14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6415 í B-deild Alþingistíðinda. (4422)

397. mál, gölluð rafskaut hjá Ísal

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Það kom sitthvað athyglisvert þar fram. Það er ekki aðeins að þessar upplýsingar séu upplýsandi fyrir mig. Ég vil ekki segja að þær séu fullnægjandi, ég tek ekki afstöðu til þess. En ég vek athygli á því að fyrir hæstv. ráðherra er fyllsta ástæða til að fylgjast áfram með þessu máli gagnvart þessu fyrirtæki sem er greinilega engan veginn lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Það kemur fram, sem ekki kemur mér út af fyrir sig á óvart, að sá sem selur Ísal þessa gölluðu vöru er enginn annar en móðirin Alusuisse, þ.e. eigandi fyrirtækisins. Það selur dótturfyrirtækinu þessa gölluðu vöru og neitar að verða við því að bæta afleiddan kostnað sem forstjóri fyrirtækisins fullyrðir að nemi 200 millj. kr. Ég held að þessi staðreynd hljóti að verða íslenskum stjórnvöldum tilefni til að taka á þessu máli og það af mikilli festu því að þetta varðar ekki aðeins skattauppgjör 1987. Það er enn verið að afgreiða þessa gölluðu vöru skv. upplýsingum hæstv. iðnrh. Þetta varðar því afkomuna á árinu 1988 og skattalegt uppgjör eftir það. Það ætti kannski að vera ár sem ætti að skila einhverju meira en lágmarksgjaldi með því háa afurðaverði sem er á áli sem virðist stefna í núna á þessu ári og með tilliti til þess að útflutningur og eftirspurn hefur verið í hámarki og salan aldrei meiri en í fyrra og horfur á því að afkoman sé góð það sem af er þessu ári a.m.k. Hér eru því athyglisverðir þættir á ferðinni.

Ég bendi á að áætlaðar skattgreiðslur af þessu fyrirtæki nema, eins og fram hefur komið, 1 millj. 782 þús. að mati hæstv. iðnrh. Hann hefur þegar áætlað það hér í svari til þingsins að það verði lágmarksskatturinn þrátt fyrir metútflutning. Þetta lágmarksgjald, 20 dollarar á tonn, sem greitt er sem skattur til íslenska ríkisins hefur verið óbreytt frá því árið 1975. Þá var samið um 20 dollara. Þessir 20 dollarar eru nú orðnir 10 dollarar að raungildi. Um þetta var endursamið af ríkisstjórn Íslands 1985, um þetta hneyksli í skattgreiðslum frá þessu fyrirtæki, áframhaldandi stöðuga rýrnun á þessu og lakari skattstiga á ákveðnu bili.