14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6416 í B-deild Alþingistíðinda. (4424)

392. mál, úttekt vegna nýrrar álbræðslu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vænti þess að meðan þetta mál er rætt hér verði hæstv. iðnrh. viðstaddur þar sem þetta mál snertir hans verksvið. Hæstv. ráðherra var hér rétt áðan og ég vænti þess að hann geti verið hér við. Ég hef þegar séð hann hér í hliðarherbergi svo að ég mun hefja mál mitt.

Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 738 um úttekt vegna nýrrar álbræðslu. Með mér flytja mál þetta aðrir hv. þm. Alþb. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að láta gera þjóðhagslega úttekt á hagkvæmni þess að reisa nýja álbræðslu í Straumsvík og selja til hennar raforku sem gæti numið um 2500 gwst. á ári.

Í úttekt þessari verði m.a. lagt mat á eftirfarandi: Væntanlega arðsemi álbræðslunnar og þjóðhagslega hagkvæmni hennar.

Áhrif af byggingu bræðslunnar og tilheyrandi orkuvera á íslenskt efnahagslíf, þar með talið þenslu og skuldastöðu þjóðarbúsins.

Áhrifin á byggðaþróun í landinu.

Forsendur varðandi raforkusölu með tilliti til orkuverðs frá nýjum virkjunum.

Áhrif þess að útlendingar eigi álverið.

Til að sjá um úttektina kýs Alþingi nefnd með fulltrúum frá öllum þingflokkum. Iðnrn. og starfshópar og nefndir á vegum þess láti nefndinni í té allar fyrirliggjandi upplýsingar um undirbúning álbræðslunnar. Landsvirkjun og Orkustofnun aðstoði nefndina og veiti henni m.a. upplýsingar um áformaðar virkjanaframkvæmdir vegna nýrrar álbræðslu og um kostnaðarverð raforku frá nýjum virkjunum.

Nefndinni er heimilt að leita til Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila til aðstoðar við gerð úttektarinnar og kalla til nauðsynlega sérfræðiaðstoð til að vinna að henni. Miða skal við að nefndin skili skýrslu til Alþingis fyrir árslok 1988. Allur kostnaður vegna þessarar úttektar greiðist úr ríkissjóði.“

Þetta er tillögutextinn og ég mun nú rökstyðja þennan tillöguflutning af hálfu okkar flm.

Menn kunna að spyrja: Er nú ástæða til að setja af stað úttekt af þessu tagi? Hér er á ferðinni stærsta fyrirtæki sem hugmyndir hafa komið fram um að reisa á Íslandi. Hér er um að ræða virkjanaframkvæmdir í þeim mæli að aldrei hefur slíkt verið til umtals á svo stuttum tíma hérlendis. Hér er um að ræða fyrirætlanir af stjórnvalda hálfu sem eru í fullum gangi. Hér er um að ræða skv. upplýsingum hæstv. iðnrh. áform um að gera samning um undir búningsfélag vegna þessarar álbræðslu þegar á þessu ári og boðað er að endanlegrar ákvörðunar geti verið að vænta á árinu 1989 vegna þessa máls.

Það hefur þegar á þessu þingi verið hreyft við þessum málum með fsp. frá hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur sem spurði um það í byrjun þings og fékk svör í lok októbermánaðar frá hæstv. iðnrh. þar sem fram koma ýmsar upplýsingar eins og málið lá þá fyrir af stjórnvalda hálfu. Ég vísa til þeirra svara sem hæstv. ráðherra þá reiddi fram, enda eru þau fskj. með þessari tillögu.

Hér er ekkert einkamál hæstv. iðnrh. á ferðinni. Hér er um sameiginlegt áhugamál stjórnarflokkanna að ræða, enda hafa þeir skipað trúnaðarmenn sína í starfshóp um stækkun álvers, þá menn sem helst hafa sýslað við þessi efni af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar og svo núv. ríkisstjórnar sem fengið hefur tilstyrk og viðbót Alþfl. til verka. Í þessum starfshópi eru ekki minni menn en hv. dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, formaður, dr. Gunnar G. Schram prófessor, fyrrv. alþm., hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson og dr. Geir A. Gunnlaugsson framkvæmdastjóri. Ég eftirlæt mönnum að færa þá til viðkomandi flokka, ég held að mönnum sé alveg ljóst fyrir hvaða flokk viðkomandi eru trúnaðarmenn. Formaðurinn er seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar. Það eitt út af fyrir sig er nokkuð sérstakt mál að stjórnarformaður þess fyrirtækis, sem á að selja það sem á Íslandi kæmi inn í þetta erlenda fyrirtæki, er um leið formaður þessarar samninganefndar. En slík tilhögun hefur sést áður á vegum þeirra flokka sem hér eiga hlut að máli.

