitarstjórnarmenn, en árið 1809, skömmu eftir hið skammlífa valdarán Jörundar hundadagakonungs, gerðist það að Magnús Stephensen dómstjóri og báðir amtmenn landsins gáfu sameiginlega út erindisbréf fyrir hreppstjóra þar sem þeir voru gerðir að umboðsmönnum ríkisvaldsins og þeim reyndar fækkað í leiðinni. Var sjálfstjórn sveitarfélaganna þá í reynd afnumin um leið og þessi skipan stóð í meginatriðum til ársins 1872, en hreppstjórarnir héldust hins vegar áfram sem umboðsmenn ríkisvaldsins í hreppunum þegar sveitarfélögin endurheimtu sína sjálfstjórn.

Megintilefni þessa frv. er, eins og ég nefndi í upphafi, gildistaka nýju sveitarstjórnarlaganna að því er varðar sýslunefndir, en samkvæmt lögunum um hreppstjóra frá 1965 er sú skipan á að ef starf hreppstjóra losnar skal sýslunefnd kjósa þrjá íbúa í hlutaðeigandi hreppi hlutbundinni kosningu. Síðan skal sýslumaður skipa einn þeirra hreppstjóra. Þar sem sýslunefndirnar hverfa um næstu áramót þarf að ákveða aðra aðferð við hreppstjóravalið af þeirri ástæðu og það er aðalefni þessa frv. eins og segir í 2. gr, að sýslumaður auglýsi starfið laust til umsóknar og veiti síðan stöðu hreppstjóra úr hópi umsækjenda að fenginni umsögn sveitarstjórnar.

Þá þykir óþarfi að hreppstjóri starfi í sveifarfélagi þar sem sýslumaður hefur sjálfur skrifstofu, enda sjái þar sýslumaður og starfslið hans um þau störf sem hreppstjóri annars leysti af hendi. Það er lagt til að 1. gr. hreppstjóralaganna breytist í samræmi við þessa einföldu hugmynd.

Loks er lagt til að 5. gr. hreppstjóralaganna verði breytt á þann hátt að sýslumaður geti skipað forstöðumann skrifstofu sem hann kann að hafa í þéttbýlisbyggðarlagi utan síns aðseturs jafnframt til að vera hreppstjóri í viðkomandi sveitarfélagi án þess að auglýsa starf hreppstjórans laust til umsóknar í því tilfelli.

Vaxandi kröfur eru uppi um það að sýslumenn hafi slíkar skrifstofur eða útibú í þéttbýliskjörnum utan síns aðseturs og eru þær auðvitað vel til þess fallnar að veita almenningi betri þjónustu, m.a. með tilkomu nýrrar og fullkomnari tækni en áður hefur þekkst. Má t.d. nefna að það er auðvelt að senda veðbókarvottorð frá aðalskrifstofu sýslumanns til slíkra útibúa með telefax-tækjum sem nú ryðja sér mjög til rúms og sama má segja um margvíslegar umsóknir og leyfisvottorð.

Í tengslum við frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem væntanlega verður mælt fyrir hér í þinginu innan skamms, er ætlunin að leggja fram tillögur um verulegan tilflutning verkefna til sýslumannsembættanna og auka þar með mikilvægi þeirra. Það mun auðvitað enn ýta undir kröfur manna um að skrifstofur sýslumanna verði í fleiri þéttbýliskjörnum. Þar sem slíkt útibú er rekið þykir mér eðlilegt að sýslumanni yrði heimilt að sameina starf forstöðumannsins og hreppstjórans sem skv. hreppstjóralögunum er einfaldlega umboðsmaður sýslumannsins í sínum hreppi. Þetta yrði þó ekki gert að skyldu.

Þetta eru í stuttu máli ástæðurnar og rökin fyrir þeim tillögum um breytingar á hreppstjóralögunum sem hér eru lagðar fram og ég mæli fyrir.

Hæstv. forseti. Í 4. gr. þessa frv. er lagt til að lagabreytingin taki gildi um næstu áramót, en það er auðvitað nauðsynlegt því að þá hætta sýslunefndirnar sínum störfum.

Ég legg svo til að hv. deild vísi málinu til 2. umr. og allshn. að lokinni þessari umræðu.