19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6527 í B-deild Alþingistíðinda. (4532)

477. mál, þinglýsingalög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem fjallar um þinglýsingu veðbanda á bifreiðir, en frv. er fylgifrv. með frv. sem ég hef áður mælt fyrir hér í deildinni og er nú til meðferðar í hv. allshn., en það fjallar um breytingar á umferðarlögum, m.a. þess efnis að númeraskráning bifreiða eftir umdæmum verði felld niður. Grein er gerð fyrir efni frv. í athugasemdum sem því fylgja, en það leiðir af breyttu fyrirkomulagi númeraskráningarinnar á ökutækjum og gengur að öðru leyti út frá óbreyttum lögum um þinglýsingar.

Með frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsstjórnar í héraði sem lagt hefur verið fram í Nd. fylgir hins vegar annað frv. um breytingu á þinglýsingalögum og miðast það frv. við það að gera þinglýsingarnar að stjórnvaldsathöfn í stað dómsúrskurðar. Þar sem óvissa er um framgang dómstólafrv. á þessu þingi og áformuð gildistaka þess er auk þess ekki fyrr en sumarið 1990 en áformuð gildistaka þeirrar breytingar sem hér er lögð til í byrjun næsta árs, kemur sú óvanalega staða upp að ég legg nær samtímis fram tvö frumvörp til breytinga á einum og sömu lögunum, þinglýsingalögunum. Skýringin er sem sagt sú sem ég nú hef nefnt að þau eru fylgifrumvörp hvort með sinni lagabreytingunni sem óvíst er að eigi fullkomna samleið á þessu þingi.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu tæknilega og einfalda frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. þar sem það síðan geti átt samleið með frv. um breytingar á umferðarlögum sem er til meðferðar hjá hv. allshn.