14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6450 í B-deild Alþingistíðinda. (4445)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Það fer víst ekki á milli mála að ég er elstur að árum, en aðrir hafa verið lengur hér í þinginu og eru að því leyti til kannski reynslunni ríkari.

Hv. þm. Guðni Ágústsson komst þannig að orði að hæstv. viðskrh. mundi vera búinn að átta sig á því ástandi sem væri á fjármagnsmörkuðum hér. Ef hann væri búinn að átta sig á því hefði hann ekki þurft að skipa nefnd. Það er málið. Þá væri þetta ekki svona áfram. En það eru nú fleiri sem hafa komið þar nálægt sem ég efast um að þýði fyrir að reyna að þvo hendur sínar af því frekar en af bjórnum.

Hv. þm. Guðni Ágústsson minntist á og las upp þessa þrjá eða tvo liði í byggðaúttektinni sem byggðanefnd skilaði frá sér. En hvenær var grundvöllurinn að þessu lagður? Það var á þinginu 1982–1983. Það var þá sem þessi setning var sett inn í greinargerð í sambandi við stjórnskipunarlögin sem formenn allra flokka sem þá voru hér á þingi fluttu. Er búið að gera eitthvað í þessum málum? Er hægt að vænta þess að það verði eitthvað gert? Nei, ekki á meðan þessi ríkisstjórn situr. Þess er ekki að vænta. Og fólk úti á landi er farið að átta sig á þessu. Þessi byggðahreyfing sem nú er um allt land er ekki að ástæðulausu. Menn hafa ekki trú á þessum mönnum lengur, þessari ríkisstjórn. Stjórnarliðið er yfirleitt annars staðar en í þingsölunum, a.m.k. ráðherrarnir. Það er eins og þeir séu yfirleitt í felum.

Ég verð að segja að ég hefði kannski viljað hafa þessa tillögu á annan hátt og hefði verið ástæða til þess að þetta næði til landsins alls og ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni. En þá er athyglisvert að sá stjórnmálaflokkur sem á mest fylgi á þessu svæði verður þó til þess að flytja þessa tillögu. Og hver er kveikjan að því? Kveikjan að því er aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Það er kveikjan. Það stendur hér svart á hvítu loforð frá formönnum þessara flokka, hvað þeir ætla að gera, Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. (HBl: Orð eru til alls fyrst.) Þau eru til lítils ef athafnir ekki fylgja orðunum, Halldór Blöndal. En það er það sem ekki er.

Það liggja fyrir erindi frá Suðurlandi í Byggðastofnun þó ég ræði það ekki hér. En það þarf fjármuni til að verða við öllum þeim beiðnum, öllum þeim neyðarópum sem berast utan af landsbyggðinni. Og það þarf líka mat á því, það er rétt, hvað á að sitja fyrir, hvað getur orðið helst að gagni. Ég skal ekki segja hvort Byggðastofnun hefur mannskap til að vera nógu snögg til að meta það því að það er ekki nóg að leggja til fjármagn, það verður að nýta fjármagnið. Það verður alltaf takmarkað. En það verður heldur ekki gert án þess. Og það er líka dýrt spaug að hafa fólkið í landinu atvinnulaust eða að yfirgefa byggðirnar og þurfa að byggja yfir það hér. Þá verða, eins og ég sagði hér í gærkvöld, menn að átta sig á að þetta er ekki vandamál byggðanna einna. Hver fæðir borgríkið ef byggðirnar leggjast í eyði? Það gæti líka orðið vandamál. En ég sé að hv. þm. Borgarafl. átta sig á þessu þó sumir aðrir geri það ekki eða hafi bara ekki dug til þess að beita sér fyrir málunum og láta ekki leiða sig eins og sauðfé að hausti til slátrunar.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt öllu lengra. Þó ég hefði viljað að þessi tillaga væri öðruvísi er þetta eðlilegt því að 1. flm. hennar er þingmaður Sunnlendinga og þekkir sitt svæði langbest. Ég skil það. En ég hefði talið að það hefði verið mjög heppilegt að Borgarafl. hefði farið til allra þingmanna utan af landi og kannað hverjir mundu þora að skrifa undir svona tillögu og fylgja henni eftir. — Ég segi þora. Ég efast ekki um að þingmenn landsbyggðarinnar vilji breyta til, en þeir óttast þessar kempur sem eru í ráðherrastólunum sem er ofvaxið mínum skilningi. Ég held að það þurfi ekkert að óttast. En þeir mega fara að óttast eigin verk.