18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6501 í B-deild Alþingistíðinda. (4504)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir árin 1987–1990. Núgildandi vegáætlun var samþykkt í mars 1987 og ætti því regluleg endurskoðun hennar skv. vegalögum ekki að fara fram fyrr en á Alþingi 1988–1989, þ.e. á næsta þingi.

Tvennt veldur því að ekki verður komist hjá endurskoðun nú. Þróun verðlags hefur orðið með öðrum hætti en reiknað var með við gerð vegáætlunar. Þá var einnig reiknað með mikilli fjáröflun umfram markaðar tekjur án þess þó að sú fjáröflun væri skilgreind nánar. Við ríkjandi efnahagsaðstæður þykir ekki fært að afla þessa fjár. Markaðar tekjur hafa á hinn bóginn aukist umfram áætlun. Verður nú nánar vikið að þessum atriðum.

Þegar vegáætlun var til afgreiðslu á Alþingi snemma árs 1987 var reiknað með að kostnaðarvísitala, sem Vegagerð ríkisins miðar við, yrði 2100 á miðju því ári. Hækkun frá 1986 var áætluð um 19%. Síðan var reiknað með 6% hækkun til 1988 og að vísitalan yrði þá 2226 stig. Í reynd hækkaði kostnaðarvísitalan örar 1987 og var komin í 2226 um mitt ár, raunhækkun um 26% frá 1986, eða jafnhá og ætlað var fyrir 1988.

Við endurskoðun nú er tekið mið af spá Þjóðhagsstofnunar um þróun byggingarvísitölu en gert er ráð fyrir að hún hækki nálega 15% milli áranna 1987 og 1988. Samkvæmt því yrði kostnaðarvísitala vegagerðar 1988, þ.e. á þessu ári, 2560.

Þessar tvær vísitölur hafa þróast með svipuðum hætti þegar til lengri tíma er litið, en frávik hafa orðið þó nokkur um skemmri tímabil. Ýmis rök hníga að því að kostnaðarvísitala vegagerðar muni hækka öllu meir en byggingarvísitalan. Erfitt er á hinn bóginn að festa hendur á því á þessu stigi og er því reiknað með 15% hækkun verðlags milli áranna 1987 og 1988.

Bensínsala hefur vaxið ört undanfarin ár eins og glöggt má sjá af töflu sem er í grg. með þáltill. Þannig var salan 153,8 millj. lítra á sl. ári og hafði aukist um hvorki meira né minna en 12,5% í lítrum talið frá árinu á undan. Nú liggja fyrir tölur um sölu bensíns fyrir fyrstu þrjá mánuði tekjuársins 1988, þ.e. mánuðina nóvember til desember 1987 og janúar 1988, en tekjuár Vegagerðarinnar er frá nóvember til nóvember. Er bensínsala þessa þrjá mánuði 8,6% meiri en sömu mánuði í fyrra. Er sala nú áætluð heldur meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hækka tekjur þannig um 90 millj. kr. Bensíngjald var frá 1. nóv. 1987 ákveðið 12,60 kr. á lítra. Þungaskattur var hækkaður til samræmis við þetta bensíngjald um sl. áramót. Við útreikning heildartekna af mörkuðum tekjustofnum er miðað við að gjöld þessi haldist óbreytt á árinu. Markaðar tekjur á árinu 1988 eru áætlaðar 2 milljarðar 990 millj. kr., en voru áætlaðar 2 milljarðar 353 millj. kr. í gildandi vegáætlun fyrir þetta ár.

Allt fram til ársins 1986 voru útgjöld til vegamála jafnmikil eða meiri en nam tekjum af mörkuðum tekjustofnum. Mikil breyting varð hér á árinu 1987, en það ár urðu tekjurnar 160 millj. kr. meiri en heildarútgjöld til vegamála það ár.

Samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar skal tekjum samkvæmt lögunum einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun. Sú vinnuregla hefur gilt undanfarið að útgjöld vegáætlunar á hverju ári markist af þeirri tölu sem ákveðin er í upphafi árs. Var svo einnig 1987, en til að fullnægja ákvæðum áðurnefndra laga verða umframtekjur að færast til næsta árs. Í samræmi við þetta eru umframtekjur 1987 hér taldar með fjáröflun 1988 og ættu því 3150 millj. kr. að vera til ráðstöfunar 1988. Ekki er þó gerð tillaga um að ráðstafa öllu því fjármagni á þessu ári og verður nánar vikið að því hér á eftir í athugasemdum við útgjöld.

Af heildartekjum, 3150 millj. kr., er lagt til að ráðstafað verði 2865 millj. kr. til framkvæmda í vegamálum. Óráðstafað verður þá 285 millj., þ.e. 125 af mörkuðum tekjum í ár og 160 af mörkuðum tekjum 1987. Í samræmi við lögin um fjáröflun til vegagerðar verður þetta fjármagn (þó leiðrétt til endanlegra tekna 1988) til ráðstöfunar 1989.

