13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6389 í B-deild Alþingistíðinda. (4380)

415. mál, þjóðminjalög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það skal vera örstutt. Ég þakka hv. 4. þm. Austurl. Sverri Hermannssyni fyrir orð hans hér, hvernig hann tók undir þá gagnrýni sem hér var fram borin af fullri vinsemd. Það kom fram í hans máli að hann teldi það vera óráð að ætla að fara að afgreiða þetta frv. eða taka einhverja bindandi afstöðu til þess á þessu þingi og það tel ég vera mjög skynsamlega ályktun af hans hálfu.

Ég vil hvetja til þess að annaðhvort á vegum menntmn. eða menntmrn. verði hugsað til þess að halda öfluga ráðstefnu um þessi mál sem opin væri áhugamönnum um þessi efni og þeim sem fást við þessi mál víða um landið, t.d. í samvinnu við Félag íslenskra safnamanna þar sem er að finna þá sem eru mest tengdir þessum málum, til að fara yfir málið áður en til þings kemur að hausti og þeir aðilar sem fjölluðu um þetta áfram milli þinga að þeir gætu fengið vegarnesti úr slíkri umræðu.

Mér er síst í hug að það dragist að koma fótum undir góð þjóðminjalög. Það er það sem þarf að takast fyrr en seinna. Málið er mjög brýnt í rauninni vegna þess, eins og hv. 4. þm. Austurl. benti hér á, að mikið af þeirri áhugasveit sem hefur haldið þessum málum meira og minna uppi úti um landið er tekið að reskjast og jafnvel tekin að lýjast eftir mikið álag og mikla vinnu að því að bjarga menningarverðmætum án nokkurrar teljandi þóknunar oft og tíðum. Og þó að við eigum mikið af ungu og uppvaxandi fólki er nútíðin öðruvísi en þeir sem lögðu mikið af mörkum í sjálfboðaliðsstarfi. Menn hafa hvorki tíma eða ráð á því að ganga fram með þeim hætti sem fyrri kynslóðir gerðu og ætluðu sér ekki að hafa mikið fyrir. Þess vegna er afar þýðingarmikið að það sé hægt að koma upp viðunandi kerfi og tryggja ákveðna lágmarksráðstöfun fjármuna miklu meira en gerst hefur til þessa til að vinna að þessum verkum og taka við þeim arfi sem þó liggur fyrir. Það vona ég að megi takast með góðri samvinnu allra á hv. Alþingi.