Ég minni á að skv. frumhagkvæmniathugun sem skilað var til iðnrh. í byrjun þessa árs er gert ráð fyrir að þessi 180 þús. tonna álbræðsla sem þar er til umræðu taki til starfa í áföngum á árunum 1992–1994. Fjárfestingarkostnaðurinn af slíkri bræðslu og viðeigandi virkjunum sem eiga að fóðra hana með orku er áætlaður um 1000 millj. bandaríkjadala, 40 eða 45 milljarðar íslenskra króna. Hvaða upphæð er það? Fjárlögin fyrir þetta ár eru 63 milljarðar og allar fjárveitingar opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, á þessu ári eru 12,5 milljarðar kr.

Til þess að þessir óskadraumar núv. ríkisstjórnar í atvinnuuppbyggingu nái fram að ganga á að verja 810 milljörðum ísl. kr. á ári frá 1990 að telja. Ekki hafa komið fram neinar athugasemdir eða fyrirvarar frá samstarfsaðilum Sjálfstfl. í ríkisstjórn varðandi þessi áform þó að það sé búið að liggja hér fyrir þinginu frá því í haust hvað standi til.

Það er ljóst að með slíkum áformum um fjárfestingar á þessu árabili verður heldur þröngt fyrir dyrum um aðrar framkvæmdir í íslensku þjóðfélagi, í þágu íslenskra atvinnuvega, í þágu samfélagslegra framkvæmda í landinu. Þær eiga að víkja fyrir þessum óskadraumi. Og hvað ætli menn segi um líkleg áhrif af slíkum framkvæmdum á byggðaþróun í landinu? Það er ekki ein lítil flugstöð sem hér er verið að byggja. Það eru margar flugstöðvar sem þarna eru á ferðinni. Ég hygg að það sé fyllsta ástæða fyrir þá sem hafa áhyggjur af byggðaþróun í landinu að líta á það sem hér er á ferðinni.

Það er ekki bara iðjuverið sem á að rísa hérna við Straumsvík í Kapelluhrauni, vinstra megin við þjóðveginn þegar ekið er suður eftir, eins og fram kemur á uppdrætti. Virkjanirnar eiga einnig að vera í þessum landshluta því að hæstv. iðnrh. hefur þegar kveðið upp úr um það að orkuna skuli fá af virkjunum á Suðurlandi. Það er væntanlega til að hressa eitthvað upp á atvinnuástandið í kjördæmi hæstv. forsrh., og það sem á kunni að vanta frá jarðhitavirkjunum, jarðvarmavirkjunum á Reykjanesi. Þessu er öllu saman safnað á einn landshluta.

Hvað segja hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar utan af landi um þessi áform? Telja þeir ekki þörf á því að það fari fram þjóðhagsleg úttekt á þessu máli sem auðvitað hefði farið fram í hvaða siðmenntuðu landi sem væri annars staðar en á Íslandi? Ég treysti því að það sé stuðningur á Alþingi við þessa tillögu.

Eitt er nú það að það eru innstu koppar úr búri stjórnarflokkanna sem einir eru látnir véla um þetta mál. Stjórnarandstaðan fær hvergi nærri að koma að skoðun mála. Hér er hins vegar gert ráð fyrir nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að tryggja að stjórnarandstaðan eigi eðlilegan hlut að athugun á slíku stórmáli sem hugmyndin er að koma með inn á Alþingi eftir tvö ár eða svo, 1–2 ár skv. yfirlýsingum hæstv. iðnrh., ef færi eftir því eins og áður hefur gerst í hliðstæðum málum, eins og þegar álverið í Straumsvík var reist, og var þar þó hugað að því, að ég hygg, á undirbúningsstigi að stjórnarandstaðan fengi eitthvert ráðrúm til að skoða mál. En við getum litið á endurskoðun samninga við Alusuisse 1984–1985. Þá var komið hér á síðustu stundu með fullbúinn pakka inn á Alþingi frá þröngri samninganefnd og mönnum sagt: Samþykkið þið þetta eða synjið. Og þegar um var að ræða raforkusamninginn fylgdu dagsektir með: Þá var málið þannig fram borið að það var í formi þess að það væru dagsektir ef Alþingi væri ekki búið að afgreiða málið á 3–4 vikum.

