14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6471 í B-deild Alþingistíðinda. (4461)

20. mál, kaup og sala fasteigna á vegum ríkisins

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Örfá orð. Í fyrsta lagi er rétt að vekja athygli manna á því að hér er verið að fjalla um fasteignasölu og kaup í tíð fyrirrennara núv. ríkisstjórnar þannig að upplýsingar um einstök atriði umfram það sem fram kemur í þessari skýrslu eru þá frekar á þeirra vitneskju en minni. Þó skal tekið fram vegna fsp. um þessa mætisjörð, Kotmúla, að þar mun vera upptökuheimili starfrækt fyrir unglinga sem áður fyrr voru kallaðir vandræðaunglingar, en slíkt er náttúrlega horfið úr málinu, og þess vegna ástæðulaust fyrir Alþfl. að fara þangað í sumarferð en nær fyrir Alþb., Svavar Gestsson, að fara þangað sjálfan með leifarnar af flokkseigendafélaginu. Og hana nú.

Í alvöru talað er það auðvitað ámælisvert stórlega að þegar leitað er upplýsinga hjá ráðuneytum bréflega, með bréfi frá því í febrúar 1987 í tilefni af upplýsingagjöf til Alþingis, þá skuli einungis fjögur af ellefu ráðuneytum svara. Það er auðvitað ekki bara móðgun við fjmrh. eða bréfritara heldur við Alþingi.

Í annan stað spyrja menn: Hvers vegna er þessi upplýsingagjöf ekki betri? Skýrslan út af fyrir sig svarar ekki öðrum spurningum en þeim sem spurt er um af hálfu skýrslubeiðanda. En hvers vegna er þessi upplýsingagjöf eða skýrsluhald ekki betra? Það kom að nokkru leyti fram í mínu máli. Það er ljóst að mörg ráðuneyti hafa á liðnum árum tekið sér það vald að kaupa eignir sem þau ekki hafa og hafa því næst ekki gefið viðhlítandi upplýsingar um þessi eignakaup. Og í þriðja lagi er það rétt, sem fram kom, að ráðstöfun eigna er oft og tíðum ekki á hendi þess ráðuneytis sem kaupin annast, þ.e. eignadeildar, heldur annarra ráðuneyta, t.d. jarðeignadeildar landbrn. Einnig kom fram í máli fyrrv. hæstv. fjmrh. að ráðstöfun húseigna er ekki á valdi fjmrn. Ég nefni dæmi að gefnu tilefni. Það var spurt um fyrirhugaða nýtingu á Sambandshúsi sem kallað hefur verið bestu fasteignakaup áratugarins ef ekki aldarinnar. Það er ekki á valdi fjmrn. Það er á valdi forsrh. og forsrn. skv. lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég kann ekki greiðari svör að gefa við þeim áætlunum önnur en þau að af hálfu forsrh. var skipuð nefnd ráðuneytisstjóra og fulltrúa ráðuneyta til að gera um það tillögur. Það er upplýst að hér er um að ræða rúmlega 6000 m2 húsnæði, talið að það geti hýst í skrifstofuhaldi um 220 manns. Þar með ætti það að geta sinnt húsnæðisþörfum Stjórnarráðsins að mestum hluta. En það hefur verið um það rætt að menntmrn. hafi forgang að því húsnæði þegar það verður endanlega til ráðstöfunar. 1. hæðin verður reyndar þegar tekin til ráðstöfunar eða til afnota samkvæmt samningnum, en upp úr áramótum má gera ráð fyrir að húsið verði afhent að öðru leyti.

Að því er varðar þá fullyrðingu að 20 af þessum 70 eignum hafi verið keyptar án heimilda, sem reyndar mun láta nærri þegar þetta er talið, ártalið er síðar þegar leitað er heimilda en þegar kaup eru gerð, þá kann ég ekki skýringar að gefa á því. Það er hrein tilgáta að það sé að einhverju leyti því um að kenna að þeir aðilar sem kaupin gera eru þeir sem ekki hafa heimildina til þess og sinna því ekki skýrslugjöf um það.

Ég held að það sé alveg ljóst að það er ekki bara skráningin ein saman sem þarf að taka í gegn eða hraða heldur er rétt að gera gangskör að því að móta einhverja frekari stefnu í þessum málum, bæði gagnvart húsaleigu, eignakaupum, nýtingu, leigugjöldum. Þessi umræða er þá ágætt tilefni til að gera gangskör að því að vinna verði lögð í að móta slíka stefnu.