14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6413 í B-deild Alþingistíðinda. (4421)

397. mál, gölluð rafskaut hjá Ísal

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil leitast við að svara þeirri fsp. sem hv. þm. hefur beint til mín. Fyrsti liður fsp. hljóðar svo: „Rýrði afhending á gölluðum rafskautum til Ísals á árinu 1987 afkomu fyrirtækisins?" Skv. upplýsingum Ísals reyndust rafskaut ófullnægjandi sumarið 1987 og urðu erfiðleikar í rekstri bræðslukera þess vegna. Rekstrarstaðan breyttist smátt og smátt til hins betra og um mánaðamótin september október 1987 var fjöldi kera í framleiðslu orðinn eðlilegur, þ.e. smám saman og endanlega í nóvember 1987.

Heildarframleiðslan á s.l. ári varð 84 579 tonn af áli, en það er mesta framleiðsla á einu ári í sögu Íslenska álfélagsins. Seld voru 86 608 tonn af áli að verðmæti 5,2 milljarðar kr. Útflutningur nam 89 166 tonnum. Sala og útflutningur umfram framleiðslu stafaði af birgðalækkun og fyrirframsölu.

Eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. liggja eðli málsins vegna ekki tölur fyrir vegna ársins 1987 og þess vegna ekki endanlegar tölur um kostnað vegna ófullnægjandi rafskauta. En auðvitað má ætla að afkoma Ísals hafi orðið verri en ella að því marki sem tjónið fæst ekki bætt hjá framleiðendum rafskautanna. Þá er einnig rétt að geta þess að á síðustu vikum hefur á ný orðið vart við erfiðleika vegna rafskauta.

Í öðru lagi var spurt: „Höfðu þau viðskipti neikvæð áhrif á skatttekjur íslenska ríkisins?" Eins og flestir vita hefur endurskoðun ársreikninga Ísals af hálfu ríkisstjórnarinnar ekki farið fram og eru því varla forsendur til að hafa uppi skoðanir á því máli og meta það nú. En með tilliti til þess hins vegar að verulega mikið vantar á það að tekjur Ísals árið 1987 nái því marki að viðbótartekjuskattur komi til verður að telja ólíklegt að gallar í rafskautum hafi leitt til lækkunar á tekjuskatti.

Að lokum er spurt um það hverjir hafi selt Ísal þessi rafskaut. Það er Alusuisse sem selur Ísal rafskautin en þau eru framleidd af Aluchemi í Rotterdam. Það skal tekið fram til viðbótar að aðrir viðskiptavinir hafa einnig fengið þessi gölluðu rafskaut. Þau hafa haft mismunandi áhrif á rekstrarstöðu þeirra fyrirtækja, ekki síst vegna þess að það er mismunandi tækni sem notuð er í þessum álverum víða um heim. Þá held ég að enn fremur sé ástæða til að geta þess þegar vitnað er til fréttatilkynninga frá forstjóra Álfélagsins að þar er auðvitað verið að tala um félagsreikninga en ekki um skattauppgjör. Á því er verulegur munur sem hv. þm. og fyrrv. iðnrh. veit því að þá er ekki tekið tillit til afskrifta í sama mæli eins og gert er við skattauppgjör og það gerbreytir dæminu.

Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að allur beinn kostnaður vegna gallaðra vörusendinga, þar á meðal hvað snertir þessi gölluðu rafskaut, verður að sjálfsögðu bættur. Ég held að Alusuisse, þ.e. Ísal, hafi þegar fengið 400 þús. svissneska franka sem eru um 11,2 millj. í bætur. Hins vegar hafa ekki fengist bætur vegna afleidds kostnaðar eða afleidds tjóns. En mér er kunnugt um að uppi hafa verið áform um að breyta þeim samningum, ekki síst vegna þess að í Evrópu hefur að undanförnu staðið til í tengslum við innri markaðinn, sem komið verður á 1992, að taka almennt upp það sem kallað er „product liability“ en það nær þá til þess að slíkur afleiddur tjónkostnaður verður gerður upp.

Vonast ég til, herra forseti, að þessi svör séu fullnægjandi fyrir hv. fyrirspyrjanda.