Sé það fjármagn, sem skipt er á framkvæmdaliði í tillögu, 2 milljarðar 865 millj. kr., borið saman við gildandi vegáætlun 1988 og fjárveitingar 1987 kemur í ljós að miðað við verðlagsforsendur tillögunnar eykst ráðstöfunarféð 1988 um 16% frá 1987 og um 6% frá gildandi vegáætlun 1988. Viðbótarfjármagn fer til nýrra þjóðvega og brúa, en ekki er hér gerð tillaga um skiptingu þessa viðbótarfjármagns á liði innan þessara verkefnaflokka. Slíkar tillögur verða lagðar fyrir fjvn. Við þá tillögugerð verður við það miðað að meginhluti fjárins fari til stofnbrauta, enda þörfin mest þar. Þar er tekið tillit til tveggja stórra verkefna, þ.e. jarðganga í Ólafsfjarðarmúla og vegagerðar á höfuðborgarsvæðinu. Mun ég víkja sérstaklega að þessu tvennu.

Við afgreiðslu vegáætlunar á sl. ári lýsti fjvn. þeim vilja sínum að staðið yrði við fyrri áform um að hefja jarðgangagerð í Ólafsfjarðarmúla árið 1988 og séð yrði fyrir fjármögnun til að verkið héldi síðan viðstöðulaust áfram. Með afgreiðslu vegáætlunar í samræmi við tillögur fjvn. lýsti Alþingi samþykki sínu við þessa stefnumörkun og hún hefur síðan verið staðfest í ríkisstjórn. Fjárþörf fyrsta árið, 1988, var metin 90 millj. á verðlagi vorið 1987. Þá er miðað við kostnaðarvísitölu vegagerðar 2100. Sú tala reiknuð til áætlaðs verðlags á komandi hausti verður um 120 millj. kr.

Forval verktaka til verksins fór fram í vetur og hafa útboðsgögn nú verið seld væntanlegum bjóðendum. Við lokahönnun verksins hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að heildarkostnaður verði innan þess ramma sem upp hefur verið settur. Hins vegar má búast við því að fjárþörf fyrsta árs gæti orðið öllu meiri en nefnt var hér að framan eða líklega 130-140 millj. á verðlagi haustið 1988. Við skiptingu fjármagns nú þarf að taka tillit til þessa og tryggja nægjanlegt fjármagn til þess að unnt verði að standa við fyrri samþykkt Alþingis og þar er lágmarkið 120 millj. kr.

Umferðarvandamál höfuðborgarsvæðisins hafa vaxið mjög ört undanfarið með mikilli fjölgun bifreiða. Er orðin knýjandi þörf fyrir aukið fjármagn til framkvæmda bæði við þjóðvegi og þjóðvegi í þéttbýli á svæðinu. Starfandi hefur verið sérstakur vinnuhópur starfsmanna Vegagerðar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar sem gert hefur úttekt á nauðsynlegustu framkvæmdaþörf næstu ára. Samkvæmt þessari úttekt þyrfti að verja 1800–1900 millj. kr. til framkvæmda á þjóðvegum og þjóðvegum í þéttbýli á þessu svæði á næstu fimm árum ef vænta á einhvers bata fyrir umferðina. Raunar var í ræðu er ég flutti á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gerð grein fyrir nauðsynlegustu framkvæmdum á þessu sviði jafnframt því sem þær voru kynntar í sérstakri útgáfu rits Vegagerðar ríkisins, Vegamál, 4. tbl. 10. árg., og á sérstakri sýningu í desembermánuði sl., en bæði grg. starfshópsins, ræðan svo og 10. tbl. Vegamála hefur verið sent þingmönnum.

Meðal þeirra framkvæmda sem nauðsynlegt og óumflýjanlegt er að ráðast í sem fyrst er bygging Suðurlandsvegar frá Rauðavatni að Vesturlandsvegi við Grafarvog og breikkun Vesturlandsvegar í fjórar akreinar þaðan og að Höfðabakka.

Ég hef í dag ritað vegamálastjóra bréf og falið honum að hefja hönnun þessara framkvæmda þannig að kostnaðaráætlun fyrir þær gæti legið fyrir við endurskoðun vegáætlunar á næsta ári.

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg varið mun meira fjármagni til þjóðvega í þéttbýli innan sinna marka en numið hefur framlagi ríkisins. Er nauðsynlegt að séð verði fyrir fjármagni til endurgreiðslu vegna þessara framkvæmda svo sem venja hefur verið til þegar sveitarfélög hafa lagt til úr sjóðum sínum í þjóðvegi í þéttbýli.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þá till. sem hér er til umræðu. Grg. með till. skýrir það sem þá upp á vantar og síðan verður að sjálfsögðu málið til umfjöllunar með vegagerðarfulltrúum í fjvn. Ég leyfi mér að ljúka máli mínu og legg til, virðulegur forseti, að þessari till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.