18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6500 í B-deild Alþingistíðinda. (4499)

Töf á afgreiðslu rekstrarlána til bænda

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að rekstrarlán landbúnaðarins berist með eðlilegum hætti og með sambærilegum hætti og verið hefur. Samkvæmt upplýsingum Búnaðarbankans, sem ég hef rætt þetta mál við í dag, virðist svo sem þessu sé hagað með líkumhætti og gert hefur verið undanfarin ár og þá á þann hátt að eftir að dregnir hafa verið frá lánagreiðslum vextir og annar kostnaður og ef fyrirtækin eru þá ekki í vanskilum fá þau rekstrarlánin greidd, en sé um vanskil að ræða gefst fyrirtækjunum kostur á að greiða þau vanskil upp eða gera upp um leið og rekstrarlán eru veitt. Með þeim hætti ætti að vera sæmilega fyrir þessu máli séð og ég vænti þess að hæstv. ráðherra fylgist með að svo verði áfram og í framkvæmdinni í heild.