18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6515 í B-deild Alþingistíðinda. (4513)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Í tilefni síðustu orða hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég aðeins taka undir það sem hann sagði um varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Síðastliðinn fimmtudag svaraði hæstv. samgrh. fsp. minni um þessa flugvelli á Egilsstöðum og á Akureyri, hvað það mundi kosta að koma þeim í það ástand að geta þjónað stærstu flugvélum Arnarflugs og Flugleiða. Kom þá fram í hans máli að þetta væri á bilinu 100–127 millj. kr., 100 millj. á Akureyri og 127 millj. á Egilsstöðum.

Ég spyr því, þar sem góður tími gefst til, hæstv. samgrh., þar sem ég hef grun um að hann vilji koma hér upp aftur og ræða um þessi mál, hvort ætla má að í flugmálaáætlun komi, innan skamms tíma, þessi mál og að einhverjum peningum verði varið í þau með það í huga að koma upp varaflugvelli og þá á öðrum hvorum þessara tveggja staða, en ég tel að það sé ódýrasti kosturinn fyrir okkur Íslendinga að hafa varaflugvöll á þessum stöðum. Hugmyndin um Sauðárkrók er að sjálfsögðu líka inni í myndinni en í mínum huga er flugvöllurinn á Egilsstöðum sá flugvöllur sem er ákjósanlegastur með tilliti til umferðar en þar skilst mér að fari um 56 þúsund manns á ári hverju en innan við 15 þúsund á Sauðárkróki. Þar fyrir utan er Sauðárkrókur í alfaraleið og vegasamgöngur þangað mjög góðar. En eftir því sem mér hefur skilist er veður mjög líkt á Sauðárkróki og á Egilsstöðum.

Varðandi aðra liði í þessari flugmálaáætlun ætla ég ekki að úttala mig í þessari fyrri umr., en eftir að þetta er farið til nefndar býst ég við að fleira skýrist og spara mér það til síðari umr. að ræða nánar um það.