19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6537 í B-deild Alþingistíðinda. (4542)

448. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræður um þetta frv. sérstaklega, en úr því að lögin um Húsnæðisstofnun eru komin á dagskrá er kannski rétt að rifja upp að þetta er þriðja stjfrv. sem liggur fyrir þinginu um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, það er nú hvorki meira né minna. Þ.e. þetta frv. í fyrsta lagi, í öðru lagi frv. um breytingu á ákvæðum um skyldusparnað og í þriðja lagi ný lagaákvæði um kaupleiguíbúðir. Loks liggur núna fyrir skýrsla frá ákveðinni nefnd á vegum hæstv. félmrh. um úttekt á húsnæðiskerfinu í heild. Það hefur komið fram að ástandið er þar mjög bágborið. Þar hafa menn valið þann kostinn í seinni tíð að lofa fólki gulli og grænum skógum, en hvorugt er til þegar á á að herða. Biðlistar eru langir og nálgast ískyggilega aldamótin, þeir sem eru að skrá sig á biðlistana þessa dagana, og ljóst að kerfið stenst ekki eins og sakir standa. Þess vegna er eðlilegt þegar málinu er hreyft hér í hv. deild, þó að það snerti einkum ákvæðin um byggingarsamvinnufélög, að inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hyggst grípa til til að stytta þessa biðlista, hvaða hugmyndir ríkisstjórnin er með uppi varðandi afgreiðslu á stjfrv. sem hér liggja fyrir.

Hæstv. félmrh. lýsti því yfir í blöðum fyrir nokkru að hún mundi segja af sér ráðherrastörfum ef frv. til 1. um kaupleiguíbúðir yrði ekki afgreitt sem lög. Ég sé nú engin merki þess að þetta frv. sé að fara í gegnum þingið, ég hef ekki frétt af nál., og vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort hún er á leiðinni með að segja af sér eða hvort það er meiningin að klára málið núna á þeim dögum sem eftir lifa af þinghaldinu. Mér þætti vænt um ef hæstv. félmrh. sæi sér fært að svara þessum fsp.