18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6523 í B-deild Alþingistíðinda. (4525)

Óvissa um ráðningu kennara

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. upplýsir að hann hafi þegar boðið kennurum smálaunahækkun, 13%, ásamt ýmsum öðrum breytingum sem eru smávægilegar sem kjaraleiðrétting. Á sama tíma kemur boðskapur frá Þjóðhagsstofnun um að gengið þurfi að lækka um 50% til viðbótar við það sem ríkisstjórnin hefur þegar lækkað gengið fyrir skömmu vegna síaukinna hækkana innan lands á þjónustu og á vörum og að sjálfsögðu er þar mest um vert 25% matarskatturinn. Á sama tíma og ríkissjóður kemur hér með 65 milljarða gjaldalið á fjárlögum, sem voru 43 milljarðar fyrir ári, kemur seðlabankastjóri og varar við eyðslu og segir að eina leiðin til baka inn í velmegun eða til baka út úr þeim efnahagsvanda sem við erum í sé aukinn sparnaður. Þá er leið ríkisstjórnarinnar að innheimta 22–25 milljarða meira í opinberum gjöldum af almenningi en fyrir einu ári. Síðan halda menn að þau laun séu réttlætanleg sem voru það þegar Borgarafl. lagði fram sína till. um að hækka laun með breytingu á persónuuppbótum í 40–50 000 kr. Kvennalistinn kemur nýlega með till. um að hækka laun upp í 50–55 000 kr. Þá vil ég segja að þörf á launahækkun er nú á nokkrum dögum í sömu þróun, í sama farvegi og viðskiptahallinn, sem var lagaður um ca. 3 milljarða samkvæmt kenningu ríkisstjórnarinnar við síðustu efnahagsráðstafanir, en er aftur kominn upp í 15 milljarða úr 10. 13% launahækkun til kennara er hlægilegt boð og lágmarkslaun Kvennalistans, sem voru ef ég man rétt 55 000, ættu núna að vera 60–70 000 á þessum fáu dögum sem liðnir eru síðan efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar voru lagðar fram.