14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6455 í B-deild Alþingistíðinda. (4449)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Flm. (Óli Þ. Guðbjartsson):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim hv. alþm. sem hafa kvatt sér hljóðs og rætt þetta mál sem þáltill. fjallar um. Það fer ekkert á milli mála að mönnum hefur nokkuð hitnað í hamsi og það er eðlilegt. Hér er í rauninni um að ræða, þó að þáltill. sem slík fjalli einungis um eitt hérað, kjarnann í pólitískum umsvifum dagsins í dag.

Mér varð ósjálfrátt hugsað til þess undir umræðunni að árið 1973 bar að válegan atburð á Suðurlandi sem var gosið í Heimaey, 23. janúar, ef ég man rétt. Ekki síðar en 7. febr. það sama ár hafði þingið afgreitt löggjöf til þess að bregðast við í því efni. Þar var tekið á málum af þeirri festu og þeirri einurð sem þurfti og það myndaðist auðvitað þjóðarsamstaða um málið. Nokkrum árum áður hafði hins vegar borið að höndum vanda, sem ég minntist á í frumræðu minni fyrir þessari þáltill. fyrr í dag, árið 1967, og ég hlýt að minnast á það einkum og sér í lagi vegna þess að það voru tveir hv. þm. í þessari umræðu sem að því að mér fannst, og það kom mér nokkuð á óvart, gerðu lítið úr þeirri leið, sem hér er lögð til, að þingið kysi níu manna nefnd til að sinna þessu verkefni. Og báðir þessir hv. þm. eru þm. þessa kjördæmis.

Ég hlýt að minna á það að þegar vandann bar að höndum 1967–1969 var nákvæmlega á sama hátt brugðið á það sama ráð. Skipuð var nefnd til þess að vinna að því að snúa málum til betri vegar, ekki bara á Suðurlandi, heldur í öllum kjördæmum landsins og það voru níu manna nefndir í þeim öllum. Þrír menn voru frá launþegasamtökum, þrír frá atvinnurekendum, tveir frá þáverandi ríkisstjórn og einn var frá Efnahagsstofnun sem þá starfaði og var undanfari Framkvæmdastofnunar.

Þessum nefndum öllum tókst á tveimur árum, undir að sjálfsögðu ötulli forustu þáv. ríkisstjórnar að vinna málin á þann veg að til framfara og betri tíðar horfði 1969. Í dag gera menn lítið úr því að fara slíka leið. Í dag er það þannig að þetta sama kjördæmi á mestan styrk, eða ætti að eiga, í hæstv. ríkisstjórn. Tveir hæstv. ráðherrar eru jafnframt þm. þessa kjördæmis. Síðan gerist það hér í umræðum um þessa litlu þáltill. að tveir þm. þessa sama kjördæmis vilja ekki fara þessa leið.

Hvaða kost á almennur þm. annan en að opna málið í þingsölum? Hvaða kost á hann annan en að biðja um styrk þingsins til þess að fá starfshóp til að sinna þessu mikla verkefni? Auðvitað er ég hjartanlega sammála því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Vesturl. Danfríði Skarphéðinsdóttur og raunar öðrum, hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég er alveg sammála því að auðvitað þarf að taka á þessu máli fyrir allt landið en vandinn sem á okkur brennur austan fjalls er brýnn og hann er svo brýnn að það kom ekki annað til greina af minni hálfu en að opna málið hér, fara þá einu leið sem ég á færa. Og ég finn það vel í þeim umræðum sem hafa orðið á þessum fundi að málið á hljómgrunn. Það á hljómgrunn um allt land vegna þess að þetta brennur á öllum. En auðvitað verður að ætlast til þess í lýðræðisríki að réttkjörin ríkisstjórn veiti forustu. Rétt kjörin ríkisstjórn þarf líka að styðjast við þingmeirihluta. En þá má þingmeirihlutinn ekki vera með þeim eindæmum að þora ekki að fylgja eftir málum af einurð út af einhverjum sérstökum nærsýnum sjónarmiðum gagnvart einstökum ráðherrum. Þannig mega menn ekki vinna. Það horfir ekki til heilla.

Það eina sem ég bið um í þessu efni er það, eins og ég sagði í lok frumræðu minnar, að þetta mál fái afgreiðslu í atvmn. Sþ., komi sem fyrst aftur inn til Sþ. til umfjöllunar, og verði það, verði hún ekki svæfð í atvmn., óttast ég ekki framhaldið. Ég er sannfærður um það, eins og ég stend hér, að mikill þingmeirihluti er í sameinuðu Alþingi Íslendinga til þess einmitt að taka á þann veg á málum sem þessir, því miður, tveir samþingsmenn mínir vildu ekki leggja lið, vinna með fulltrúum sveitarstjórnanna, vinna með fulltrúum atvinnurekenda í héraði, vinna með fulltrúum bænda, vinna með fulltrúum launþegasamtaka, að því eina marki, vinna með fulltrúum frá Byggðastofnun, að snúa þróuninni til betri vegar, auka trú manna að nýju á möguleikum þessa héraðs sem formaður í mínum flokki lýsti áðan. Ég efast ekki um að, eigi till. afturkvæmt frá atvmn., þá verði hún samþykkt hér og ég hlakka til þess.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.