14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6459 í B-deild Alþingistíðinda. (4451)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður vildi svo vera láta að þessi skýrsla væri frá 1986. Þetta fyrirheit sem hann las og ég las aftur var sett fram á þinginu 1982–1983. Sá sem hér stendur hefur spurt á hverju einasta ári: Hvað ætlar ríkisstjórn eða forsrh., nú hæstv. utanrrh., að gera til að standa við þessi fyrirheit? Það hefur aldrei brugðist að ég hafi spurt um það. Í grg. sem ég hef lagt fram með frv. nú er að finna þetta sama. Síðan kemur skýrslan út 1986. Ætlar hv. þm. að halda því fram að það hafi ekki verið hægt að standa við fyrirheit vegna þess að það hafi vantað skýrslu um fyrirheitið frá þessari nefnd? Nú eru menn farnir að seilast langt til að hlaupa í felur, verð ég að segja.

Í sambandi við ríkisstjórnina sem sat 1973, það var ekki sama ríkisstjórn og sú sem situr núna. Hver var forsrh. fyrir þeirri stjórn? Hann hét Ólafur Jóhannesson. Hann er ekki í ríkisstjórn núna og það er kannski málið. Það var eldgos í Vestmannaeyjum. En hvernig er það nú í Rangárþingi, í Norður-Þingeyjarsýslu, sums staðar á Austurlandi, Vestfjörðum, Vesturlandi? Menn eru að fara frá sínum eignum. Það blasti við og sumir töpuðu sínum eignum í Vestmannaeyjum. Nú eru menn líka að tapa sínum eignum. En það var önnur ríkisstjórn þá, það er málið. Á að bíða eftir því að þessi ríkisstjórn geri eitthvað? Það flytja allir. Sumir eru líka farnir til útlanda. Aðrir eru að hugleiða að fara til útlanda, meira að segja frá húsum sínum. Ég vildi að þetta færi ekkert á milli mála í þessari umræðu.

Það hafa t.d. komið til mín neyðaróp frá tveimur mönnum á Austurlandi seinustu tvo daga. Ég veit ekki hvort þeir tala við sína þm., ég spurði þá ekki að því.

Það er hægt að benda á skýrslur. Fyrir mörgum árum var gerð skýrsla um það að jafna flutningskostnað á Íslandi. Ætli flestir þm. sem hér eru séu ekki búnir að gleyma þeirri skýrslu, það er svo langt síðan. A.m.k. var aldrei gert annað en að gera skýrslu. Það er hægt að drepa málum á dreif með tillögum, með nefndum, með skýrsluhaldi. En það er ekki hægt fyrir þm. að bíða eftir því að gert verði eitthvað sem er ákveðið og er búið að lofa ef ekki bólar á neinu. Það gerir það ekki. Þess vegna vil ég endursegja það sem ég sagði áðan, það eru rétt vinnubrögð að taka upp svona mál hér á hv. Alþingi, það þarf enginn að álasa neinum fyrir það, (Gripið fram í: Ekki gert.) það þarf enginn að álasa manninum fyrir það og að benda á fyrirheit sem eru orðin 5, 6 ára gömul. Menn svara manni jafnvel með skætingi ef maður spyr um hvað þeir ætli að gera, eins og hefur verið gert. Þá er ekkert undarlegt þótt bæði þm. og landsbyggðin missi þolinmæðina.