18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6520 í B-deild Alþingistíðinda. (4522)

Óvissa um ráðningu kennara

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að minna á kjaramál kennara sem nú virðast í algerri óvissu og uppnámi. Ekki verður séð að stjórnvöld hafi gert neinar marktækar tilraunir til að leysa kjaradeilu kennara. Þvert á móti bendir margt til þess að stöðugt verði erfiðara að leysa kjaradeiluna eftir því sem á líður.

Einmitt um þessar mundir er verið að ganga frá ráðningu kennara fyrir næsta skólaár. Það starf torveldast þó tilfinnanlega af því að allt er í óvissu með kjaramálin. Oft hefur verið bent á að lág laun kennara og erfiðar starfsaðstæður í skólum eigi stóran þátt í því hve erfitt hefur reynst að fá kennara til starfa undanfarin ár. Þetta er eitt þeirra vandamála íslensks skólastarfs sem ítrekað er í OECD-skýrslunni um skólastarf og menntastefnu á Íslandi sem hefur nú verið til meðferðar á þremur ráðstefnum sem menntmrn. og kennarasamtökin hafa beitt sér fyrir síðustu vikurnar.

Í lögum um lögverndun starfsheitis og starfsréttinda kennara og skólastjórnenda er greint frá því hvaða menntunar er krafist af þessum starfsmönnum skólanna. Fram hefur komið á Alþingi að miðað við fjölda réttindalausra og unna yfirtíð í skólakerfinu mun vanta um 1000 kennara til starfa hér á landi. Hafa borist upplýsingar um hvernig þessi fjöldi réttindalausra skiptist eftir fræðsluumdæmum og er bersýnilegt af þeim upplýsingum, sem m.a. hafa komið fram í svari við fsp. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að landsbyggðin situr þar við mjög skarðan hlut.

Nú er unnið að undirbúningi næsta skólaárs og eitt af því sem hamlar er óvissan í kjaramálum kennara. Þar sem ekkert miðar í kjaramálum og mjög styttist þinghaldið er nauðsynlegt að koma málinu hér fyrir og því legg ég eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. fjmrh.:

1. Hvaða ráðstafanir hyggst fjmrh. gera í kjaramálum kennara til að tryggja að nægur fjöldi kennara með lögbundna starfsmenntun fáist til starfa á næsta skólaári?

Herra forseti. Aðdragandi þeirra kjaraviðræðna sem nú standa yfir um kjör kennara er m.a. nefndavinna sem fjmrn. tók þátt í ásamt kennarasamtökunum. Þess vegna spyr ég fjmrh. einnig:

2. Hvernig ætlar fjmrn. að vinna að framgangi tillagna frá starfskjaranefndum kennarasamtakanna sem fjmrn. átti fulltrúa í?