19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6535 í B-deild Alþingistíðinda. (4538)

445. mál, eiturefni og hættuleg efni

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram og jafnframt lýsi ég því yfir að það hefði verið gott að fá frv. fyrr eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv. En það sem ég vildi aðallega benda á við fyrstu skoðun þessa frv. eða gera athugasemdir við er 7. gr. Þar er gert ráð fyrir að heilbrigðisfulltrúar gefi út eiturbeiðnirnar sem ég held að hljóti að verða til bóta. Afgreiðsla þessara mála hefur verið nokkuð þung í vöfum eins og áður var.

En það sem mér finnst kannski vera athugandi er 3. málsgr. 7. gr. þar sem gert er ráð fyrir að iðnaðarmenn eða aðrir einstaklingar, sem að staðaldri við störf sín nota tiltekin eiturefni, þurfi að sækja um á eins til þriggja ára fresti. Það má segja að það sé ekkert athugavert við það, en þarna er oft um að ræða, t.d. í landbúnaði, menn sem hafa áratugum saman notað þessi efni til sömu nota og þá dettur manni í hug hvort endilega sé nauðsynlegt að það þurfi að leita umsagnar eiturefnanefndar í hvert sinn þegar um slíka aðila er að ræða.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram strax við 1. umr. og mun óska eftir að verði athugað nánar því ég tel að þarna sé verið að gera málið óþarflega flókið og þungt í vöfum við afgreiðslu.

Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar mun ég fá tækifæri til að skoða það nánar í nefndarstörfum.