13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6377 í B-deild Alþingistíðinda. (4376)

415. mál, þjóðminjalög

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég sá út undan mér að hv. 3. þm. Norðurl. e. var staddur inni í lesstofu og ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hann vegna þess að það atriði á við um alla tillögugerð og málflutning á hinu háa Alþingi og eins það frv. sem ég ætla að ræða hér og flytja framsögu fyrir, það er sá grundvallarmisskilningur að menn gangist undir einhver jarðarmen um fylgi við frv. sem þeir eru í grundvallaratriðum andstæðir, enda þótt þeir vilji reyna að hafa áhrif á gerð þeirra, lokagerð þeirra.

Hér á ég við það að mönnum þykir skjóta skökku við þegar ég, þótt ég sé í grundvallaratriðum andstæður frv. sem hér hefur verið rætt um bjórgerð, vilji samt hafa áhrif á innihald þess þegar ég sé að því vindur fram að það verði samþykkt. Má ég í þessu sambandi benda á afgreiðslu fjárlaga. Þar bera t.a.m. stjórnarandstæðingar fram tugi, jafnvel hundruð tillagna og m.a. hefur hv. 3. þm. Norðurl. e. átt þar fylking tillagna í stjórnarandstöðu. Með þeim flutningi, sem hann væntanlega gerir til þess að fá þær samþykktar, er hann ekki að skuldbinda sig til þess að fylgja afgreiðslu fjárlagafrv. að neinu leyti, að sjálfsögðu ekki. Þetta er fljótfærni og misskilningur. Það algenga er að þótt menn séu í grundvallaratriðum andvígir tillögugerð í þinginu.er ekkert andkannalegt við það þó þeir vilji hafa áhrif á hvernig hún fer úr hendi ef betur mætti fara að þeirra dómi og gera það með tillöguflutningi. Þetta vildi ég að fram kæmi vegna þess að nú kann svo til að bera að einhver verði í grundvallaratriðum andstæður frv. til þjóðminjalaga sem ég ætla að mæla hér fyrir og þá er fjarri því að það sé að neinu leyti í því fólginn tvískinnungur þótt viðkomandi vilji samt hafa áhrif á gerð þess. Þetta veit ég að allir skilja og þetta er hið algenga í störfum þingsins.

Ég mæli hér fyrir, herra forseti, frv. til þjóðminjalaga. Þetta frv. samdi nefnd sem menntamálaráð skipaði nú í nóvember sl. Auk mín áttu sæti í nefndinni hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson, 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir og 4. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson, auk starfsmanna úr Þjóðminjasafni, Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar, Bryndísar Sverrisdóttur safnkennara og Lilju Árnadóttur safnvarðar og enn fremur Þórunnar Hafstein sem er deildarstjóri í menntmrn.

Helstu nýmæli þessa frv. og laganna, ef að lögum verður, eru skipulagsbreytingar á stjórn Þjóðminjasafns Íslands. Stjórnarnefnd mótar stefnu safnsins og áætlanir og ráðinn verður safnstjóri Þjóðminjasafns sem stjórnar daglegum rekstri þess. Einnig munu starfa minjaverðir við vörslu þjóðminja á landsbyggðinni. Skilgreiningar hugtaka og hlutverka hafa verið skýrðar frá fyrri lögum nánar.

Þá er nýmæli að þriggja manna fornleifaráð verður þjóðminjaverði til ráðgjafar við skipulagningu fornleifarannsókna og veitingu leyfa til rannsókna.

Aðrar breytingar eru flestar lagfæringar og viðbætur við einstakar greinar. Mikilsverðustu breytingarnar eru að þjóðminjavörður mun einn hafa rétt til þess að rannsaka eða láta rannsaka fornleifar, að öll hús sem byggð eru fyrir 1850 og allar kirkjur sem byggðar eru fyrir 1918 skuli vera friðuð og húsafriðunarnefnd getur gripið til skyndifriðana ef þörf krefur.

