18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6521 í B-deild Alþingistíðinda. (4523)

Óvissa um ráðningu kennara

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Spurningin er tvíþætt:

1. Hvað hyggst fjmrh. gera, það sem á hans valdi er að gera, til að tryggja framboð nægilegs fjölda kennara með lögbundna starfsmenntun til starfa á næsta skólaári? Að svo miklu leyti sem það er á valdi fjmrh. hyggst hann gera það með því að freista þess til þrautar að lúka kjarasamningum. Þess skal getið að að ósk Hins íslenska kennarafélags verða næstu samningafundir í því efni ekki fyrr en um miðja næstu viku að því er varðar Hið íslenska kennarafélag, en að því er varðar Kennarasamband Íslands hefur fundur ekki verið ákveðinn.

2. Hvernig ætlar fjmrn. að vinna að framgangi tillagna frá starfskjaranefndum kennarasamtakanna sem fjmrn. átti fulltrúa í? Sem svar við því vil ég vísa til þess tilboðs sem fjmrn. hefur gert í þessari samningaviðleitni við kennarasamtökin, en í því fólust m.a. ákveðnar tillögur í sex liðum sem byggðust allar á ábendingum starfskjaranefndar. Þær eru þessar:

1. Röðun í launaflokka verði endurskoðuð með tilliti til þess að sérstök framhaldsmenntun kennara hafi meiri áhrif en áður.

2. Reglum um prófaldur verði breytt þannig að efstu þrep launaskalans náist fyrr en nú er.

3. Með byrjun næsta skólaárs gangi í gildi ný vinnumagnsákvæði sem feli í sér að til jöfnunar á vinnuálagi vegna heimavinnu o.fl. og til að sinna sérstökum störfum verði varið tímafjölda sem svarar til tíu klukkustunda á ári á hvern nemanda. Greiðsla fyrir heimaverkefni, sem fellur inn í þetta, er nú sex klukkustundir á nemanda.

4. Settar verði nýjar reglur um deildarstjóra og þeim raðað í launaflokka sem slíkum. Ætlaðar verði tvær klukkustundir á ári á nemanda í þessi störf.

5. Tekið verði upp nýtt vinnumatskerfi sem miðist við að skólar geti ráðstafað heimiluðu vinnumagni, sbr. það sem sagði hér að framan, og kennslu í samræmi við eigin þarfir og samkvæmt almennum reglum sem menntmrn. setur.

Þær tillögur, sem af hálfu fjmrn. hafa verið gerðar í þessum kjarasamningum, miðast við tvennt. Annars vegar eru þær innan þess ramma sem markaður var af kjarasamningi Verkamannasambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins og hins vegar er þarna í veigamiklum atriðum tekið tillit til ábendinga starfskjaranefndar. Þess skal getið að ef litið er á stöðu kaupmáttar dagvinnutekna og miðað við taxta Hins íslenska kennarafélags og ef litið er á meðaltal kaupmáttar dagvinnutekna árið 1987 sem 100 hefur þróunin verið þessi miðað við fyrstu mánuði þessa árs: Janúarmánuður 98,51%, febrúarmánuður 99,65% og marsmánuður 98,74. Þetta er staðan áður en gengið hefur verið til kjarasamninga.

Loks er þess að geta að í heild sinni fól tilboð ríkisins til kennarasamtakanna í sér um 13,5% launahækkun og þá miðað við áfangahækkanir í júní, september og 1. febrúar 1989 ef samningur næðist til þess tíma. Óhætt er að fullyrða að slíkur samningur mundi tryggja viðhald kaupmáttar á samningstímanum til jafns við það sem gerist á almenna vinnumarkaðnum. Vandi ríkisins er hins vegar sá að alveg eins og opinberir starfsmenn höfðu tryggingarákvæði í sínum samningum á yfirstandandi ári um viðmiðun við almenna kjarasamninga er það svo að hinn almenni vinnumarkaður hefur einnig tekið upp hliðstæð tryggingarákvæði þannig að ef við förum út fyrir þann ramma erum við raunverulega að opna nýja hringekju kjarasamninga. Þetta er sá meginvandi sem við er að fást.