14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6403 í B-deild Alþingistíðinda. (4401)

312. mál, flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur hér gefið gagnlegar upplýsingar sem svar við fsp. frá hv. þm. Guðmundi Ágústssyni um hvað kosti að gera flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum þannig úr garði að fyllstu öryggiskröfum verði mætt um flug fyrir allar íslenskar flugvélar. Í umræðunni hafa menn tengt þetta þeim áætlunum sem hafa verið í deiglunni varðandi varaflugvöll fyrir millilandaflug til og frá landinu, en ég hlýt að vekja athygli á því að þessi atriði eru ekki einungis þau sem þarf að hafa í huga varðandi varaflugvöll heldur einnig veðurfarsskilyrði og landshætti sem eru mjög mismunandi eftir hinum einstöku stöðum á landinu þar sem flugvellir eru og flugsamgöngur eru stundaðar.