Mjög mikilvæg viðbót að mínum dómi er það þar sem gert er ráð fyrir stöðu safnstjóra Þjóðminjasafns. Í grg. fyrir þjóðminjalögum frá 1969 er þess getið að starf þjóðminjavarðar sé tvíþætt. Í fyrsta lagi sé hann forstöðumaður Þjóðminjasafns og í öðru lagi beri honum að annast fornleifavörslu á landinu öllu og leiðbeina byggðasöfnunum í starfi þeirra. Þar er bent á að í nágrannalöndum okkar sumum sé greint á milli þjóðminjavörslu og þjóðminjasafns af þessum sökum. Með lögunum frá 1969 var ákveðið að hvort tveggja skyldi verða starfssvið þjóðminjavarðar, enda hafði sú skipan verið í reynd frá stofnun safnsins árið 1863.

Hér er ekki gert ráð fyrir breytingu á þessari skipan, en þó er kveðið nánar á um hinar tvær megingreinar embættisins. Önnur þeirra, stjórnun Þjóðminjasafnsins, heyrir undir safnstjóra Þjóðminjasafns, hin nýja og það er nýbreytnin, en hin, varsla þjóðminja á landsbyggðinni, er í höndum minjavarða í fjórðungunum sem starfa á vegum þjóðminjavarðar. Þetta eru hvort tveggja nýmæli. Ljóst er að stjórnun Þjóðminjasafnsins er svo viðamikið verkefni að full þörf er á þessari breytingu nú þegar.

Fram undan er endurskipulagning á föstum sýningum safnsins og húsakosti í kjölfar þess að Listasafn Íslands hefur nú verið flutt úr húsi Þjóðminjasafnsins og því er nú enn brýnni þörf en áður á markvissri stjórnun safnsins á næstu árum.

Í 3. gr. frv. er að finna nýmæli þar sem gert er ráð fyrir að Þjóðminjasafni skuli skipuð stjórnarnefnd til fjögurra ára í senn. Ekki ætti að vera þörf á að fjölyrða um kosti þess að skipa Þjóðminjasafni stjórn, en nægir að benda á að stjórnun þess yrði að líkindum styrkari og að aukin tengsl yrðu á milli safnsins og ráðuneytisins. Sú skipan í stjórnarnefndina sem hér er gert ráð fyrir mótast einnig af því að skólabörn eru tíðir gestir í safninu og er ætlað að kynna útlendum ferðamönnum menningu þjóðarinnar. Stofnun Árna Magnússonar og Þjóðskjalasafni, sem að ýmsu leyti eru sambærilegar stofnanir við Þjóðminjasafnið, er stjórnað á líkan hátt.

Stjórnarnefndinni er ætlað að móta stefnu safnsins í veigamestu málum. Að öðru leyti er stjórnarnefndinni ætlað að fylgjast með fjárhagsáætlunum safnsins og vera þjóðminjaverði til ráðgjafar. Ég bendi enn fremur á hið nýja frv. til laga um Listasafn Íslands þar sem gert er ráð fyrir sams konar stjórn þess safns.

Í 4. gr. er að finna mikilvægt nýmæli þar sem kveður á um fræðsluskyldu Þjóðminjasafnsins við skólanemendur og almenning. Með breyttum samfélagsháttum og öðrum örum breytingum á þjóðfélaginu og auknum menningaráhrifum frá öðrum þjóðum er eðlilegt að leggja Þjóðminjasafni Íslands á herðar fræðsluskyldu við skólanemendur og almenning. Safnið þarf að geta hagnýtt sér nútímakennslutækni til að ná sem víðast með fræðslu um menningarsögu þjóðarinnar.

Þá er að nefna nýmæli sem er í 10. gr. II. kafla laganna þar sem segir að „menntmrh. skipar til fjögurra ára í senn fornleifaráð sem er þjóðminjaverði til ráðgjafar um rannsóknir og meðferð fornleifa.“ Og síðan er kveðið á um hvernig skipa skuli í það ráð.

