14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6432 í B-deild Alþingistíðinda. (4432)

392. mál, úttekt vegna nýrrar álbræðslu

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það var ekki mín ætlan að taka aftur til máls í þessari umræðu, enda sá ég ekki nokkra ástæðu til þess satt að segja, en hv. 1. flm. hefur enn á ný spurt um orkuverðið. Ég hélt að það hefði komið fram í minni ræðu fyrr að það liggur ekki fyrir að nefna neinar tölur. Hv. þm. hefur nefnt 12,5–13 mill. Það eru ekki tölur sem hafa verið á sveimi í þessu máli. Hann nefndi síðan í annarri ræðu sinni ummæli Jóhanns Más, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, sem voru 14–19 mill. Ég gæti miklu fremur trúað því að það væri nær sanni.

Aðalatriði málsins er að það koma svo margar leiðir til greina. Orkuverðið er til að mynda háð því hvernig aðrir samningar verða, um skatta, um framleiðslugjald, um það til að mynda hver á að fjármagna virkjanirnar, sem auðvitað kemur til greina að sé gert með ýmsum hætti, og hver eigi að taka áhættu af vaxtabreytingum o.s.frv. o.s.frv. Að ímynda sér það af manni með þá reynslu sem hv. þm. hefur að við teflum fram með eitthvert ákveðið orkuverð (HG: Framleiðslukostnaðarverð.) er alveg út í bláinn. Og líka það að nefna framleiðslukostnaðarverð nýrra virkjana er líka út í bláinn að mínu viti.

Það er út í bláinn. Ég get endurtekið það fyrir hv. þm. Það er vísasti vegurinn, ef menn ætla að fara að reikna sig þannig fram, að þá ætla menn ekki að ná samningum um þetta mál.

Í öðru lagi tel ég rétt að það komi hér fram að þegar talað er um hagkvæma virkjunarkosti og að verið sé að gefa orkuna auðhringum er þetta auðvitað alveg út í bláinn. Þetta mál var tekið út og hefur náttúrlega oft verið tekið út. Það liggur fyrir að árin 1986–1987 hafi Ísal greitt upp þann hluta Búrfellsmannvirkjanna sem tengjast rekstri Ísals, en það er gert ráð fyrir því að 8–9 árum seinna muni Ísal hafa greitt upp öll Búrfellsmannvirki, þ.e. Búrfellsvirkjun, háspennulínur, gasaflstöð í Straumsvík og miðlunarmannvirki á Þjórsársvæðinu, allt saman. En þeir nýta ekki hins vegar nema hluta af orkunni, það er sjálfsagt um 70% af því sem kemur frá Búrfellsvirkjun.

Þetta verða menn að hafa í huga. Ennfremur vil ég minna á hitt að Landsvirkjun áætli að vera búin að greiða niður allar sínar skuldir og Blönduvirkjun líka um aldamótin. Þetta er rangt. Það hefur margoft verið leiðrétt hér. Ég hef a.m.k. tvívegis leiðrétt þetta hér í umræðum á Alþingi. Í þeirra áætlunum gera þeir fyrir lækkun orkuverðs um 3% á ári og að greiða 1/20 á hverju ári, þ.e. af skuldinni eins og hún er á hverju ári. Það mun þýða að um aldamótin skuldi þeir væntanlega um 70% af þeim skuldum sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon var að nefna í sinni ræðu. Þetta verða menn að hafa í huga og er sjálfsagt að gera þetta þannig af því að líftími virkjananna er langur. Þetta leiðrétti ég hér með í þriðja sinn.

Ég ætla ekki að ræða um þau atriði sem fóru á milli þeirra hv. þm. og hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar um forræði og virk yfirráð. Það er gömul umræða. Það þekkjum við, ég og hv. þm., frá því þegar við lögðum saman í eitt púkk og notuðum orðalag á borð við þetta. Það má vel vera að við höfum skilið það sitt hvorum skilningnum, en það gekk ágætlega að koma saman einni þál. þar sem þetta orðalag var nefnt, kannski vegna þess að ég legg meira upp úr því að yfirráðin séu á grundvelli laga og samninga, en hv. þm. leggur ævinlega upp úr sjálfri eignaraðildinni.

Það sem ég vil segja að lokum er þetta: Með framkvæmdinni skapast atvinna á virkjunarsvæðum um land allt. Orkustofnun er með sínar rannsóknir í gangi um aðra virkjunarkosti en nefndir hafa verið. Það eru afleidd áhrif af álverinu, m.a. í kjördæmi hv. þm. Ég rifja upp að á Seyðisfirði eru smíðuð ker fyrir álverið og veita mönnum þar atvinnu. Ég minni á að orkuframleiðslan er íslensk grein og Suðurland er svæði þar sem því miður hefur gætt atvinnuleysis.

Ég minni á það út af samkeppni við erlenda aðila að það er ekki lengur um að ræða samkeppni um staði innan lands. Samkeppnin er um það að við teflum fram hagstæðasta kostinum á móti þeim sem við erum að keppa við sem eru aðilar til að mynda í Suður-Ameríku, Arabaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálandi svo ég nefni dæmi um lönd.

Það hefur ekkert verið rætt hérna, en kemur fram í grg. um Evrópubandalagið, að það skiptir okkur máli að við tengjumst því með þessum hætti í viðskiptum. Það er heppilegt fyrir okkur að eiga viðskipti við þetta bandalag þegar innri markaðurinn opnast 1992. Við verðum auðvitað að fylgjast vel með því. Þetta er vettvangur þar sem er mjög þægilegt og gott einmitt að efna til viðskipta við fyrirtækin í Evrópu því við njótum tollfríðinda og það höfum við fram yfir þjóðir sem eru utan Evrópusvæðisins, þ.e. EFTA/EB-svæðisins. Það eigum við að nýta okkur í atvinnuskyni til að bæta lífskjörin.

Það sem hins vegar skiptir öllu máli, og það er hægt að afgreiða í einni eða tveimur setningum, er þetta: Flm. till. tilheyra stjórnmálaflokki sem er á móti því að erlendir aðilar eigi meiri hluta að þessu álveri. Sú stefna hefur hins vegar verið mörkuð af þremur stærstu stjórnmálaflokkunum sem nú hafa myndað ríkisstjórn og fara með völdin og bera ábyrgð á þeim völdum með sínum þingmeirihluta. Á þetta vil ég benda vegna þess að flm. eru fyrir fram á móti því sem þarna er verið að gera. Þeir eru fyrir fram á móti því ásamt Kvennalistanum sem hefur jafnframt lýst yfir að hann sé algjörlega á móti stóriðju að því að manni skilst almennt og alveg sama hvernig hún lítur út, í bak eða fyrir. Það er þeirra „feminismi“ að vera á móti stóriðju og skiptir víst engu máli hvort lífskjörin batna eða ekki af þeim sökum.

Ég held, herra forseti, að það sé ástæðulaust að orðlengja frekar um þetta. Ég býst við því að þessari till. hafi verið varpað hérna inn á þingið til að fá þessar umræður. Þær hafa orðið. Málið gengur að sjálfsögðu til nefndar og sofnar þar.