18.04.1988
Neðri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6496 í B-deild Alþingistíðinda. (4488)

293. mál, áfengislög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Við afgreiðslu þessa máls eftir 2. umr. hér í hv. deild gerði ég grein fyrir atkvæði mínu. Þar sem nú er svo mikið viðhaft þegar þetta mál kemur til afgreiðslu eftir 3. umr. ætla ég, með leyfi forseta, að endurtaka það sem ég sagði við 2. umr. svo það fari ekki á milli mála hver mín afstaða er. (ÓÞÞ: Það hefði nú mátt hlífa deildinni við þessu.) Ég bið hæstv. forseta að róa þingmanninn rétt á meðan. Þetta er ekki langt mál.

Sú er óbifanlega skoðun mín að gott og heilbrigt þjóðfélag eigi að byggjast á því að sérhver heilbrigður einstaklingur beri ábyrgð á eigin lífi, að hann verði að axla þá ábyrgð að velja og hafna. Þann bikar hvorki vil ég né tel rétt að taka frá öðru fólki.

Enn síður get ég tekið þátt í því að einungis forréttindahópar eigi aðgang að lífsgæðum sem allur þorri manna á engan aðgang að. Vinni hv. alþm. að því að byggja hollt og heilbrigt samfélag af alvöru og í einlægni svo að þetta land verði góður verustaður treysti ég landsmönnum til að fara með áfengt öl af töluvert meira viti en þeir fara með sterkara áfengi nú. Það væri verðugra verkefni hv. alþm. að vinna að þess háttar samfélagi en að taka af landsmönnum ábyrgð á eigin lífi með boðum og bönnum. Ég segi já.