19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6546 í B-deild Alþingistíðinda. (4552)

466. mál, ferðamál

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef af nokkurri athygli hlýtt á málflutning og röksemdir stjórnarandstæðinga í þessu máli, þ.e. að því er varðar heimild til að selja Ferðaskrifstofu ríkisins eða hluta hennar. Ég játa að mér var þetta mál nokkurt umhugsunarefni þegar það bar fyrst á góma í þingflokki Alþfl. og við gerðum nokkrar athugasemdir við það sem að hluta til og að mestöllu leyti voru teknar til greina á sínum tíma.

Ég held að það sé deginum ljósara að þegar Ferðaskrifstofa ríkisins var stofnuð var þess mikil þörf og það fyrirtæki vann mjög gott starf. Ég held að það sé sömuleiðis deginum ljósara í dag að ríkið, hið opinbera, á ekki að reka ferðaskrifstofu. Ég veit að slíkur ríkisrekstur á ferðaskrifstofum tíðkast, en ég hygg að það sé eingöngu bundið við löndin austan járntjalds. Ég veit að sovéska ríkið rekur mjög umfangsmikla ferðaskrifstofu sem heitir Intourist sem er mjög stórt fyrirtæki en kannski ekki virt að sama skapi. Þar er líka öðrum aðilum bannað að annast slíkan rekstur. Það var svo hér einu sinni að einkaaðilar höfðu ekki leyfi lögum samkvæmt til að stofna og reka ferðaskrifstofu. Því var breytt fyrir 2–3 áratugum. Ég heyrði engin rök í máli hv. þm. sem töluðu áðan, Skúla Alexanderssonar og Danfríðar Skarphéðinsdóttur, fyrir því að ríkið héldi þessum rekstri áfram og ég fyrir forvitni sakir leyfi mér að spyrja hv. þm.: Hvers vegna á íslenska ríkið að reka ferðaskrifstofu? Ég get séð rök fyrir því að íslenska ríkið reki sementsverksmiðju og ég get séð rök fyrir því að færa ekki eignaraðild Sementsverksmiðjunnar til einstaklinga. Ég á mjög auðvelt með að koma auga á rök fyrir því vegna þess að enda þótt innflutningur á sementi sé heimilaður er Sementsverksmiðjan í raun eins konar einokunarfyrirtæki. En ég sé ekki rök fyrir því að ríkið reki ferðaskrifstofu.

Hins vegar skal ég fúslega viðurkenna að í mínum huga orkar það nokkuð tvímælis og þá tek ég kannski undir með hv. síðasta ræðumanni, 11. þm. Reykv. Guðmundi Ágústssyni, ég sé ekki að það sé alveg sjálfgefið að það sé starfsfólkið sem eigi að kaupa þetta fyrirtæki. Ég held hins vegar að ríkið eigi að selja þennan rekstur og ekkert að vera að basla við að reka ferðaskrifstofu. Auðvitað er það forsenda stuðnings við frv. að eðlilegra hagsmuna ríkisins sé gætt í sambandi við sölu á þessu fyrirtæki þannig að fyrir það fáist eðlilegt verð og eðlileg verðmæti komi í verðmæta stað þegar þetta fyrirtæki skiptir um eigendur. En ég sé ekki, og endurtek það, nokkur rök fyrir því að ríkið reki ferðaskrifstofu sem ríkisfyrirtæki eru skikkuð til að skipta við. Án þess að ég fullyrði nokkuð um það veit ég þess dæmi að hagstæðari fargjöld hafa fengist fyrir opinbera starfsmenn á ferðalögum með því að skipta við önnur fyrirtæki en Ferðaskrifstofu ríkisins. Það eru að vísu nokkur ár síðan það var. Ég hygg að það sé ekki einsdæmi og ýmsir kunni kannski að rekja frekari dæmi um það.

Þess vegna finnst mér það í rauninni sjálfsagt og eðlilegt að ríkið losi sig út úr þessum rekstri. Og varðandi Edduhótelin, sem sérstaklega hafa verið gerð hér að umtalsefni, er kannski eðlilegt að þar sé veittur einhver umþóttunartími eins og gert er hér ráð fyrir, en það er ekkert sjálfgefið að þessir aðilar haldi áfram að reka þau hótel um aldur og ævi. Það á bara að gerast á grundvelli frjálsrar samkeppni. Það hefur verið mjög vel staðið að þessum rekstri og þar var á sínum tíma brotið upp á margvíslegum nýjungum og hlutdeild starfsfólksins í hagnaði og öðru slíku sem voru miklar nýjungar hér og gafst mjög vel og hefur áreiðanlega leitt til þess að rekstur þessara hótela hefur yfirleitt verið í mjög góðu lagi og jafnframt mjög hagkvæmur vegna þess að allir sem hlut áttu að máli og að þessu unnu áttu þeirra hagsmuna að gæta að leggja sig fram um að þessi rekstur kæmi vel út.

En ég auglýsi eftir rökum frá Alþb. og Kvennalista til að styðja þá skoðun að ríkið eigi að reka ferðaskrifstofu og selja farseðla.