14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6403 í B-deild Alþingistíðinda. (4402)

312. mál, flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er hreyft hinu ágætasta máli og er skaði að ekki skuli vera aðeins rýmri tími til að ræða um svo stórt mál, en það gefst sjálfsagt tími til þess síðar. En ég vil aðeins koma að þeirri athugasemd, þegar fjallað er um þetta mál, að menn glöggvi sig á því að lengsti flugvöllur utan Reykjavíkur og Keflavíkur er ekki á Akureyri eða Egilsstöðum. Lengsta flugbrautin er á Sauðárkróki.

Athuganir hafa farið fram og niðurstöður liggja nú fyrir frá tveimur nefndum, sem skipaðar hafa verið, annarri undir formennsku Jóhannesar R. Snorrasonar, hins ágæta flugstjóra, og hinni undir formennsku Birgis Ísl. Gunnarssonar, hæstv. núv. ráðherra. Niðurstöðum nál. var skilað 9. okt. 1980. Þar kemur fram að athuganir hafi verið gerðar á þessu með samanburði á flugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum, Húsavík og Sauðárkróki.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að Sauðárkrókur er vænlegasta valið og mætir völlurinn þeim kröfum sem gerðar eru til slíks flugvallar. Það er sem sagt meginmálið. Ef við erum að tala um öryggisvöll fyrir áhafnir flugvéla erum við að tala um Sauðárkróksflugvöll. Í grg. með þeirri þáltill. sem hér er vitnað til og var flutt af Steingrími J. Sigfússyni og fleirum er á tveimur stöðum vitnað til þess, og því miður er ekki tími til að lesa það upp hér, að veðurfarslega og flugskilyrðislega er öruggast að reisa þennan flugvöll á Sauðárkróki. Undir það skrifa Sigurður Aðalsteinsson, flugstjóri hjá Flugfélagi Norðurlands, og einnig Hilmar Baldursson sem er nú held ég varaformaður flugráðs. Nú er nefnd að störfum og var sett í gang sú þriðja til þess að fara ofan í þetta mál. (Forseti: Hv. þm. hefur farið óhæfilega fram yfir sinn tíma og ber að ljúka máli sínu.) Já, hann er að ljúka því. Grunur minn er sá að sú nefnd hafi verið sett á laggirnar til þess eins að koma í veg fyrir að þessi flugvöllur yrði byggður á Sauðárkróki þar sem þó öryggið er mest og best og ég efast um að þeir menn sem skrifa undir þær tillögur hafi bak til að bera það.