14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6442 í B-deild Alþingistíðinda. (4440)

426. mál, áhættulánasjóður og tæknigarðar

Flm. (Óli Þ. Guðbjartsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt öllum öðrum hv. þm. Borgarafl., um sérstakan áhættulánasjóð og tæknigarða á þskj. 776. Mér finnst að mörgu leyti vel við hæfi að þetta mál kemur hér á dagskrá eftir þá merku till. sem var hér næst á undan.

Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót sérstakri sjálfseignarstofnun, Áhættulánasjóði Íslands, til aðstoðar við að undirbúa og hefja framleiðslu samkvæmt arðvænlegum hugmyndum einstaklinga. Á vegum sjóðsins skulu settir á stofn og reknir almennir tæknigarðar þar sem veitt er aðstoð við smíði á frumeintökum og þróun þeirra.“

Í grg. sem till. fylgir er þess getið að á síðustu árum hafi orðið ör framvinda í öllum nágrannalöndum okkar hvað snertir nýsköpun á framleiðsluvörum sem bæta samkeppnisaðstöðu á öllum sviðum iðnaðar- og útflutningsframleiðslu.

Með því að beina athyglinni að nýjum hugmyndum einstaklinga hafa komið fram alls konar tillögur sem margar hafa reynst fela í sér arðvænlegar nýjungar. Gott dæmi þess er árangursríkt samstarf félaga hugvitsmanna í Danmörku og í Svíþjóð við hið opinbera um áhættufjármagn og tæknigarða.

Hér nægir að benda á „Opfinderkontoret“ í Danmörku, en Danir telja að sú stofnun hafi á örfáum árum gefið danska ríkinu að jafnvirði 74 kr. fyrir hverja eina sem það lagði fram við stofnun þessarar ráðgjafarþjónustu og tæknigarðs.

„Opfinderkontoret“ er í fyrsta lagi rannsóknastofnun til að leggja mat á nýjar hugmyndir og í öðru lagi alhliða tæknigarður þar sem álitlegar hugmyndir eru teknar til frumsmíði.

Þar sem fjármagnsmarkaður hér á landi er með allt öðrum hætti en tíðkast erlendis er talið óhjákvæmilegt að íslensk stjórnvöld annist stofnun og rekstur þessa áhættulánasjóðs fyrstu árin. Auk stjórnar sjóðsins skal tilnefnd sérstök matsnefnd til að fjalla um innlagðar hugmyndir og ákveða framkvæmdir með hliðsjón af nýnæmisprófun og einkaleyfisrannsókn.

Sjóðurinn skal ekki krefjast fasteignaveðs sem tryggingar fyrir veitta fjármögnun, en þess í stað er trygging fyrir endurgreiðslum reist á raunsæju mati stjórnar sjóðsins og matsnefndar á verðmæti hugmyndanna.

Eftir að framkvæmdir hafa verið ákveðnar greiðir sjóðurinn höfundi laun á meðan hann fylgir verkefninu úr hlaði, og þegar arður fer að berast af framleiðslunni skal sjóðnum greiddur til baka útlagður kostnaður að viðbættri hæfilegri þóknun. Eftir það er framleiðslurétturinn séreign höfundarins ásamt einkaleyfum.

Til frekara öryggis skal sjóðurinn tryggja einkarétt á þeim hugmyndum sem hann fjármagnar, með umsóknum um alþjóðleg einkaleyfi og tryggingar. Skal hann hafa skilyrt eignarhald á þeim réttindum þar til kostnaður og þóknun eru að fullu greidd. Áhættan af framleiðslunni skal vera alfarið í höndum sjóðsins og skal hann einn bera tjónið ef hún mistekst.

Þótt hér starfi Iðntæknistofnun og áætlað sé að setja á stofn tvo tæknigarða á vegum Háskólans eru Iðntæknistofnun og aðrar rannsóknastofnanir lögum samkvæmt knúnar til þess að innheimta nær fullt gjald fyrir veitta aðstoð. Tæknigarðar Háskólans munu verða mjög sérhæfðir þannig að hér skortir eftir sem áður almenna tæknigarða til þjónustu á sem flestum sviðum atvinnulífsins.

Það er augljóst að einstaklingar geta vart staðið undir þeim mikla kostnaði sem útseld rannsóknastörf og aðstoð kosta hjá opinberum stofnunum. Það er staðreynd að margar hugmyndir, sem hefðu gefið þjóðarbúinu drjúgar tekjur, komast aldrei í framkvæmd, bæði vegna úreltra einkaleyfislaga og ekki síður vegna þess að fyrirgreiðsla hefur verið ófullnægjandi.

Iðnfyrirtæki hafa tiltölulega greiðan aðgang að lánsfjármagni til framleiðslu og vöruþróunar, enda skortir þau síður en einstaklinga veð fyrir hefðbundnum lánum. Auk þess hafa þau oft aðstöðu til þess að vinna að frumhugmyndum svo að þeirra vegna er síður þörf á almennum tæknigörðum.

En vegna þessa er sérstakur áhættulánasjóður og almennir tæknigarðar fyrst og fremst fyrir einstaklinga sem búa yfir góðum hugmyndum en hafa ekki aðgang að fjármagni eða aðstöðu til að koma þeim í framkvæmd.

Hæstv. forseti. Þetta er meginatriðið sem fram kemur í grg. fyrir þessari þáltill. og ég vil að þessu loknu mælast til þess að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til 2. umr. og atvmn.