13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6390 í B-deild Alþingistíðinda. (4383)

377. mál, uppboðsmarkaður á erlendum gjaldeyri

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það hefur ekki mikla þýðingu að ræða mál orðið hér á hv. Alþingi. Stjórnarliðar eru yfirleitt hættir að hlusta. Þeir heyra heldur ekki til kjósendanna. Það er eins og þeir viti ekki hvað er að gerast og það er kannski ekkert undarlegt þó þeir vilji ekki hlýða á mál manna út af efnahagsmálum þjóðarinnar og það að landsbyggðinni er að blæða út.

Því er haldið fram að þetta sé fyrst og fremst mál landsbyggðarinnar, en ég held að hv. þm. ættu að skoða málið nánar. Hver á að fæða borgríkið ef landsbyggðin fer í eyði? Ég held að fólk ætti að gera sér alveg fulla grein fyrir því.

Það heyrast neyðaróp atvinnurekenda og einstaklinganna dag eftir dag, en hvar eru hæstv. ráðherrar? Þeir sjást ekki í þingsölunum. Þeir eru kannski erlendis til þess að reyna að berja þar í brestina. Hvað hugsa þessir hæstv. ráðherrar og þeir sem enn þá styðja þessa duglausu ríkisstjórn sem veit ekki hvað er að gerast í þessu landi?

Ég hlustaði því miður ekki á alla ræðu hv. 1. flm. um frv. sem hér er til umræðu, en ég heyrði nóg til þess að hann kom fram með spegilmyndina hvaðanæva af landsbyggðinni, hvernig er um að litast. Ráðherrarnir voru hér ekki við. Þeim kemur ekki þetta mál við að virðist.

Ég taldi að það voru níu símtöl sem ég fékk í gær og voru neyðaróp frá landsbyggðinni. En hæstv. iðnrh. heyrir þetta náttúrlega ekki jafnvel þó hann sé hér inni. Þannig er ástatt orðið með þessa hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Nú vil ég geta þess að ég er ekki viss um það út af fyrir sig að sú leið sem flm. að þessu frv. leggja til sé sú eina rétta eða sú besta, en hitt gengur ekki eins og þetta er. Það er alveg ljóst.

Hafa hæstv. iðnrh. og aðrir ráðherrar t.d. hlustað og horft á sjónvarpið úr Rangárþingi hér á dögunum, eða farið um Hveragerði og haft opin augun þegar þeir fara þar í gegn og hæstv. iðnrh. séð húsin þar í tugatali, iðnaðarhúsnæði, sem eru tóm? Auðvitað kemur honum það ekkert við, hæstv. ráðherra. Það bitnar ekkert á honum. En hvernig ætlar hv. 1. þm. Reykv. að sjá fyrir fæði handa borgarbúum ef öll byggðin brestur eins og þeir eru á fullri leið með að framkvæma með vaxtaokri og vitlausu gengi?

Ég geri ráð fyrir því þó að það sé mikill skjálfti í sumum úr stjórnarliðinu að stjórnin lafi þangað til allt stoppar. Þá hljóta þeir að hrökkva upp af vondum draum. En það er seint. En eitt mál hefur hér haft mestan tíma, mestan forgang og er ekki enn þá ljóst hvenær umræðum lýkur. Það er hið svokallaða bjórmál. Hugurinn virðist vera hjá hæstv. ráðherrum og fleiri stjórnarliðum fyrst og fremst við þetta mál en ekki það mál sem varðar mest hag þjóðarinnar í heild, líka borgarinnar ekki síður en landsbyggðarinnar.

Nei, það verður held ég erfitt lífið hjá sumum þegar kemur fram á vorið ef ekki rumskast stjórnarliðið og menn, þeir sem sjá hvert horfir, eins og 1. flm. þessa frv. gerir greinilega miðað við þá ræðu sem hann flutti hér áðan, ef þeir styðja áfram þessa ríkisstjórn, þá stefnu sem hún hefur fylgt og fylgir. Ég hef ekki trú á því, miðað við þá umræðu sem nú er í þjóðfélaginu, ekki síst úti á landsbyggðinni, að það þýði fyrir þá að sýna sig við næstu kosningar.

Sá sem hér stendur sagði það fyrir átta árum að ef landsbyggðinni yrði ekki sýndur meiri sómi en þá var gert mundi verða uppstokkun í öllum þessum stjórnmálaflokkum. Er stundin ekki runnin upp? A.m.k. heyra það sumir þó það sé þykkt á eyrum annarra.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson las upp ummæli framkvæmdastjóra frystihúsanna og ýmissa annarra í atvinnurekstri. Það var verst að hæstv. iðnrh. mun ekki hafa hlustað á það. Það hefði verið gott til upprifjunar, þ.e. ef menn hlusta nokkuð eða lesa. Ég efast um það. Ég sá a.m.k. hæstv. forsrh. vera að lesa Grím Thomsen á meðan ræðumaður flutti hér ræðu sína og óskaði eftir því að hann sæti hér. Þannig er nú ástandið hjá forustu þeirrar ríkisstjórnar sem situr á Íslandi árið 1988.

Ég sagði áðan og ég ætla að endurtaka það og láta þetta duga: Ég er með vissar efasemdir um að þessi leið sem hv. þm., flm. þessa frv., benda á. En ég er ekki í vafa um það að verði ekki farin önnur leið atvinnulífinu til bjargar verða einhverjir, þá verða margir sem hverfa frá þessu landi á næstu mánuðum og árum. Í dag var verið að telja það upp hvernig ástandið væri í einu byggðarlagi í mínu kjördæmi. Það var farið bæ frá bæ og sagt: Ja, þessi fór til Reykjavíkur, þessi fór til Keflavíkur, þetta unga fólk er komið til útlanda, og þannig var haldið áfram að telja á mjög mörgum bæjum. Og þeir sem voru á Raufarhöfn á atvinnumálaráðstefnu Norður-Þingeyinga heyrðu oddvitann í Öxarfjarðarhreppi segja frá því að á einu ári hefðu flutt burtu úr því litla sveitarfélagi 18 manns og ýmsir mundu verða að fara vegna þess að það var ekkert lífsviðurværi fyrir þá í heimabyggð.

Svo tala hæstv. ráðherrar um að það þurfi að breyta hugsunarhættinum. Hugsunarhætti hvers? Fólksins á landsbyggðinni? Eða er það hugsunarháttur þeirra sem stjórna sem þyrfti að breyta? Sá ráðherra sem sagði þessa setningu meinti hið fyrra en áttar sig ekki á því að það er viðhorf ríkisstjórnarinnar sem þarf að breytast. Það er skilningur hennar sem þarf að vaxa. Þetta gengur ekki lengur.

Ég sé engan tilgang í því að ræða þessi mál meira fyrir tómum eða hér um bil tómum sal, herra forseti. Virðingin fyrir málefnum landsbyggðarinnar, vandamálum þjóðarinnar, er þessi.