18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6508 í B-deild Alþingistíðinda. (4508)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umræðurnar þar sem þessi áætlun kemur til meðferðar fjvn. og verður þar rætt með hvaða hætti menn vilja standa að þessari vegáætlun. Það mætti að sjálfsögðu halda langa ræðu um það sem hér hefur þegar komið fram hjá öðrum þingmönnum um vegamálin almennt og skal ég ekki bæta neinu þar við. Þetta er eitt af þeim málum sem ég og fleiri sjálfsagt erum sammála um að eru eitt stærsta byggðamálið í okkar landi og við þurfum að vinna ötullega að því áfram að útbúa vegakerfið þannig að allir landsmenn búi við viðunandi aðstæður að þessu leyti til. Auðvitað vantar þar stórmikið á og við eigum eftir enn að gera gífurleg mannvirki á sviði vegamála og það er ekkert óeðlilegt því að ýmislegt í okkar vegakerfi, sem er dýrast, bíður framkvæmda. Við höfum gert stórátak, en margt af því sem eftir er að gera er miklu fyrirferðarmeira en það sem búið er að gera, a.m.k. víða. Þar má nefna jarðgöng, brýr yfir firði o.fl.

En það sem ég vil koma aðeins inn á eða réttara sagt undirstrika, sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. síðasta ræðumanni, er að ég tel að það verði að marka stefnu um svokallað geymslufé eða það sem er óráðstafað, sem eru viðurkenndar tekjur Vegasjóðs sem ekki á að vera hægt að taka af Vegagerðinni, og það verði mörkuð sú stefna í framhaldi þess sem hér er lagt til að þessu fjármagni verði skipt milli kjördæmanna með sama hætti og framkvæmdafé til vegagerðar. Ég tel að þetta þurfi að koma fram hér til þess að það sé ekki neitt vafamál um að hvorki hæstv. samgrh. né ríkisstjórnin hafa heimild til að nota þetta afgangsfjármagn í annað. Þetta vil ég undirstrika sem skoðun og ég hvika ekki frá henni.

Framkvæmdir eins og jarðgöngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla eru framkvæmd sem allir eru sammála um að verði að standa við. Mér finnst að í umræðunni núna og ég geri ráð fyrir að það muni koma fram í fjvn. þurfi menn að átta sig á að það er ekki forsvaranlegt að hefja þær framkvæmdir nema það sé tryggt að hægt sé að halda áfram í einni lotu með það verkefni þó að það taki þrjú eða fjögur ár. Þess vegna tel ég að það þurfi jafnvel strax að liggja fyrir, sem er í mínum huga alveg ljóst, að miðað við þessar áætlanir um fjármagn Vegasjóðs ræður hann ekki við það verkefni öðruvísi en að gert sé ráð fyrir að þurfi að taka til þess lán á þessum aðalframkvæmdaárum, þ.e. árið 1989 og 1990. Þar sem þar er um 200 millj. að ræða hvort ár um sig eða nálægt því. Og meira að segja hvað snertir það sem hér er lagt til, 120 millj., til þess að geta hafið verkið á þessu ári og komist að einhverju leyti inn í fjallið þarf til þess bráðabirgðalán eða lántöku. Ég held því að eðlilegt sé að menn séu raunsæir að þessu leyti til, að það er ekki hægt að ætla það að af vegafé verði svo mikið fé til þessa sérverkefnis á árunum 1989 og 1990 að ekki þurfi að reikna með lántöku.

En það sem ég vil fyrst og fremst undirstrika er að það verður að tryggja að hægt sé að standa við áformin um að komast í gegnum fjallið í einum áfanga eins og verkáætlun gerir ráð fyrir og því verða menn í upphafi að gera sér grein fyrir að þarna þarf til að koma lántaka. Það er ekki hægt að treysta hvorki á afgangsfé eða geymslufé né það mikla aukningu í vegáætluninni að hægt sé að taka það frá öðrum almennum verkefnum.