14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6460 í B-deild Alþingistíðinda. (4452)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég sagði í mínu máli að flm. vildi skipa nefnd eins og till. segir raunar fyrir um, án þess að ég væri að gera sérstaklega lítið úr því. Ég benti einnig á að stjórnvöld biðja um skýrslur eða möppur í þessu máli. Ég vildi með orðum mínum hafa lagt áherslu á aðgerðir strax.

Hv. þm. Albert Guðmundsson, hinn ágæti sessunautur minn, virðist ekki hafa heyrt mitt mál. Ég sagði að þjóðin öll þyrfti að losna við þann bölvald sem lánskjaravísitalan er. En hún færi verst með landsbyggðina - og það undirstrika ég — þó að öll þjóðin þurfi að losna við hana.

Ég vildi einnig hafa sagt í mínu máli að það þyrfti almennar aðgerðir til að hjálpa landsbyggðinni. Eitt meginmál í því sambandi er að afnema þessa vitlausu vísitölu. Ég þakka Albert Guðmundssyni sem lagði einmitt til, eins og hann gat um áðan, í tíð fráfarandi ríkisstjórnar að afnema þessa vísitölu. Það hefði verið betur gert um leið og kaupgjaldsvísitalan var afnumin. Þá væri staða okkar þjóðar önnur í dag.

Ég nefndi að auki orkumálin og fleira. En það stendur, og það vil ég ítreka, það stendur upp á ríkisstjórnina að taka á. Ég vona að þessi umræða og ástandið í þjóðfélaginu verði til þess að stjórnvöld vakni fyrr en seinna.