14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6440 í B-deild Alþingistíðinda. (4437)

412. mál, könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólanum

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Ég vil sem aðrir, sem hér hafa komið í pontu, lýsa yfir stuðningi við þáltill. sem hér er til umræðu, og get tekið undir það með hv. flm. hennar, 13. þm. Reykv., að ég hef orðið var við viðbrögð vegna þessarar tillögu hjá fólki sem telur að hún sé af hinu góða.

Í hnotskurn er þetta svo að hér hefur verið skipt einni námsgrein í tvær og út úr því hefur komið bastarður sem engum hefur orðið að gagni. Það er sjálfsagt að piltar og stúlkur læri að fara með nál og hamar jöfnum höndum, en það hlýtur að vera jafneðlilegt að þau geti á einhvern hátt ráðið því á hvort þau leggi meiri áherslu og alla vega að gera þá kröfu að þau komi út úr skóla þannig að þau hafi lært annað hvort.

Ég hafði líka gaman af að hlusta á síðasta ræðumann sem var að vitna í hversu nauðsynlegt það væri fyrir karlpeninginn að hafa lært að grípa til prjóna og get einmitt stutt það mjög, sem hún sagði, að fyrir marga er þetta gott einmitt til að stytta stundir í ellinni. Ég þekki það frá afa mínum, sem varð blindur á miðjum aldri og hafði lært að prjóna sem barn, hvað það var gífurlega mikið mál fyrir hann að geta sest niður og prjónað. Ég ætla því síst í þessu máli að vera að draga neitt úr því að piltar læri að fara með nál og prjóna nema síður sé og ekki heldur að stúlkur geti lært að negla nagla þokkalega í vegg og hengja þar upp mynd. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að frá því sé horfið að þessu verði dreift svo að úr því verði einn bastarður.

Ég veit ekki betur en nemendur í grunnskólum hafi nú leyfi til að velja t.d. á milli hvort þeir taki dönsku eða þá annað Norðurlandamál, en ég held að engum hafi dottið til hugar að blanda saman dönsku og sænsku á móti einni námsgrein. Það hefði komið eitthvað svipað út úr því og hér hefur orðið varðandi handavinnukennsluna.

Ég ítreka stuðning minn við tillöguna og vona að hún nái fram að ganga á þessu þingi.