Fornleifarannsóknir Þjóðminjasafnsins hafa að verulegu leyti verið fólgnar í björgunarstarfi og svo mun líklega ætíð verða. Starfsfólk safnsins hefur verið kallað til þegar fornleifar hafa komið í ljós við mannvirkjagerð og í skyndingu hefur þurft að framkvæma fornleifarannsóknir. Skipulagðar rannsóknir hafa þó ávallt verið stundaðar jafnframt, en vegna mannfæðar og fjárskorts hefur ekki verið hægt að vinna jafnmarkvisst að könnun á fornleifum og æskilegt væri. Fornleifaráði er ætlað að vera þjóðminjaverði til ráðgjafar í öllu er varðar fornleifar og rannsóknir þeirra og veitingu leyfa til slíkra rannsókna. Ráðið gerir tillögur að langtímaáætlunum um fornleifarannsóknir á vegum safnsins og skipun rannsóknaverkefna í forgangsröð.

Þá eru næstu greinar og kaflar nokkuð með sama svipmóti og áður hefur verið og ekki ástæða til að ég geri sérstaka grein fyrir því. Breyting er á tilnefningu á fulltrúa í stjórn húsafriðunarsjóðsins. Arkitektafélag Íslands á aðild að Bandalagi ísl. listamanna og bandalagið hefur átt tilnefningarrétt, en reyndin hefur orðið sú að fulltrúi bandalagsins í húsafriðunarsjóðnum hefur ætíð verið arkitekt. Því er talið eðlilegt að breyta að því leyti að nú verði það Arkitektafélag Íslands sem tilnefnir í húsafriðunarsjóðsstjórnina.

Í 31. gr. er að finna nýmæli þar sem segir að „öll hús sem byggð eru fyrir 1850 skulu vera friðuð svo og allar kirkjur sem reistar eru fyrir 1918.“ Sambærileg ákvæði eru í lögum nágrannaþjóða okkar þótt ártölin séu önnur. Tilgangurinn er sá að tryggja varðveislu elstu húsa landsins. Eigendum húsa sem orðin eru eitt hundrað ára eða eldri er skylt að tilkynna húsafriðunarnefnd ríkisins ef þeir hyggjast breyta húsi sínu eða rífa.

Þá vil ég aðeins geta um nýmæli sem er að finna í 33. gr. frv. þar sem segir að húsafriðunarnefnd geti gripið til skyndifriðunar sem aðeins gildir í tvær vikur ef hún telur hættu á að hús, sem hefur menningarsögulegt gildi en ekki er friðað, verði rifið eða gildi þess rýrt, eins og þar segir.

Þá er enn að finna breytingar, sem ég geri ráð fyrir að menn veiti athygli, og það eru breytingar á framlögum ríkissjóðs og sveitarfélaga til húsafriðunarsjóðs sem gerð er hér till. um að aukist úr 20 kr. í 75. Framlög í húsafriðunarsjóðinn hafa verið óbreytt frá stofnun hans 1975. Skv. lögunum skyldi upphæðin taka breytingum með byggingarvísitölu. Það hefur ekki orðið og ekki við það staðið og þess vegna hefur ráðstöfunarfé sjóðsins farið hríðlækkandi, en umsóknum hins vegar fjölgað til mikilvægra verkefna.

Þá vil ég geta þess í sambandi við V. kafla frv., sem fjallar um byggðasöfn, að það er talið brýnt að byggðasöfn landsins falli undir þjóðminjalögin og að þau verði áfram fjármögnuð að hluta til á fjárlögum ríkisins. Á þetta vil ég leggja alveg sérstaka áherslu því komið hefur fram og verið hér til umræðu breyting á þessu, en ég fyrir mitt leyti hlýt að vara eindregið við henni. Það væri spor aftur á bak. Þessa menningarstarfsemi verðum við að stunda úr sameiginlegum sjóði okkar allra.

