13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6361 í B-deild Alþingistíðinda. (4368)

462. mál, hreppstjórar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum um hreppstjóra er sjálfsagt eðlilegt. Þeir eiga að fá að lifa áfram þó að ýmislegt annað sé breytingum undirorpið.

Þegar nýju sveitarstjórnarlögin voru sett var sú breyting gerð að sýslunefndir verða afnumdar um næstu áramót. Eins og menn muna, sem þekktu sveitarstjórnarlögin nr. 58/1961, ef ég man rétt, voru í þeim ákvæði um sýslufélög í IV. kafla, m.a. 92. gr. sem taldi upp verkefni sýslunefnda. Þau voru mjög mörg og margvísleg. Eitt af þeim var að tilnefna þrjú hreppstjóraefni í hverjum hreppi þegar það starf losnaði. Síðan átti sýslumaður að skipa einn af þessum þrem sem hreppstjóra.

Ég var einn í hópi þeirra sem töldu að það væri mjög óheppilegt og í sannleika sagt fjarri öllu lagi að leggja sýslunefndir niður. Þar með væri í raun og veru fleygt fyrir borð hinu eina lögbundna samstarfi hreppanna á héraðsgrundvelli. Þetta varð eigi að síður ofan á og ber að harma að svo fór.

Hér segir að þegar starf hreppstjóra losni eigi sýslumaður að auglýsa það laust til umsóknar. Nú er ég engan veginn viss um að það verði mikið um að umsóknir berist um þetta starf. Reynslan hefur sýnt á liðnum árum að það er ekki alltaf auðvelt að fá góða menn í þetta starf og sannleikurinn er sá og það þekkist á mörgum öðrum sviðum að bestu menn eru ekki mjög gjarnir á að sækja um störf. Það verður að finna þá með öðrum hætti.

En hins vegar kemur þetta frv. mér ekkert á óvart. Ég er miklu frekar nærri viss um að það er fjöldamargt annað sem þarf að gera áður en sýslunefndir hætta störfum. Sannleikurinn er sá að ég efast um að það sé búið að sjá það allt fyrir. Það liggur sem sagt mjög nærri að það hefði verið full ástæða til þess að flytja brtt. um að sýslunefndir héldu áfram starfi í eitt eða tvö ár enn og helst lengur.

Nú er ég ekki nákunnugur því hvernig dæmið stendur. Ég vildi því leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort það væri búið að sjá fyrir öllum þeim starfsmönnum, nefndum og ráðum sem vissulega þurfa að koma í staðinn fyrir sýslunefndirnar ef hlutverk þeirra verður rækt að fullu því að það var mjög merkilegt og margþætt. Og sannleikurinn er enn fremur sá að ef saga sýslunefnda verður einhvern tíma skráð verður það merkileg saga.