18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6507 í B-deild Alþingistíðinda. (4507)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég get reyndar í meginatriðum vitnað til ræðu síðasta ræðumanns í skoðunum mínum á meðferð þessara mála að þessu sinni. Það er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt að alþm. sýni áhuga í sambandi við vegamálin. Þá sögu kunnum við öll býsna vel.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, að í heild sinni hefur þessum verkum skilað býsna vel áfram. Vegáætlun, langtímaáætlunin, byggðist fyrst og fremst á því að klæða ákveðinn hluta af stofnbrautum og hluta af þjóðbrautum líka bundnu slitlagi. Það verður ekki annað séð en það gangi fram með líkum hætti og áætlað var, kannski jafnvel að þar muni nást meiri árangur. Viðmiðunarprósentan upp á 2,4% var að sjálfsögðu til viðmiðunar og það er margt í þessum efnum sem hefur gengið til betri hags. T.d. hefur olíuverð lækkað frá því sem þá var og það hefur að sjálfsögðu auðveldað þennan árangur.

Það liggur hins vegar fyrir að ákveðnir tekjustofnar eiga að renna til Vegagerðar ríkisins og hefur verið gert um það samkomulag að svo væri gert og hvernig fara bæri að þegar þær tekjur skiluðu sér betur en fjárlög kveða á um. Þar af leiðandi eru það að sjálfsögðu vonbrigði, þótt ég eigi þar fulla ábyrgð á eins og aðrir stjórnarþingmenn, að þær 160 millj. sem hér hafa verið til umræðu skuli ekki hafa skilað sér til vegaframkvæmda í ár því það hefði að sjálfsögðu breytt býsna miklu í okkar brýnu framkvæmdaþörf.

Nú hefur hér verið minnst á og m.a. hæstv. samgrh. talað hér sérstaklega um tvö brýn verkefni sem þurfi að hyggja að og þar á ég við bæði vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og byggingu jarðganga í gegnum Ólafsfjarðarmúla sem Alþingi hefur raunar áður lýst áhuga sínum á. Það er augljóst mál að til þessara verkefna þarf að koma aukið fjármagn fram yfir það sem er í vegáætlun á næsta ári ef árangur á að nást og ég óttast að ef ekki verður annað sérstaklega fram tekið við afgreiðslu vegáætlunar að þessu sinni muni verða til þeirra ráða gripið að ráðstafa því geymslufé, sem skv. vegáætlun er upp á tæpar 300 millj., til þessara verkefna á næsta ári. Af þeirri ástæðu hlýtur það að verða tekið til athugunar við tillögugerð í fjvn. og við afgreiðslu hér á Alþingi hvort ekki beri að ákveða núna til hvaða verkefna þetta fjármagn gangi þegar það kemur til framkvæmda. Það held ég að sé afar mikið mál því að ég er nokkurn veginn sannfærður um að ef ekki verður þar um fjallað núna og ákvarðanir teknar fer þetta fjármagn á þá tvo staði sem ráðherrann hefur nú lýst yfir að væru hans sérstöku óskabörn, Ólafsfjarðarmúlann og höfuðborgarsvæðið. Það verður að fjármagna þær framkvæmdir með öðrum hætti og láta það geymslufé, sem hér hefur verið lýst, ganga til annarrar vegagerðar annars staðar á landinu.