18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6498 í B-deild Alþingistíðinda. (4497)

Töf á afgreiðslu rekstrarlána til bænda

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs vegna þess máls að það hefur orðið dráttur á veitingu rekstrarlána til bænda. Rekstrarlán þessi eru veitt eftir þeirri reglu að dilkainnlegg bænda frá árinu áður er lagt til grundvallar um það hvaða fjárhæð er veitt sem rekstrarlán til hvers bónda. Í fyrra var rekstrarlánið 960 kr. á hvern dilk og gert er ráð fyrir að það verði 1150 kr. í ár.

Sú vinnuvenja hefur verið til staðar að fyrsta greiðsla rekstrarlánanna hefur verið í mars, þá 15%, 15% í apríl, 25% í maí og svo 15% þar til í ágúst að rekstrarlánin hafa að fullu verið greidd. Nú hefur orðið dráttur á og aðeins einn banki af þremur, Samvinnubankinn, hefur lokið að veita þessi lán og má segja að það vigti létt því að hann hefur aðeins þrjú fyrirtæki í viðskiptum. Hinir eru enn ekki búnir að ganga frá þessum málum nema e.t.v. Búnaðarbankinn til einhverra fyrirtækja, en aðalreglan er sú að það er ekki búið að veita þessi rekstrarlán.

Nú stefnir í verkfall hjá verslunarmönnum og búast má við að þá verði ekki hægt að afhenda neinar vörur út á land. Verði ekki búið að veita rekstrarlánin fyrir þann tíma er hætt við að sum kaupfélög muni ekki hafa fjármuni til að birgja sig nægilega upp af vörum fyrir verkfallið og gæti því haft þær alvarlegu afleiðingar að það leiddi til vöruþurrðar snemma á verkfallstímabilinu. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. geri sér grein fyrir alvöru þessa máls, en skv. þeim lögum sem nú eru í gildi heyra allir bankar undir viðskrn.