14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6454 í B-deild Alþingistíðinda. (4448)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég er hræddur um að síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Suðurl., blandi svolítið saman málum. Lánskjaravísitalan, sem hann gerir að umræðuefni, líklega til að dreifa huganum frá þeirri þáltill. sem samþingsmaður úr héraði, þó ekki

sé hann flokksbróðir, flytur, lánskjaravísitalan virkar alveg jafnt á alla í landinu. Það virkar ekki þannig í heimakjördæmi hv. þm. að það kjördæmi eitt líði fyrir lánskjaravísitöluna. Það líða allir fyrir hana. Við höfum verið samþingsmenn og eftir að lánskjaravísitalan kom á, og sérstaklega það tímabil sem ég var fjmrh., gerði ég hvað eftir annað tilraun til þess að losna við lánskjaravísitöluna en það tókst ekki. Nú er hv. þm. stjórnarliði þannig að hann á ekki langt að sækja samstarf um að afnema lánskjaravísitöluna. Ég fagnaði því þegar hann boðaði sitt frv. um lánskjaravísitöluna, en hvernig var það svo þegar það kom fram? Það sem snerti vextina voru fimm eða sex fyrstu greinarnar. Þær heimildir hafa ríkisstjórn og Seðlabanki saman og það þurfti ekkert frv. Og hvernig var svo lánskjaraþátturinn? Hann var um að fella niður lánskjaravísitölu af nýjum lánum en ekki af þeim lánum sem eru að drepa fólk á þann hátt sem hann sjálfur gat um. Þetta er tvískinnungsháttur af stjórnarþingmanni að koma fram með þennan málflutning um allt annað mál, mál sem er flutt til þess að bjarga hans heimahéraði, eftir því sem bjargað verður, frá fólksflótta, atvinnuleysi og eignatjóni einstaklinga í einhverju blómlegasta héraði landsins þar sem einhverjar mestu tekjulindir fyrir utan sjávarútveginn sjálfan eru til staðar, bæði á sviði landbúnaðar og orkuframleiðslu. Ég vil því biðja hv. þm. að taka þátt í, á þann hátt sem till. segir til um, að leysa vandamál kjördæmisins og á þann hátt sem hv. 1. flm. till. leggur til, annað liggur ekki fyrir til umræðu á þessari stundu, og á þann hátt sem hv. þm. Alþb. úr kjördæmi skrifar undir líka.

Ég hef lúmskan grun um, án þess að ég viti, að það hafi verið leitað til fleiri þm. kjördæmisins þrátt fyrir það sem kom fram í málflutningi hv. 6. þm. Norðurl. e. en þeir hafi ekki viljað skrifa undir þessa till. þótt þeir væru henni sammála. Ég vil hins vegar ekki segja að það bresti kjark til þess að tala málefnalega um málið hér á Alþingi og sýna þar með stuðning sinn við málið sem slíkt.