Tengsl byggðasafnanna við Þjóðminjasafnið þarf að efla frekar en hitt og Þjóðminjasafnið að gegna forustuhlutverki gagnvart byggðasöfnunum. Þessi tengsl má ekki rjúfa. Það er misskilningur ef menn halda að hinum dreifðu byggðarlögum með mjög misjafna aðstöðu til þess, aðstöðu, afstöðu og áhuga á þessum málum verði treystandi til, þótt þarna séu á skýrar undantekningar, að gegna þessum skyldum, sem ég kalla, svo sem vera ber. Það er misskilningur að mínum dómi.

Ég vil geta þess að menntmrh. vakti athygli mína á og leggur áherslu á að samræmis verði gætt um ráðningu forstöðumanns Þjóðminjasafns við það sem tillögur eru uppi um í nýju frv. til laga um Listasafn Íslands, þ.e. að forstöðumaður verði ráðinn til fimm ára og síðan verði heimild eftir meðmælum safnstjórnar að ráða hann áfram til enn annarra fimm ára en þó eigi lengur. Þessi nýmæli voru ekki tekin upp í því lagafrv. sem hér er til umræðu, en ég hef fallist á sem einn af nefndarmönnum í hv. menntmn. deildarinnar, sem fær þetta frv. til meðferðar, að taka þá tillögugerð upp þar.

Ég held að þetta sé til bóta. Ég held að æviráðningar í þessi störf séu varhugaverðar, en á það vil ég leggja alveg sérstaka áherslu og sporin hræða vissulega í þeim efnum, að vitaskuld verður þá að sjá vel fyrir þeim sem eytt hafa kannski lunganum úr ævi sinni til þessara starfa og hverfa frá þeim. Um það verða að vera skýr ákvæði. Ég hef þreifað á slæmum dæmum þar sem þessu er þann veg fyrir komið og ekki hefur verið ráð fyrir því gert að menn fái stöðu sambærilega að kjörum til, sem verður að vera að mínum dómi, eftir að þeir hafa náð aldursmörkum að þessu leyti sem getur þó verið meðan þeir eru á besta starfsaldri.

Mér er ljóst að þessu frv. hefði þurft að fylgja, og þó er það ekki skylda við nefndina, áætlanir um kostnaðarauka vegna þessara nýju laga. Ég hef og nefndin sem samdi þetta frv. gluggað aðeins í þau efni, en ekki með þeim hætti að hægt sé að flytja sem neina áætlun. Þarna er um að tefla hinn nýja safnstjóra, þarna er um að tefla minjaverði í landshlutunum, þarna er um að tefla fimm manna stjórnarnefnd og hér er um að tefla húsafriðunarsjóðinn sem fær aukið fjármagn og aukna umsýslu. Hér mun ég leggja áherslu á að fyrir hv. menntmn. muni þessar upplýsingar liggja innan tíðar, en ég dreg ekki dul á að samþykkt þessa frv. hlýtur með þeim ákvæðum sem þar er að finna að hafa í för með sér verulega, ég kalla verulega kostnaðaraukningu, verulega ef maður miðar við það sem hið háa Alþingi lætur renna til starfsemi Þjóðminjasafnsins á fjárlögum t.d. í ár. Það er upphæð til skammar og ekki við að miða. En að þessu leyti til varðandi þessa þætti er augljóst að þetta frv., og ég dreg enga dul á það, mun hafa verulegan kostnaðarauka í för með sér, enda getum við ekki haldið áfram að kasta svona höndunum til þessara hluta sem við höfum gert, t.a.m. það að það skuli varla hægt að kalla Þjóðminjasafnshúsið sjálft fokhelt eða vel það eins og nú standa sakir. Lágmarksviðgerð eftir áætlun sem við gerðum á hausti liðnu er 100 millj. kr. og endurreisn þess svo sæmilegt sé að munum búið og nýjum sýningarsölum var áætluð upp á 271 millj. kr. Þetta vil ég að komi fram.

En, herra forseti, ég legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og menntmn.