En eru þetta ekki bara draumórar? Er þetta nokkuð annað en bara að veita viðkomandi mönnum, sem eru að fást við þessa samningagerð, einhverja aukaþóknun? Getur verið að stjórnvöld séu í alvöru að hugsa um hlutina eftir þessum brautum? Ég verð að segja: Því miður. Ég hef innt ýmsa eftir því sem eru tengdir þessu máli: Telja þeir að hér sé alvara á ferðum? Telja þeir að það séu líkur á að þetta dæmi gangi upp? Þeir segja: Nú erum við alveg óvenju bjartsýnir. Eftirspurnin eftir áli er sérlega mikil, verðlagið er hátt á áli og við teljum alveg koma til greina, alveg fyllstu líkur á að þessir samningsaðilar, álhringirnir þrír, fjórir eða fimm suður í Evrópu kunni að bíta á og það kunni að vera hægt að ganga frá þessum samningum núna á næstu missirum.

Og hvað er svo sagt um undirstöðuþáttinn sem snýr að Íslandi inn í þetta púkk, um raforkuverðið? Sem fyrr er það ríkisleyndarmál. Það liggur nefnilega ekkert fyrir um það, engin stefnumörkun svo vitað sé af stjórnvalda hálfu á hvaða verði á að selja þessar 2500 gwst. inn í þetta púkk, fjórar Blönduvirkjanir. Ekkert nema það að stjórnarformaður Landsvirkjunar og formaður í starfshóp um álver hefur sagt það 12. mars sl. í DV að það verði aldrei lakara en hjá Ísal. Það er vitnað orðrétt til þess í grg., menn geta fundið það þar. Það verði aldrei lakara en hjá Ísal.

Og hvernig er það hjá Ísal? Síðustu árin hefur raforkuverðið hjá Ísal verið á bilinu 12,5–13,5 mill á kwst. að meðaltali. En fyrir fimm árum upplýsti Landsvirkjun í skýrslu að raforkuverð til stóriðju frá nýjum virkjunum þyrfti að nema 18–22 millum á kwst. til að standa undir framleiðslukostnaði. Hér er stjórnarformaður Lansvirkjunar og formaður þessarar viðræðunefndar að veifa hugmyndum um raforkuverð sem sé á bilinu 12,5–13,5 mill. Það er aldeilis að það á að efna í framlög af Íslendinga hálfu til þess að þessi óskadraumur megi rætast. Það eru ekki litlir klafarnir sem á að binda íslenska orkukaupendur, fyrirtæki og almenning á með þessum áformum. Væri nú ekki skynsamlegt að Alþingi í sameiningu, allir þingflokkar, færu ofan í þetta stóra mál, þessi stóru áform og gerðu sér grein fyrir því fyrir fram, áður en samningamenn hæstv. iðnrh. halda lengra út á brautina við að pakka inn í þær umbúðir sem hæstv. iðnrh. hefur látið þá hafa, hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir íslenskan þjóðarbúskap, íslenskar byggðir ef þessi áform gengju upp? Ég tel það ekki aðeins nauðsynlegt, ég tel það sjálfsagt og þetta hljóti að vera spurningin um það: Vill Alþingi Íslendinga vera gerandi í einhverju sem máli skiptir í þessu landi miðað við þau áform sem hér eru uppi eða ætlar það bara að vera afgreiðslustofnun fyrir stjórnmálamenn sem vinna að máli sem þessu svo örþröngt sem raun ber vitni um og hafa ekki einu sinni fyrir því að ræða með opinskáum og eðlilegum hætti um þann meginþátt sem Íslandi er ætlað að leggja inn í þetta púkk fyrir utan vinnuafl, þ.e. raforkusöluna?

Hér er ekki langur tími til stefnu, herra forseti. Það verður að vinda bráðan bug að því að Alþingi og þingflokkar hefji skilmerkileg störf til að fara ofan í hversu langt er hér komið, hvert er innihaldið í þeim viðræðum sem nú fara fram við þrjá, fjóra eða fimm álhringi suður í Evrópu og það verði dregið fram með eðlilegum hætti til að kanna efnislegar forsendur þessa máls. Síðan taka menn auðvitað ákvarðanir hver eftir sínu pólitísku mati, en ég trúi ekki öðru en hv. alþm. hafi áhuga á að geta byggt það mat og endanlega ákvörðun, ef á reynir, á betri vitneskju en legið hefur fyrir þegar unnið hefur verið að því að troða stóriðjufyrirtækjum upp á Íslendinga, erlendum fyrirtækjum sem við höfum þurft að borga með í margvíslegri mynd á undanförnum árum.