14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6401 í B-deild Alþingistíðinda. (4398)

312. mál, flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Til þess að svara 1. og 2. fsp. verður að gera sér grein fyrir nauðsynlegri brautarlengd vegna stærstu flugvéla í eigu Íslendinga eins og reyndar kom fram í ræðu fyrirspyrjanda. Eftir sameiginlega umfjöllun fulltrúa flugmálastjórnar, Flugleiða og Félags ísl. atvinnuflugmanna um lágmarksbrautarlengd fyrir DC-B-flugvélar sem Flugleiðir nota á Norður-Atlantshafsfluginu er niðurstaðan sú að 2400 metra löng flugbraut dugar. Þar af leiðandi þarf að lengja Akureyrarflugvöll um 450 metra til suðurs ásamt breikkun á malbiki úr 30 metrum í 45 metra. Enn fremur þarf að auka afkastagetu vegna snjóhreinsunar og afísingar umfram það sem gert er ráð fyrir í flugmálaáætlun um helming. Þá þarf jafnframt að endurbæta flugleiðsögukerfi vegna fráflugs til suðurs. Lausleg kostnaðaráætlun við að gera Akureyrarflugvöll þannig úr garði að allar vélategundir í eigu íslenskra flugfélaga gætu notað hann með nokkru öryggi er 100 millj. kr.

Sem svar við 2. fsp.: Hina nýja flugbraut, sem nú er í byggingu á Egilsstöðum, þarf að lengja um 400 metra til suðurs. Þar af leiðandi þarf að færa þjóðveginn suðvestur af núverandi vegarstæði frá vegamótum að Lagarfljótsbrú sem nemur um 2,2 km. Enn fremur þarf að auka afköst snjóhreinsunar og afísingar um helming jafnframt því sem stórauka þarf þar slökkviliðsbúnað. Þá þarf enn fremur að kaupa 15 hektara úr landi Egilsstaða vegna flugbrautar og 3–5 hektara vegna færslu á þjóðveginum. Lausleg kostnaðaráætlun við að gera hinn nýja flugvöll á Egilsstöðum þannig úr garði að allar vélategundir íslenskra flugfélaga gætu notað hann þannig að fyllstu öryggiskröfum yrði mætt er 127 millj. kr. Þess skal þó sérstaklega getið að kostnað vegna landakaupa er erfitt að áætla.