05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

68. mál, almenn hegningarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Það mál sem hér er á dagskrá er svo sannarlega allrar athygli vert og ekki komið til að tilefnislausu. Það er rétt, sem hv. flm., 14. þm. Reykv., segir í greinargerðinni, að allur almenningur lítur kynferðisafbrot, ekki síst gagnvart börnum, mjög alvarlegum augum. Í frv. er tekið á atriðum í hegningarlögunum sem nokkur missmíði er á miðað við réttarvitund almennings.

Ég vil í þessu sambandi minna á, eins og hv. flm. reyndar gerði, að í samræmi við þál. frá árinu 1984 var í júlí það ár skipuð fimm manna nefnd sem fjallar um meðferð nauðgunarmála og á hún að koma með tillögur til úrbóta í því sambandi, þar á meðal að gera tillögur um þær lagabreytingar sem þörf þykir á að gera. Álitsgerð frá nefndinni er væntanleg í byrjun næsta árs, eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv., og það er á verkefnaskrá dómsmrn. að ganga frá frumvörpum til breytinga á lögum í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar. Eins og reyndar kom fram í þingmálaskrá sem fylgdi stefnuræðu forsrh. er ráðgert að leggja slíkt frv. fram eftir jólaleyfi.

Ég hef fullan hug á því að stuðla sem skjótast að lagabreytingum í þessu efni, en tel, eins og reyndar hv. 6. þm. Reykv., ráðlegast að láta taka ákvæði þessa frv. til athugunar við samningu þeirra frumvarpa sem í undirbúningi eru og ég nefndi áðan. Ég hef rætt þetta mál sérstaklega við formann nefndarinnar, prófessor Jónatan Þórmundsson, sem vitnað er til í grg. frv., og rætt við hann sérstaklega um þetta frv.

Ég er alls ekki með þessu að drepa málinu á dreif. Þvert á móti tel ég nauðsynlegt að vanda þessa lagasetningu sem best því að nokkur hætta kann að vera á ósamræmi ef Alþingi samþykkir á þessu þingi fleiri en ein lög til breytinga á sama sviði almennra hegningarlaga. Reyndar er ég sammála hv. flm. og 6. þm. Reykv. að það er fullkomin þörf á því að taka bæði XXI. og XXII. kafla hegningarlaganna til endurskoðunar og það mun reyndar vera á verkefnaskrá nefndarinnar sem til var vitnað áðan.

Ég vil líka koma því að hér að það sama á að nokkru leyti við um frv. sem hv. þm. í þessari deild, Salome Þorkelsdóttir, hefur flutt um breytingu á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála. Ég á von á því að niðurstöður nefndarinnar sem fjallar um nauðgunarafbrotin muni einnig leiða til breytinga á þeim lögum. Í hegningarlögum og lögum um meðferð opinberra mála þarf að gæta fyllsta samræmis, en þau þurfa að sjálfsögðu að þróast í samræmi við breytingar á samfélaginu og breytingar á viðhorfum landsmanna.

Eitt af því sem við þurfum að mínu áliti ekki síst að taka til umfjöllunar er aðstaða brotaþolans í slíkum málum sem hér er um að ræða. Við erum líklega á því sviði orðnir á eftir ýmsum nágrannaríkjum okkar þar sem brotaþolarnir fá meiri aðstoð en hér tíðkast, bæði til þess að draga úr afleiðingum brotsins eftir því sem frekast er kostur og eins til þess að flýta gangi þeirra dómsmála sem af brotum kunna að leiða.

En í þessu efni þarf ekki aðeins að huga að dómstólameðferð og ákvæðum hegningarlaga. Ekki síður þarf að huga vandlega að því hvernig rannsókn mála er framkvæmd. Ekki síst þarf þarna að huga að sambandinu á milli barnaverndarnefnda í sveitarfélögum og lögreglu í þessum viðkvæma málaflokki. T.d. má nefna að yfirheyrsla á börnum í kynferðisafbrotamálum er ákaflega mikið vandaverk. Eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv. er það ekki síst hið andlega áfall sem er ein alvarlegasta afleiðing brota af þessu tagi. Það þarf e.t.v. sérstaka ráðgjafa við rannsóknarlögregluna til að aðstoða við yfirheyrslur yfir börnum í þessum málum til að hlífa viðkvæmum barnssálum.

Þess vegna tel ég að mikil ástæða sé til að taka þetta mál til vandlegrar athugunar í hv. allshn. og leitað verði samráðs við nefndina sem skipuð var í samræmi við þál. frá 1984.