14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6450 í B-deild Alþingistíðinda. (4444)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um og hér hefur verið gerð grein fyrir því alvarlega ástandi sem ríkir í atvinnumálum Sunnlendinga, einkum austan Þjórsár, eins og fram kemur í tillgr. og get ég tekið heils hugar undir anda tillögu þessarar. Það verður að stemma stigu við þeirri óheillaþróun sem þarna er á ferðinni. En ég vil aðeins benda á, þó ég vilji alls ekki gera lítið úr þeim vanda sem við er að etja á Suðurlandi, að ég tel að á þessari stundu og eins og málum er komið á landsbyggðinni allri sé eðlilegra að taka á vandanum, sem nú er við að etja, með tilliti til alls landsins, því vissulega eru vandamálin stór og alvarleg hvert sem er litið.

Hv. síðasti ræðumaður minntist hér á skjót úrræði, að þeirra væri þörf, og ég vil einnig taka undir það. Það sem veldur okkur vafalaust mestum áhyggjum þessa mánuðina er aðgerðarleysi stjórnvalda einmitt gagnvart málefnum landsbyggðarinnar því að líf okkar byggist auðvitað að hluta til á lífinu þar. Ég tel mjög mikilvægt og vil ítreka það, og það er ástæða þess að ég sá ástæðu til að taka hér til máls, að við höfum lítið upp úr því að gera samanburð milli svæða og sýna fram á hvar ástandið er verst. Það verður að taka á málinu í heild sinni. Það er mjög mikilvægt að í störfum okkar gætum við þess að hafa alltaf þá heildarsýn sem nauðsynleg er og okkur ber að hafa í öllum okkar störfum.

Það var bent á ágætan leiðarvísi sem komið hefði frá byggðanefnd þingflokkanna og spurningin er: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera við leiðarvísinn og hvenær ætlar hún að gera það sem þarf að gera? Það er sú spurning sem hlýtur að brenna fyrst og fremst á öllum núna.