13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6361 í B-deild Alþingistíðinda. (4369)

462. mál, hreppstjórar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að svara spurningunum tveimur sem hv. 4. þm. Norðurl. e. beindi til mín. Hann spurði fyrst hvort ekki væri rétt að skilja 2. gr. svo að þeir sem nú gegna stöðum hreppstjóra haldi þeim þar til eðlilegar ástæður leiða til þess að þeir láti af starfi. Svarið er alveg skýrt já. Það er hugmyndin á bak við þessa grein að það er þegar starf hreppstjóra losnar, þ.e. þeirra sem nú gegna þeim.

Í öðru lagi benti hv. 4. þm. Norðurl. e. á að í 3. gr. vaknaði misræmi milli staða sem hefðu umboðsskrifstofu sýslumanns og hinna sem ekki hefðu slíka skrifstofu og að þeir sem ekki hefðu umboðsskrifstofu sýslumanns nytu þess umfram hina að hafa umsagnarrétt um hreppstjórann. Þetta er rétt. Við fundum ekki leið til að bæta úr þessu af ástæðum sem komu fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., en ég bendi þá á á móti að það má vafalaust halda því fram með rétti að þau sveitarfélög sem hafa slíka umboðsskrifstofu sitji við betri kost en hin. Eins og Sólon í Slunkaríki sagði þegar gesturinn kvartaði yfir því hvað rúmið væri stutt: „Það er bætt upp með dýptinni, elskan mín“. Ég held að það eigi við í þessu tilfelli að sú þjónusta sem umboðsskrifstofurnar veita hljóti að vera bæði dýpri og betri en þar sem ekki er slík umboðsskrifstofa, eða það skyldi maður a.m.k. vona.

En ég segi alveg skýrt að komi í meðferð þingnefndarinnar fram ábending um það, hvernig úr þessu mætti bæta þannig að ekki rekist á við eðlilega ráðningaraðferð hjá starfsmönnum sýslumanna, þá væri hún allrar athygli vert.

Ég vona að þetta svari spurningum hv. 4. þm. Norðurl. e. og sný mér þá að máli hv. 2. þm. Vesturl.

Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að það að vera hreppstjóri er og verður vonandi alltaf heiðurstitill sem felst í okkar þjóðfélagsskipan og það er svo sannarlega rétt að þessar grunneiningar okkar samfélags, sem eru sveitarfélögin og hrepparnir, eiga að hafa sín sérkenni og eitt af þeim er einmitt þessi umboðsmaður ríkisvaldsins í hreppunum. Ég skildi eiginlega mál hv. 2. þm. Vesturl. á þann veg að hans athugasemd væri nú einkum við þá ákvörðun sem tekin var með nýju sveitarstjórnarlögunum að leggja niður sýslunefndirnar fremur en við þetta frv. sem ég tel að sé eðlileg afleiðing af því. En að sjálfsögðu má ýmislegt að þessu finna. Ég er sannfærður um að það er rétt hjá hv. þm. að auglýsingar eru e.t.v. ekki líklegar til að laða fram alla sem heppilegastir væru og eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Vesturl. eru bestu menn því miður ekki alltaf gjarnir að sækja, eins og mig minnir að hann hafi orðað það. En auðvitað mun þá þarna reyna á frumkvæði og framtakssemi sýslumanna að leita uppi hina bestu menn og fá þá til að sækja. Ég held að þetta hljóti að gerast þarna eins og í öðrum tilfellum þar sem sótt er um stöður.

Ég treysti mér ekki til að svara þeirri spurningu sem hv. 2. þm. Vesturl. beindi til mín um hvort búið væri að sjá fyrir endann á öllum þeim verkefnum sem sýslunefndirnar hafa með höndum eða hafa verið með lögum samkvæmt eða venju. Það er nú óðum að skýrast með allt sem lögbundið er. Þetta frv. er til vitnis um eina slíka breytingu. Það er von á annarri slíkri tillögu sem varðar tilnefningarrétt sýslunefnda í stjórn sparisjóða. Það verður lagt hér fram á næstunni. Það hafa þegar verið gerðar ýmsar laga- og reglugerðarbreytingar vegna breytinganna á sveitarstjórnarlögunum sem fyrr hafa komið fram á þinginu, reyndar í hv. Ed. að nokkru leyti, en ég treysti mér ekki til að segja að þarna sé allt á enda runnið og það er vafalaust rétt að það eru margvísleg verkefni þarna sem þarf að finna stað, en þar held ég að við verðum að treysta því að tíminn og tillögugóðir menn ráði fram úr þegar þar að kemur.