19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6551 í B-deild Alþingistíðinda. (4556)

466. mál, ferðamál

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég beindi spurningu til 4. þm. Vesturl., hv. þm. Skúla Alexanderssonar. Hann kaus að svara ekki þeirri spurningu heldur beina spurningu til mín. Það er auðvitað mjög auðvelt þegar verður stirt um svar að spyrja þá bara um eitthvað annað. Mér er bæði ljúft og skylt að svara hans spurningum. Mín skoðun er sú, og sjálfsagt slá okkar sósíaldemókratísku hjörtu þar í takt eins og hann orðaði það, að ríkið eigi að annast ýmiss konar velferðarþjónustu við borgarana og þá ekki síst við ýmsa þá sem af ýmsum ástæðum minna mega sín. En ég held að ríkið eigi ekki nú á tímum að vera að vasast í því að selja farseðla út um allan heim og reka ferðaskrifstofu. Ég er þeirrar skoðunar líka að ríkið eigi ekki t.d. að reka fiskverkun. Ég held að við eigum að láta einstaklingum það eftir, dugmiklum einstaklingum sem kunna þar vel til verka. Ríkið hefur rekið fiskverkun. Hér var starfandi á árum áður fiskiðjuver ríkisins vestur á Granda. Það getur vel verið að það hafi verið rétt skoðun og rétt ákvörðun á sínum tíma, en þessi mál eiga að vera í stöðugri endurskoðun. Mitt sósíaldemókratíska hjarta segir mér að ríkið eigi ekkert að vera að reka ferðaskrifstofu og ríkið sé betur komið án þess að vera með slíkan rekstur á sinni könnu og að slíkur rekstur sé í rauninni betur kominn í höndum einstaklinga. Svo einfalt er það. Ég hef enn ekki heyrt nein þau rök sem sérstaklega mæla með því eins og háttar til varðandi þjónustu við ferðamenn og móttöku erlendra ferðamanna hér á landi að ríkið eigi einhverjum sérstökum skyldum að gegna á þessum vettvangi. Mér eru ljósar skyldur ríkisins kannski að því er varðar starfssvið Ferðamálaráðs sem er allt annað og allt önnur Ella eins og þar stendur.

En ég heyri að báðir þeir hv. þm. sem ég beindi máli mínu sérstaklega til leggjast ekkert sérstaklega gegn því að þetta verði gert þannig að kannski er í rauninni ekki svo langt bil á milli okkar skoðana í þessu máli og þó að ég minntist á hina sovésku ríkisreknu ferðaskrifstofu var ég ekkert að líkja henni saman við Ferðaskrifstofu ríkisins og sagði raunar að hún væri mjög stórt fyrirtæki en kannski ekki að sama skapi jafnvirt og þarf ekkert að hafa fleiri orð um það.

Í þjóðfélögum þar sem ríkisrekstur er aðalreglan og einkarekstur er ýmist bannaður eða mjög takmarkaður rekur ríkið auðvitað ferðaskrifstofu vegna þess að einstaklingum er það bannað og þessi starfsemi þarf að vera til. Og ég endurtek að áreiðanlega var það rétt ákvörðun á sínum tíma að setja Ferðaskrifstofu ríkisins á laggirnar og það er áreiðanlega jafnrétt ákvörðun nú að losa ríkið við þennan rekstur, en það verður að gera með þeim hætti að eðlilegra hagsmuna ríkisins og skattþegnanna sem eiga þetta fyrirtæki sé gætt við söluna og það heyrði ég að hæstv. samgrh. tók undir áðan.