05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

68. mál, almenn hegningarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér aðeins til að lýsa stuðningi við þetta frv. og vil nota tækifærið til að þakka hv. flm. fyrir ágæta framsöguræðu og þann mikla fróðleik sem kom fram í hennar máli.

Það er alveg ljóst að nauðsyn er á að gera réttarbót í þessum efnum og eins og hefur komið fram í máli hv. þm. og hæstv. ráðherra eru þessi mál þess eðlis að þau þurfa endurbóta við.

Það sem kannski kemur mér til að koma hér í ræðustól er fyrst og fremst að minna líka á það sakleysislega frv. sem ég flutti á fyrsta fundi þessarar hv. deildar en fékk enga umfjöllun eða viðbrögð á þeim fundi sem var kannski ekki nema von þar sem þetta var fyrsti þingdeildarfundurinn á nýju þingi. En hvað um það. Ég minntist þar á að ég hefði undir höndum dæmi um sérstakt mál sem varðaði ungan dreng. Það mál væri búið að bíða í dómskerfinu í 11/2 ár. Nú vill svo til að það er einmitt þetta tilgreinda mál sem hefur nokkuð verið fjallað um í fjölmiðlum að undanförnu, þ.e. í DV, og dæmigert um þessi mál að um leið og farið er að vekja athygli á þeim í fjölmiðlum eða annarri umfjöllun, m.a. kannski með flutningi mála á hv. Alþingi, er eins og menn taki við sér.

Það var skýrt frá því í gær á baksíðu DV að þar sé um að ræða kynferðisafbrotamál í hægagangi í kerfinu sem bíður enn dóms eftir heilt ár í sakadómi. Og síðan er frétt í dag um að það sé búið að dæma í málinu. Dómurinn sem sakborningur fær er sá sem hv. 14. þm. Reykv. sagði frá í sinni framsöguræðu, þ.e. tveggja mánaða fangelsi auk sex mánaða skilorðsbundið í fimm ár. Og þetta vekur mikla furðu þegar haft er í huga hvað liggur að baki.

Ég á engin orð yfir hversu lítils tillits virðist gæta til fórnarlamba í slíkum málum. Mér dettur í hug að nefna það hér varðandi þetta einstaka mál að sá níu ára gamli drengur sem þarna um ræðir, sem var níu ára á þeim tíma, segir ekki frá þessu atviki heima hjá sér fyrr en hann brotnar niður eftir tíu daga eða tvær vikur og þá er svo langt um liðið að þrátt fyrir læknisrannsókn eru verksummerki ekki til sönnunar fyrir athæfi sakbornings. Það má gera sér ljóst að níu ára gamalt barn hefur litla hugmynd um hvernig samfarir homosexual karlmanna fara fram, en því lýsti hann sjálfur. En auðvitað neitar sakborningur að hafa fullframið sinn verknað. Það virðist vera að í þessu tilviki sé svo vægt tekið á máli eins og raun ber vitni vegna þess að ekki er hægt að sanna málið. En jafnvel þó svo hefði verið, að viðkomandi sakborningur hefði ekki fullframið sinn verknað, hefði mátt ætla að afbrotið væri svo alvarlegt að það væri ástæða til að taka á því með öðrum hætti en raun ber vitni um í þessu tilviki.

Ég vildi, herra forseti, aðeins nefna þetta hér vegna þess að ég tel að þessi tvö frv. séu svo þýðingarmikil mál að þau þurfi að fá ítarlega umfjöllun. Hvort það verður með þeim hætti að þau verði að bíða eftir framlagningu frv. sem hæstv. dómsmrh. gat um skal ég ekki dæma um, en ég tel a.m.k. að það þurfi að vinna strax að framgangi þessara mála.

Ég get tekið undir að það þarf vissulega að vanda lagasetningu, en sú breyting sem ég lagði til í umræddu frv. var mjög einföld og ekki flókin, aðeins sú að slík mál skuli hafa forgang í kerfinu og að dómur í undirrétti gangi innan átta mánaða frá ákæru nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Þetta held ég að sé þýðingarmikið atriði og alls ekki flókið að mínu mati.

Hv. 6. þm. Reykv. minntist á fund sem er í kvöld. Mér er kunnugt um þennan fund þar sem ég er einn af framsögumönnum á þeim fundi til að fjalla um þessi mál. Ég tek undir að það getur verið fróðlegt fyrir hv. þm. að kynna sér frekar málin hjá þeim sem með þessi mál hafa að gera, fólki með sérfræðiþekkingu á þessum málum, sem eru einnig ræðumenn á fundinum.